Þetta er allt að koma, en ekkert kemur
Leikskólamál í Reykjanesbæ
Snemma vors þegar ég áttaði mig á að sveitarstjórnarkosningar væru yfirvofandi fór ég að velta fyrir mér hvort nú væri ekki tíminn til að hafa áhrif á stefnumótun bæjarfélagsins okkar. Ég settist því niður og skrifaði stutta grein um málefni sem er mér mjög nærri, leikskólamál og málefni barna í Reykjanesbæ.
Í raun hefur fátt annað verið rætt á mínu heimili í tæplega fimm ár. Þeir sem þekkja mig kunna að telja það furðulega stærðfræði, þar sem elsta barnið mitt er aðeins fjögurra ára gamalt, en það er einmitt kjarni málsins. Það er ekki seinna vænna að fara ræða dagvistun og leikskólamál um sama leyti og getnaður á sér stað.
Börnin svikin
Viðbrögðin við greininni minni „Fyrstu ár barnanna og góður kaffibolli“ leyndu sér ekki og á vissan hátt var markmiðinu náð með þeirri umræðu sem skapaðist hjá barnafjölskyldum í bænum, en við tengjum öll við þetta vandamál. Ég virðist þó einnig hafa hitt á veikan blett hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar, en það vill svo skemmtilega til að allt það sem þarf að bæta í málefnum barna eru svikin kosningaloforð frá síðustu kosningum. Loforð sem hafa farið álíka hátt og 500.000 kr. eingreiðslan sem fyrrum oddviti (og núna þingmaður) Framsóknarflokksins lofaði kennurum Reykjanesbæjar.
Bærinn með „Allt undir Control“
Núna eftir því sem kosningar nálgast virðast fulltrúar bæjarstjórnar ætla taka þann pól í hæðina að hér sé allt í topp standi í leikskólamálum og að þau séu með „allt undir control“. Ekki ein heldur tvær greinar hafa verið ritaðar af bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar um „Aðgerðaráætlun í leikskólamálum Reykjanesbæjar“. Mér hálf svelgdist á morgunbollanum þegar ég las að búið sé að „rýna til gagns og greina“ þetta allt í þaula. Sem foreldri tveggja barna á leikskólaaldri slær þetta mig sem hrokafull lýsing á aðstæðum sem greinarhöfundar hafa nákvæmlega engan skilning á.
Til að byrja með snýst málið um að tryggja börnum örugga dagvistun við 12 mánaða aldur, sem er tíminn sem foreldrar hafa til fæðingarorlofs í dag. Sú dagvistun er ekki trygg, öll pláss eru full og tugir barna á biðlistum. Þessu þarf að breyta.
Næsta mál á dagskrá er að tryggja börnum leikskólapláss. Það er nær öruggt að það mun ekki gerast fyrir tveggja ára aldur og eins gott að barnið sé fætt á réttum tíma, því í Reykjanesbæ er aðeins hægt að taka á móti börnum að hausti til og börn þurfa að hafa náð tveggja ára aldri til að komast örugglega inn. Þessu þarf að breyta.
Vandi meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar er sá að hún er of upptekin að bregðast við breytingunum í stað þess að undirbúa sig fyrir breytingarnar. Þessum vinnubrögðum þarf að breyta.
Ég heiti Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, ég býð mig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ og ég boða breytingar.