Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þjónusta talmeinafræðinga  á öllum æviskeiðum
Sunnudagur 6. mars 2022 kl. 08:41

Þjónusta talmeinafræðinga  á öllum æviskeiðum

Evrópudagur talþjálfunar er 6. mars ár hvert. Þemað í ár er „Þjónusta talmeinafræðinga á öllum æviskeiðum“ en skjólstæðingar talmeinafræðinga eru á öllum aldri. Við greinum tal- og málmein og veitum ráðgjöf og þjálfun. Starfsstöðvar talmeinafræðinga eru fjölbreyttar m.a. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ), Landspítali (Grensás og BUGL), Reykjalundur, Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins (RGR), sveitarfélög, þjónustumiðstöðvar og talmeinastofur sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga

Börnin eru framtíðin

Eitt hlutverk talmeinafræðinga er að fræða foreldra ungra barna og fagfólk um málþroska og málhljóðamyndun. Ungbarnavernd heilsugæslunnar fylgist með málþroska barna og vísar þeim sem ekki fylgja hefðbundnum viðmiðum til talmeinafræðings, m.a. ef barn er ekki farið að segja 10 orð við 18 mánaða aldur.  Ef grunur er um heyrnarskerðingu þarf að vísa strax til HTÍ. Þessi snemmtæka íhlutun getur komið í veg fyrir frekari málþroskavanda síðar. Þegar barn er komið í leikskóla hafa skólarnir ýmis úrræði og vísa til sinna talmeinafræðinga þegar áhyggjur eru af máli eða tali. Þá hafa bókasöfnin í sveitarfélögunum fjölbreytt bókaúrval fyrir öll börn ásamt spilum og sögutöskum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frá fæðingu sinna talmeinafræðingar á Landspítala börnum í erfiðleikum með fæðuinntöku og þeim sem fæðast með skarð í vör/ gómi í samstarfi við HTÍ. 

Í leikskólum er notast við málþroska- og framburðarskimanir. Þær greina á milli barna með hefðbundinn málþroska og barna með möguleg frávik í málþroska eða framburði. Í kjölfar skimana er mikilvægt að talmeinafræðingar taki við og leggi fyrir ítarlegra mat á málfærni barna, meti þörf á stuðningi í leikskóla, auka málörvun og talþjálfun. Þá er mikilvægt að foreldrar fái greinargóðar upplýsingar frá talmeinafræðingi um málþroska barnsins  og aðferðir og úrræði til að efla málþroska og framburð heima fyrir. Talmeinafræðingar í skólum og á talmeinastofum um allt land sinna einnig  greiningum og talþjálfun hjá börnum á grunnskólaaldri. Oftast vegna málþroskaraskana (DLD) eða framburðarfrávika. Trappa fjarþjálfun er mikilvæg lausn í talþjálfun.

Málið okkar – horft til framtíðar. Metnaðarfullt verkefni í Suðurnesjabæ  

Veturinn 2020 – 2021 hófu undirritaðar samstarf við Fræðsluþjónustu Suðurnesjabæjar og leikskólana í Suðurnesjabæ og Vogum. Markvisst var unnið að verkefni sem lifir áfram undir formerkjum; Málið okkar – horft til framtíðar. Bætt var enn frekar í starf leikskólanna í málþroska, málhljóðamyndun og bókstafaþekkingu, hljóðkerfisvitund, hugtakaskilningi og grunni að stærðfræði. Fræðsla um verkefnið var fyrir starfsfólk leikskólanna og alla foreldra með áherslu á samvinnu allra sem að koma. Foreldrar taka þátt í að örva málþroska með skipulögðum hætti  en málþroski er undirstaða fyrir frekara nám og dýrmætt veganesti fyrir lífið.  


Starf talmeinafræðinga með fullorðnum 

Orsakir mál- og talmeina hjá fullorðnum geta verið af ýmsum toga. Þjóðin er að eldast og það verður mikil þörf á sama tíma fyrir þjónustu talmeinafræðinga. Málþroskaröskun eldist ekki af einstaklingum, fylgir þeim alla ævi.

Þá er stam er til staðar hjá  0,7 -1% fullorðinna. Einstaklingar geta upplifað radderfiðleika, hæsi, raddbandalömun og fleiri mein í hálsi, tengt atvinnu eða sjúkdómum.

Með hækkandi aldri koma fram taugasjúkdómar t.d. Parkinson sjúkdómurinn, MS og MND, þar sem þvoglumæli getur verið til staðar. Um 1% þeirra sem eru 60 ára eða eldri fá Parkinson sjúkdóminn. Kyngingarörðugleikar verða algengari og málstol og minnisglöp sem geta orsakað skerta tjáningu, auk erfiðleika við að lesa og skrifa. 

Árlega fá um 120 einstaklingar á Íslandi málstol vegna heilablóðfalls en þá verður skemmd í þeim hluta heilans sem geymir málkunnáttu okkar. Aðrar orsakir geta til dæmis verið heilaæxli, slys, taugasjúkdómar eða hrörnunarsjúkdómar. 

Samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir Heilbrigðisráðuneytið eru um 4280 einstaklingar með heilabilun á Íslandi.

Mörgum þessara einstaklinga og fjölskyldum þeirra gæti nýst þjónusta og ráðgjöf talmeinafræðinga.

Talmeinafræðingar á Suðurnesjum

Á Suðurnesjum búum við vel þegar kemur að þekkingu á þessu sviði. Á Fræðslusviði Reykjanesbæjar starfa tveir talmeinafræðingar, einn talmeinafræðingur hjá Fræðsluþjónustu Grindavíkur og einn talmeinafræðingur hjá Fræðsluþjónustu Suðurnesjabæjar og Voga. Auk þeirra starfa tveir talmeinafræðingar sjálfstætt m.a. í samstarfi við Hjallastefnuskólanna. Þá munu tveir talmeinafræðingar sem búa í Reykjanesbæ ljúka námi við HÍ síðar á þessu ári. Trappa fjarþjálfun kemur jafnframt að talþjálfun barna í Suðurnesjabæ og Vogum.

Eins og sjá má í þessari umfjöllun okkar er þjónusta við talmeinafræðinga víðfeðm. Því miður er þó bið eftir talþjálfun á svæðinu og fullorðnir einstaklingar á Suðurnesjum þurfa gjarnan að sækja talmeinaþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Það stendur vonandi til bóta á næstu árum. 

Bryndís Guðmundsdóttir
Sjálfstætt starfandi talmeinafræðingur

Hjördís Hafsteinsdóttir
talmeinafræðingur Fræðsluþjónustu Suðurnesjabæjar