Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Fréttir

Skorað á sjávarútvegsráðherra að framlengja togveiðibann við Reykjanes
Laugardagur 5. maí 2007 kl. 15:07

Skorað á sjávarútvegsráðherra að framlengja togveiðibann við Reykjanes

Smábátafélag Reykjaness hefur sent sjávarútvegsráðherra erindi þar sem skorað er á hann að framlengja togveiðibann á svæði úti af Reykjanesi sem samkvæmt reglugerð hefur verið skilgreint sem sérstakt neta- og línusvæði. Smábátasjómenn á Suðurnesjum hafa löngum barist fyrir því að umræddu svæði  sé hlíft fyrir botndregnum veiðarfærum og ítrekað sent sjávarútvegsráðherra áskoranir þess efnis. Þeim hefur í engu verið svarað.

Frá og með 1. maí er togurum styttri en 42 m með aflvísi lægri en 2500, heimiilaðar veiðar upp að 4 sjómílum frá Sandgerði en bannið hefur gilt frá 5 nóv. ár hvert. Svæðið sem um ræðir er hið eina á veiðislóð smábáta utan 4ra sjómílna sem er friðað fyrir togveiðum og skilgreint í reglugerð sem sérstakt neta- og línusvæði, segir í erindi sem smábátafélagið hefur sent frá sér til ráðherra, þar sem skorað er á hann að framlengja bann við veiðum með botndrengum veiðarfærum á umræddu svæði.

„Svæðið er öflugt hrygningarsvæði og því rík ástæða til að hlífa því fyrir botndregnum veiðarfærum. Í dag er enn meiri ástæða til að fara varlega, þar sem Hafrannsóknastofnun álítur nánast alla árganga frá og með 2001 lélega. Nú gæti hins vegar orðið viðsnúningur þar sem mikið magn loðnu gekk yfir svæðið sem eykur möguleika þess að hrygning gangi vel. Við smábátaeigendur sem gerum út frá Suðurnesjum teljum afar brýnt að framlengja bann við togveiðum á þessu sérstaka línu- og netasvæði,“ segir í erindinu.

Þar segir ennfremur: „Fyrir réttu ári, 5. maí 2006, fimm dögum eftir að togurum var hleypt inn á svæðið ritaði stjórn Reykjaness þér bréf um þetta málefni. Þar sagði m.a.: „Á öllum stigum málsins hafa fulltrúar Reykjaness lagt áherslu á að sú verndun sem fælist í „hrygningarstoppi“ færi forgörðum ef heimilað yrði að trolla yfir hið mikilvæga hrygningarsvæði frá og með 1. maí. Frá þeim degi hafa 22 togarar trollað þvers og kruss á svæðinu og valdið gríðarlegri eyðileggingu.“ Því sem hér er lýst vilja línu- og netaveiðimenn á Reykjanesi ekki þurfa að upplifa nú ári síðar.
Í langan tíma (í árum talið) hefur Smábátafélag Reykjaness sent vel rökstutt erindi til sjávarútvegsráðuneytisins þess efnis að línusvæðið verði heilsárssvæði. Hér með er það ítrekað. Miklum völdum fylgir mikil ábyrgð sem ástæða er til að hafa í huga þegar ákvörðun er tekin sem gæti skipt sköpum varðandi nýliðun 2007 árgangs þorsksins.
Að lokum fer Smábátafélag Reykjaness fram á að þessu mikilvæga erindi félagsins verði svarað, en á það hefur skort 100% til þessa,“ segir í áskoruninni.


VF-mynd / Ellert Grétarsson.