Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Opið bréf til Umhverfisstofnunar vegna United Silicon
Föstudagur 11. ágúst 2017 kl. 12:15

Opið bréf til Umhverfisstofnunar vegna United Silicon

Í annað sinn í sömu vikunni fengu bæjarbúar í gærkvöldi yfir sig brunastækjuna frá verksmiðju United Silicon í Helguvík. Þetta er í annað sinn á innan við viku sem umhverfishrottarnir í Helguvík hrifsa af mér þau lífsgæði að geta sofið við opinn glugga. Þau lífsgæði virðast ekki eins sjálfsögð og þau voru áður, a.m.k. ekki fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Fjöldi bæjarbúa fann fyrir þessu í gækvöldi. Fólk, sem ætlaði að nota þurrkinn, þurfti að rífa þvott af snúrum og setja aftur í þvottavél. Aðrir, sem voru úti að dytta að húsum og görðum, þurftu að flýja inn í hús. Margir finna fyrir ertingu í augum og öndunarfærum.

Langt er síðan bæjarbúar fengu nóg af því að vera neyddir til þátttöku í þessari siðlausu lýðheilsutilraun í boði Arion banka og lífeyrissjóðanna. Og nú vil ég fá svör Umhverfisstofnunar við eftirfarandi spurningum. Óskað er eftir því að stofnunin svari þeim hér á sama vettvangi þar sem hún virðist vera hætt að svara þeim ábendingum bæjarbúa sem henni berast gegnum vefsíðu hennar:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Finnst Umhverfisstofnun boðlegt þetta ástand sem að ofan er lýst? Ef ekki, hversu lengi á þetta þá að fá að viðgangast? Hvenær er komið nóg að mati Umhverfisstofnunar, sem virðist hafa önnur viðmið en bæjarbúar í þeim efnum?

Í Reglugerð um loftgæði, 9. grein segir: „Forráðamenn fyrirtækja og stofnana skulu sjá um að reykur, ryk og lofttegundir, sem eru hættulegar, daunillar eða lyktarmiklar, valdi ekki óþægindum í nánasta umhverfi.“ Það er öllum ljóst að forráðamönnum United Silicon hefur engan veginn tekist að uppfylla ákvæði 9. greinar frá því verksmiðjan tók til starfa í nóvember á síðasta ári. Þeir hafa komist upp með það í átta mánuði og sá tími er löngu liðinn að hægt sé að tala um byrjunarörðugleika. Hversu lengi í viðbót eiga þeir að komast upp með það að uppfylla ekki þetta ákvæði? Eru engin tímamörk á því?

Um miðjan mars óskaði United Silicon eftir sex mánaða fresti til að koma málum sínum í lag en Umhverfisstofnun hafnaði því. Nú styttist í að sex mánuðir verði liðnir síðan þessi beiðni var lögð fram. Hyggst Umhverfisstofnun láta þann tíma líða, eins og United Silicon óskaði eftir? Hvenær mun fresturinn, sem var hafnað sem samt veittur, renna út?

Í 21. grein reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, segir meðal annars: „Skylt er útgefanda starfsleyfis að endurskoða það ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búast mátti við þegar leyfið var gefið út...“ Hvernig og hvenær ætlar Umhverfisstofnun að framfylgja þessu ákvæði?

Í Víkurfréttum þann 5. ágúst er haft eftir talsmanni United Silicon að ekki verði byggt yfir hauga af viðarflís á lóð fyrirtækisins, eins og bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa farið fram á. Þar er eftirfarandi haft eftir talsmanninum: „Viðarflísin er náttúrulegt efni og náttúruvæn. Viðarflísin sem hefur farið af stað í roki verður fljótt að frjóum jarðvegi sem hjálpar gróðri að vaxa og dafna. Viðarflís er almennt geymd úti á sama hátt og hér og er Grundartangi gott dæmi um það. Víða á Austurlandi er viðarflísin notuð í beð, göngustíga, hjólastíga og fleiri jákvæða hluti.“ Er Umhverfisstofnun sammála þessari túlkun? Ef svo er, þýðir þetta þá að trésmíðaverkstæðin geta hætt að fjárfesta í síubúnaði og blásið saginu og viðarkurlinu beint út um vegginn á verkstæðinu?

Skýr svör óskast. Reykjanesbær 11.8.2017.


Ellert Grétarsson,
Íbúi í Reykjanesbæ