Hátíðleg útskriftarathöfn Keilis í Hljómahöll
Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 49 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ föstudaginn 10. janúar. Athöfnin heppnaðist afar vel enda mikil gleði og stolt sem fylgir hverri útskrift. Nú hafa 4977 einstaklingar útskrifast úr námi við skólann.
Í athöfninni voru útskrifaðir 38 nemendur af Háskólabrú og 11 nemendur úr námi í fótaaðgerðarfræði.
Alexander Grybos og Guðjón Steinn Skúlason hófu athöfnina með ljúfu tónlistaratriði fyrir viðstadda. Því næst flutti Berglind Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Keilis, ávarp og stýrði athöfninni. Megináhersla í ræðu framkvæmdastjóra var um mikilvægi þess að læra af reynslunni fyrir einstaklinginn sjálfan sem og samfélagið, áhrif gervigreindar í nútíma heimi og varnarorð fyrir framtíðina tengt þeirri tækni. Þá var einnig ávarpað mikilvægi þess að temja sér þakklæti fyrir innri ró og til efla andlega heilsu.
Eftir ávarp framkvæmdastjóra flutti Skúli Freyr Brynjólfsson ávarp fyrir hönd starfsmanna Keilis þar sem hann fór yfir vegferð nemenda í náminu og þakkaði þeim sérstaklega fyrir samfylgdina sem og samstarfsfólki fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf.
Háskólabrú Keilis brautskráði samtals 38 í fjarnámi. Berglind Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri afhenti skírteini og viðurkenningarskjöl til útskriftarnema með aðstoð Dóru Hönnu verkefnastjóra og Þóru Kristínu námsráðgjafa. Dúx Háskólabrúar var Aðalsteinn Jóhannsson með 9,54 í meðaleinkunn og fékk hann peningagjöf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Guðsteinn Fannar Ellertsson hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Háskólabrúar.
Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla í 18 ár og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nemendur geta valið um að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu sem og viðbótarnám við stúdentspróf á verk- og raunvísindadeild. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.
Heilsuakademía Keilir útskrifaði 11 nemendur úr fótaðgerðarfræði, Berglind Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Keilis afhenti skírteini með aðstoð Skúla Freys verkefnastjóra og Thelmu námsráðgjafa. Dúx í fótaðgerðarfræði var Signý Ingvadóttir með 9,55 í meðaleinkunn og fékk hún peningagjöf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Bjarnveig Guðbrandsdóttir flutti ræðu fyrir hönd útskriftarnema í fótaaðgerðarfræði.
Keilir stendur frammi fyrir breytingum en nám í fótaaðgerðarfræði færist til Fjölbrautaskóla Suðurnesja frá og með hausti 2025.
Nú eru nemendur á Háskólabrú Keilis fleiri en á sama tíma í fyrra og sú námsleið heldur áfram sem fyrr, enda verið kjölfestan í starfseminni frá stofnun skólans árið 2007. Þá býður Keilir jafnframt upp á námskeið til undirbúnings fyrir inntökupróf í læknis-, tannlæknis- og sjúkraþjálfunarfræði við Háskóla Íslands en nú þegar hafa skráð sig rúmlega 300 nemendur og bætist í hópinn í hverri viku.