Aðsent

Starfsfólk tónlistarskólans hvetur bæjarstjórn til að endurskoða flutning bókasafnsins
Frá tónleikum í Bergi í Hljómahöll í desember sl. Nemandi í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar spilaði á píanó.
Föstudagur 17. janúar 2025 kl. 10:26

Starfsfólk tónlistarskólans hvetur bæjarstjórn til að endurskoða flutning bókasafnsins

Einu sinni

Ef Reykjanesbær hefur verið þekktur fyrir eitthvað, þá er það tónlist. Í áratugi hefur bærinn gefið af sér stórkostlega tónlist og tónlistarfólk í öllum geirum. Það kom því ekkert á óvart að þegar hugmyndin um að opna Rokksafn, yrði það innan bæjarmarka Reykjanesbæjar. Og ekki bara Rokksafn fyrir tónlistararfleið Reykjanesbæjar, heldur Rokksafn Íslands. Þar tókst einstaklega vel til og er íslenskri tónlist í nútíð og þátíð gerð góð skil á veggjum og borðum. Safnið var líka eitt fyrsta gagnvirka safn landsins þar sem hægt var að spila og grufla í tónlistinni sjálfri með þar til gerðum græjum, þar var hljóðeinangraður klefi sem hægt var að grípa í trommukjuða og rafmagnsgítar. En safnið hafði auk þess marga sögufræga muni úr tónlistarsögunni, kjól sem Ellý Vilhjálms klæddist, gítarsafn Björgvins Halldórssonar og ennþá lifir í minningunni fyrsta þema-sýningin sem var sett upp: ferill, búningar og dress Páls Óskars. Við söknum þess ennþá að sjá ekki endurkast af pallíettum og glimmer jakkafötum leika um loftin. En Rokksafnið var ekki bara safn, þar er innangengt í hinn fræga hljómleikasal, Stapa, og nýtist safnið sem inngangur og fordyri þegar haldnir eru tónleikar. Þar eru auk þess haldnar ráðstefnur, fundir, stórar og litlar veislur, og um nokkurra ára skeið hefur Reykjanesbær með allt sitt flotta starfsfólk haldið þar gríðarlega vel heppnaðar og fjölmennar árshátíðir.

En Rokksafn Íslands og hljómleikasalurinn Stapi, er ekki það eina í húsinu, hinn helmingur hússins hýsir Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Skólinn fékk þetta nýja húsnæði í ársbyrjun 2014 og er einn af örfáum Tónlistarskólum á Íslandi, ef ekki Evrópu, sem er hannaður með tónlistarkennslu eingöngu í huga. Sérlega mikið var lagt í undirbúning og hönnun hússins, allt var úthugsað og reynt að mæta þörfum tónlistarkennarans í hvarvetna. Enda tókst stórkostlega vel til, hægt er að fullyrða að allir tónlistarkennarar sem ganga inn í húsið í fyrsta skipti gapa af aðdáun og kannski örlítilli öfund. Hljóðeinangrun er meiri og fullkomnari en gengur og gerist, (slagverksstofan sérstaklega), stærð kennslustofanna er hugsuð út frá að þar inni komist píanó, stærri stofur fyrir samspil og hópkennslu, auk þess að við höfum aðgang ásamt Rokksafninu að frábærum tónleikasal. Sem dæmi má nefna að leikandi má hafa einleikstónleika á klassískan gítar í tónleikasalnum Bergi á meðan A-lúðrasveitin hefur æfingu í samliggjandi stofu. Það er sú lúðrasveit sem telur yngstu og aflmestu nemendurna. Og auðvitað snýst þetta allt um nemendur okkar, en í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eru 860 nemendur á öllum aldri, þar af eru 450 í forskólanum. Við eigum marga efnilega nemendur, fyrrverandi og núverandi sem eru að hasla sér völl á tónlistarsviðinu, í öllum geirum tónlistar. Við erum ákaflega stolt og ánægð með skólann okkar og nemendurna. Við stóðum í þeirri trú að bæjaryfirvöld væru það líka.

Um þessar mundir

Tónlistarkennarar við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar voru varla búin að taka niður 10 ára afmælisblöðrurnar og skreytingar (eftir heila helgi af tónleikum, þar sem var fullt hús af fólki) þegar við heyrum, eins og þrumu úr heiðskýru lofti, að ákvörðun hefði verið tekin af bæjarstjórn að Bókasafn Reykjanesbæjar skuli flutt í Hljómahöll og þar með inn í Tónlistarskólann. Sögusagnir um málið höfðu heyrst, en enginn trúði að þær væru sannar, svo ævintýralegar voru þær. Það var svo á kennarafundi í lok maí 2024 sem haldinn var í flotta tónleikasalnum okkar, Bergi, að verkefnastjóri þessa verkefnis og þrír bæjarfulltrúar meirihluta bæjarstjórnar (þar af bæði forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs) og tjáðu okkur þurrlega frá þeirri ákvörðun að nú skyldi Bókasafn Reykjanesbæjar koma í Rokksafnið og ekki nóg með það, heldur þyrfti Tónlistarskólinn að gefa eftir verulegan hluta af sínu húsnæði. Það var skólastjóri skólans sem hafði krafist þess að rætt yrði við starfsfólk skólans áður en starfsárinu lyki og bauð þessum aðilum á kennarafundinn undir liðnum “Flutningur Bókasafns í Hljómahöll -verkefnið kynnt”, enda höfðu hvorki bæjaryfirvöld né aðili frá Mannauðsdeild Reykjanesbæjar svo mikið sem forvitnast um líðan starfsfólks skólans sem telur 45 manns. Þess skal getið að í upphafi var krafist þagnarheiti af skólastjóra Tónlistarskólans varðandi flutning Bókasafnsins, gagnvart starfsfólki skólans.

Þau rými sem Tónlistarskólinn missir:

  • Heila kennslustofu – kennarinn sem þar kennir hefur enn ekki fengið staðfest hvar sú kennsla á nú að fara fram, né heldur hvar öll kennslugögn þar inni verða geymd.
  • Tvær stofur sem ætlaðar eru sem æfingastofur nemenda (okkar besta fólk) og gríðarlega umsetnar alla daga.
  • Nótnabókasafn skólans, svakalegt magn af nótum, tónlistarbókum og kennslugögnum fyrir öll þau hljóðfæri sem kennt er á við skólann. Þar er hljómplötusafn skólans og geisladiskar.
  • Vinnustofa hljómsveitarstjóra, en þar er einnig feikilega víðfemt safn af nótum sem notuð eru af fjölmörgu hljómsveitum skólans, þar missa líka hljómsveitarstjórar aðstöðu sína við að raða og skipuleggjar nótur fyrir sveitir sínar.
  • Ekki er ennþá komið í ljós hvernig málum varðandi almenna vinnustofu kennara verður háttað, en í því rými sinnum við ljósritun, útprentun og allri tölvuvinnu. Sé þetta endanlega niðurstaðan, missa tónlistarkennarar öll vinnurými sín í skólanum.

Einnig var talað um, en ekki útskýrt nógu vel, að Tónlistarskólinn og Bókasafnið myndu þurfa að samnýta rými. Þar er meðal annars verið að vísa í (grunar okkur) Tónleikasalinn Berg, sem nú þegar er ákaflega mikið notaður og með góðu samstarfi Tónlistarskólans og Rokksafnsins. Erfitt er að sjá fyrir sér þriðja aðila koma þar að með fleiri verkefni. 

Við vorum vægast sagt slegin eftir þennan fund, okkur óraði ekki fyrir því að þessi orðrómur væri sannur, en að sögn þarf Bókasafn Reykjanesbæjar 2000 fm fyrir starfsemi sína, en plássið sem Bókasafnið fær í Hljómahöll eru tæpir 1300. Það þarf ekki mikinn stærðfræðisnilling til að sjá að útreikningarnir eru áhugaverðir. Fundurinn var haldinn í trúnaði og því getum við ekki gefið upp þá tölu sem okkur var sagt að framkvæmdin myndi kosta. En útreikningarnir eru með svipuðu formi og fermetra útreikningurinn. Einnig sárnaði okkur mjög að ákvörðun skyldi tekin með þessum hætti, að einhverju leiti í skjóli myrkurs rétt fyrir sumarbyrjun og skólaslit, og engin umræða tekin, hvorki við okkur né starfsmenn Rokksafnsins. Ummælum okkar á fundinum, áhyggjum og spurningum var fálega tekið og fannst sumum tónlistarkennurum jafnvel gæta pirrings í okkar garð.
Eins og virðist menning til hjá bæjarstjórn, heyrðist ekkert í marga mánuði eftir þennan fund. Einhver heyrði einhversstaðar að framkvæmdir myndu byrja í janúar 2025. Enginn formlegur póstur, ekkert opinbert bréf. Skólaárið 2024-25 byrjaði í algjörri óvissu um framhaldið, kennarar reyndu að láta sem ekkert væri og héldu sínu striki. Ennþá heyrðist ekkert frá bæjaryfirvöldum þar til hópur framkvæmda-aðila kom í lok nóvember til að meta stöðuna og var steinhissa að við værum ekki búin að tæma þessi stóru rými sem minnst er á hér að ofan. Þetta skyldi gerast strax.
Svo að í miðri jóla-tónleika ösinni, sáu kennarar tónlistarskólans um að tæma bókasafnið, vinnustofu hljómsveitarstjóra og vinnustofuna. Nótna-bókasafninu hefur verið (bókstaflega) troðið inn í kennslustofur hvers hljóðfæris og eyðilagt þar með loft- og hljóðgæði, stóra hljómsveitanótnasafninu var trillað fram á gang og skapar þar mikla eldhættu, auk þess að gera skólann allan draslaralegan og erfiðan umgengis. Húsið er svo sannarlega ekki hannað með það í huga að hafa 17 hillumetra á göngum. Það er vert að rifja upp að þegar skólinn var opnaður voru ummæli arkítekts hússins á þá leið að öll uppröðun innanstokksmuna yrði vera í samráði við hann, kennarar höfðu m.a. ekki leyfi til að hengja myndir að eigin vali í kennslustofum sínum. Þau ummæli virðast gleymd nú. Einnig verður forvitnilegt að sjá hvernig loftræsting og hitajöfnun hússins tekur á þessu breytta umhverfi. Eld- og brunahætta er stórt áhyggjuefni.

Næst á dagskrá

Tónlistarkennarar eru vanir að hugsa út fyrir boxið, vera svolítið víðsýnir, enda er starf okkar þannig að á 30 mínútna fresti fáum við inní stofu til okkar nýtt viðfangsefni sem er ólíkt öllum öðrum viðfangsefnum. Á 30 mínútna fresti þurfum við að hugsa um eitthvað nýtt, eitthvað öðruvísi, eitthvað sem hentar best í stöðunni. Eitthvað sem hentaði ekki í gær, en gæti hentað í dag. Á fundinum góða í Bergi var okkur sagt og það ítrekað að fjölmargir aðrir kostir hefðu verið kannaðir, þeir metnir í bak og fyrir, en þessi fyrirætlun væri einfaldlega sú besta fyrir alla.
Nema Tónlistarskólann og Rokksafnið.

Þannig að okkur þætti vænt um að sjá kostnaðar-áætlanir, sundurliðaðar og með útskýringum, í samanburði við þessa sem nú á að ráðast í varðandi eftirfarandi húsnæði:

  • Myllubakkaskóli hefur eins og íbúar Reykjanesbæjar vita verið í mikilli yfirhalningu vegna myglu sem þar fannst. Var athugað að byggja þar viðbyggingu sem myndi rúma bæði skólabókasafn og almennings bókasafn?
  • Holtaskóli hefur einnig verið í mikilli endurnýjun vegna myglu og þar hefði eflaust líka verið hægt að bæta við fermetrum til að stækka við og hýsa bóksafn eða hluta þess.
  • Var athugað að hafa almenningsbóksafn í báðum þessum skólum og auk Stapaskóla að finna þar nógu marga fermetra? Færa þar með bækur safnsins nær fólkinu í bænum?
  • Stendur til að selja Íþróttaakademíuna og byggja í staðinn hús fyrir Fimleikadeild Keflavíkur? Var athugað hvort hagkvæmt væri að gera það og færa bókasafninu þangað?
  • Hefur kostnaðurinn verið kannaður við að endurhanna flugskýli við Ásbrú sem menningarmiðstöð, eins og tíðkast víða í Evrópu? Fá jafnvel erlenda fjárfesta og sprotafyrirtæki til að taka þátt í stóru verkefni sem myndi nýtast fleirum?
  • Var athugað hver kostnaðurinn yrði við að skipta bæjarskrifstofum upp í smærri einingar eftir sviðum og flytja á minni mismunandi staði í bænum? Losa þar með efri hæð ráðhúss og leyfa bóksafninu að stækka í þá átt?

Við í Tónlistarskólanum vitum að tónlistarnám er ekki lögbundið nám og að fasteignir Reykjanesbæjar eru ekki í okkar eigu. Við vitum að bókasafnið var fyrir löngu búið að sprengja utan af sér húsnæðið og þurfti að komast á nýjan stað. Við vitum að Rokksafnið var ekki vinsælasta safn Evrópu sem malaði gull vegna aðsóknar. Við vitum að bókasöfn eru mjög mikilvæg og það er oft hægt að samnýta stofnanir. Það er enginn lygi eða ýkjur að við elskum bókasafnið og við elskum bækur, við elskum líka allt samstarf og höfum átt mikið og gott samstarf við bókasafnið í gegnum árin. En það er ekki hægt að troða 10 ára barni í föt af 8 mánaða. Hvorugt nýtist, hvorugu líður vel og bæði líta illa út í augum almennings.

Til hvers að sérhanna stóra og flotta byggingu með sértæka starfsemi í huga, en nota svo húsnæðið í eitthvað allt annað nokkrum árum síðar? Eru bæjarbúar sáttir við að svona sé farið með fjármuni bæjarins?

Við grátbiðjum bæjarstjórn Reykjanesbæjar um að endurskoða ákvörðun sína um að flytja Bókasafn Reykjanesbæjar í Rokksafnið og Tónlistarskólann.

Frá kennurum og starfsfólki Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.