Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Letingjarnir fá ekki neitt
Guðmundur Stefán Gunnarsson.
Sunnudagur 6. apríl 2014 kl. 09:00

Letingjarnir fá ekki neitt

Síðan ég byrjaði að þjálfa júdó í Reykjanesbæ hef ég tekið eftir hlutum sem mér voru huldir og/eða þóttu bara vera eðlilegir hér áður fyrr. Í þessum pistli ætla ég að ræða fjáraflanir.

Er siðlegt að nota umframfé sem gjaldeyri?

Mörgum þykir mikið sanngirnismál að þeir sem afli fjárins fái sanngjarnan hlut, þ.e. að allur ágóði fari til þeirra sem hafa fyrir því að selja og að „letingjarnir fá ekki neitt“. Oft er það nú þannig að afgangur verður af söfnunum. Til dæmis kostar ferð minna en áætlað var eða börnin hafa safnað hærri fjárhæðum en þörf er á. Hvað á að gera við umframfé? Ef til vill þykir mörgum rétt að söfnunarféð eigi a renna í gjaldeyrissjóð þeirra sem safnað hafa peningunum. Þarna þykir mér grundvallarmisskilningur hafa orðið á hugtökunum félagsandi og sanngirni.

Ólíkur félagslegur bakgrunnur barna

Í félagi hjálpast allir að að ná markmiðum sínum með samstilltu átaki. Í minni orðabók er ekki til neitt sem heitir löt börn. Yfirleitt liggur einhver ástæða að baki þess að þau taki ekki þátt í fjáröflunum. Innflytjendur eða börn innflytjenda og/eða aðflutt fólk eiga til dæmis ekki auðvelt með að selja stórfjölskyldu sinni eða vinum vörur til fjáröflunar. Félagslegur bakgrunnur barna er mjög ólíkur og við þurfum að taka tillit til þess. Börn með félagsfælni (sem eiga líklega foreldra með félagsfælni) geta ekki hugsað sér að fara og ganga í hús hvað þá að standa í verslunarmiðstöðvum og selja vörur til fjáröflunar. Margt annað getur hamlað, til dæmis veikindi á heimili; líkamleg eða andleg, svo eitthvað sé nefnt. Er það ekki hluti af félagsandanum að styðja og hjálpa þessum einstaklingum? Er sanngjarnt að börn þurfi að sitja heima og missa af mótum og ferðalögum, vegna sjúkdóma, heimilisaðstæðna eða breytinga á búsetu?

Endurvekjum félagsandann

Þegar við styðjum og styrkjum félagsstarfsemi gætum þess þá vel upp á í hvað styrkirnir fara. Eru þeir notaðir til uppbyggingu félagsstarfsins eða í gjaldeyri fyrir þá sem eiga sterkt bakland og hafa tækifæri á að safna háum fjárhæðum. Endurvekjum félagsandann og vinnum saman og styðjum við bakið á félögum okkar þegar þörf er á!

Guðmundur Stefán Gunnarsson, þjálfari júdódeildar UMFN og í 5. sæti lista Framsóknar í Reykjanesbæ.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024