Hvernig samfélag viljum við?
Ég vil búa í framsæknu samfélagi sem lætur sig velferð íbúanna varða, þar sem fólk er stolt af því að leggja sitt af mörkum og nýtur hvatningar til góðra verka.
Sú velferð sem er grundvöllur viðvarandi árangurs er mæld í líðan fólks og tækifærum til þátttöku í samfélaginu. Þátttaka í samfélaginu er okkur öllum mikilvæg og lykillinn að því að upplifa að framlag okkar skipti máli. Það vill enginn sitja hjá í lífinu, við eigum að styðja hvert annað til þátttöku þegar á móti blæs.
Þátttaka okkar mótast m.a. af tækifærum til fjölbreyttrar atvinnu og öflugu menntakerfi sem býður upp á undirbúning fyrir fjölbreyttar leiðir í lífinu eftir áhugasviði og styrkleikum hvers og eins. Tækifæri sem verða til þess að við njótum þess að búa í okkar góða bæ og ala börnin okkar upp í öruggu samfélagi þar sem allir skipta máli. Þegar við eldumst eigum við að geta gengið að því vísu að í boði sé samfelld þjónusta sem tryggir að við getum notið þess að búa heima eins lengi og kostur er, að við njótum efri áranna við tómstundir og samverustundir hvert með öðru.
Lífsgæði eru því ekki mæld í söfnun auðs heldur í félagslegum gæðum, líkamlegri og andlegri líðan. Án þessara þátta er auðsöfnun lítils virði. Það er þó grundvallaratriði að einstaklingar geti séð fyrir sér og sínum, að þeim standi til boða tækifæri til að lifa lífi sínu óháð öðrum og njóta eigin hæfileika. Árangur í rekstri sveitarfélaga er nátengdur tækifærum íbúanna til atvinnuþátttöku, heilbrigðu rekstrarumhverfi fyrirtækja, möguleikum þeirra til vaxtar og fjölgun starfa. Fjölgun starfa ein og sér dugir þó skammt ef ekki er fyrir öflugur mannauður til að sinna þeim störfum sem til verða. Til þess þarf trygga undirstöðu í menntun og getu til þátttöku á vinnumarkaði.
Gífurleg sveifla í atvinnuleysi á svæðinu sl. tvö ár sýnir hversu viðkvæm við erum gagnvart áskorunum í ferðaþjónustu. Gera má ráð fyrir að allt að 35% vinnuafls í sveitarfélaginu starfi í flug- eða ferðaþjónustutengdum störfum (var 26% árið 2017 skv. könnun MMR). Það gefur auga leið að áhættan er mikil þegar áhrif einnar greinar á atvinnustig í sveitarfélaginu er orðið þetta hátt. Til að auka fjölbreytni er fyrsta skrefið að tryggja að framboð menntunar á svæðinu búi unga fólkið okkar undir framtíðina og þróist í takt við þá þróun sem við sjáum á vinnumarkaði.
Nýr veruleiki blasir við á vinnumarkaði. Störf án staðsetningar eru að ryðja sér til rúms um allan heim og gangi spár eftir mun næsta kynslóð að stórum hluta velja sér starfsframa byggðan á verkefnum, frekar en föstu starfi hjá einu fyrirtæki. Þessi verkefni verða unnin í fjarvinnu, í nágrenni við, eða innan veggja heimilisins. Í þessu eru falin fjölmörg tækifæri fyrir Reykjanesbæ. Með öflugri þjónustu við barnafólk, stuðningi við frumkvöðla og sérfræðinga sem velja sér störf með þessu sniði, getum við gert Reykjanesbæ að framúrskarandi kosti til búsetu. Tekjur sveitarfélagsins í formi útsvars takmarkast því ekki við störf innan fyrirtækja, heldur koma í auknu mæli frá mannauðnum sem í sveitarfélaginu býr og skapar sín eigin störf. Heimurinn er undir, heimurinn er þannig orðinn eitt atvinnusvæði.
Það er okkar að hlúa vel að þessum mannauði um leið og við byggjum upp öflugt sveitarfélag sem tekur fagnandi á móti nýsköpun og framþróun í atvinnulífinu.
Ég vil leggja mitt af mörkum til að grípa þau tækifæri sem framtíðin felur í sér íbúum Reykjanesbæjar til heilla og gef því kost á mér í 3ja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Helga Jóhanna Oddsdóttir
Viðskiptafræðingur M.Sc.