Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tillaga um heilsugæslu í Suðurnesjabæ
Föstudagur 22. september 2023 kl. 06:00

Tillaga um heilsugæslu í Suðurnesjabæ

Í upphafi þings hef ég lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að heilbrigðisráðherra feli Sjúkratryggingum Íslands að skoða kosti þess að bjóða út rekstur heilsugæslu í Suðurnesjabæ, með samstarfi við einkaaðila eða Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS. Jafnframt er heilbrigðisráðherra falið að gera tillögu að samþættingu þjónustu sérfræðilækna og annarra sérgreina í öllum byggðarkjörnum á Suðurnesjum.

Í greinargerð með þingsályktuninni kemur m.a. fram að í Suðurnesjabæ búi um 4.000 manns eftir að sveitarfélögin Garður og Sandgerði sameinuðust fyrir um sex árum síðan. Þetta gerir Suðurnesjabæ að fjölmennasta sveitarfélagi landsins þar sem ekki er starfrækt heilsugæslustöð. Heilbrigðisþjónusta og opnun heilsugæslustöðvar í Suðurnesjabæ er löngu tímabær og mikilvægur hluti grunnþjónustu hvers samfélags. Mikilvægt er að skoða í heild hvernig heilsugæslu- og heilbrigðisþjónusta í sveitarfélögunum á Suðurnesjum getur unnið saman í framtíðinni og bjóði fjölbreyttari þjónustu sérfræðilækna í heimabyggð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samstarf um sérfræðiþjónustu

Jafnframt felur þingsályktunin í sér að ráðherra láti kanna hvernig heilsugæslur á Suðurnesjum geti unnið saman í framtíðinni að bættri þjónustu, framboði af sérfræðilæknum og almennri þjónustu sem í boði eru á bestu heilsugæslustöðvum í nútímasamfélagi. Leiða má líkur að því að auknir valmöguleikar hvað varðar rekstrarform hafi í för með sér að auðveldara verði að fá heimilislækna til starfa á Suðurnesjum, en oft og tíðum hefur reynst erfitt að fá sérfræðinga, hvort sem er á sviði læknisfræðinnar eða annarra sérfræðigreina, til starfa á landsbyggðinni og því mikilvægt að gera starfsumhverfi þeirra eins fjölbreytt og aðlaðandi og unnt er.

Kostir einkarekinna heilsugæslustöðva

Þá hefur reynslan af einkareknum heilsugæslustöðvum verið góð og njóta þær almennt meira trausts en aðrar heilsugæslustöðvar, sbr. þjónustukönnun Maskínu fyrir allar nítján heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2019. Þar kom fram að allar fjórar einkareknu heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu voru ofarlega á lista yfir þær heilsugæslustöðvar sem nutu mests trausts, en þær voru allar meðal þeirra sjö heilsugæslustöðva sem voru efstar í könnuninni. Í sömu könnun var spurt um ánægju viðskiptavina með þá þjónustu sem heilsugæslustöðvarnar buðu upp á og var niðurstaðan aftur afgerandi, en einkareknu heilsugæslustöðvarnar fjórar röðuðu sér í fjögur efstu sætin.

Kostir einkarekinna heilsugæslustöðva eru ótvíræðir og því full ástæða til þess að bjóða ekki einungis upp á þann kost á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig tryggja landsbyggðinni möguleika á að nýta sér þjónustu þeirra. Það skref hefur nú verið stigið í Reykjanesbæ og þar opnaði einkarekin heilsugæsla í byrjun september við Aðaltorg þar sem komin er vísir að heilsuklasa á Suðurnesjum sem áhugavert verður að fylgjast með í náinni framtíð.

Aukið samstarf um sérfræðiþjónustu

Það eru rúm tvö ár síðan að bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ óskuðu eftir því við heilbrigðisráðuneytið að fá heilsugæslustöð í bæjarfélagið. Mörg ár eru síðan ákveðið var að loka heilsugæsluselum í Garði og Sandgerði til að styðja við bakið á þjónustu HSS í Reykjanesbæ. Það kom snemma í ljós að sú ákvörðun var ekki farsæl, hvorki fyrir íbúa né HSS. Nú kjósa fjölmargir íbúar í Suðurnesjabæ að sækja þá þjónustu til Reykjavíkur og nýja heilsugæslu á Aðaltorgi. Það er því tæplega 4.000 manna sveitarfélag sem býr við skort á þjónustu í sínu nærumhverfi og bætast sá hópur við þá þjónustu sem veitt er í Reykjanesbæ og höfuðborgarsvæðinu sem þegar er undir miklu álagi. Ráðherra á ekki annan kost en að leysa þennan bráðavanda með hagsmuni íbúa í Suðurnesjabæ og á Suðurnesjum í huga.

Með því að opna heilsugæslustöð í Suðurnesjabæ og auka samstarf þeirra á svæðinu með tíðari viðveru sérfræðilækna má stórbæta aðgengi íbúa að heilbrigðisþjónustu. Það er mat flutningsmanna að við getum í sameiningu leyst þann vanda sem við blasir með góðri samvinnu einkareksturs og opinbers reksturs. Auk greinarhöfundar eru flutningsmenn þingsályktunarinnar Birgir Þórarinsson, Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason og Ásthildur Lóa Þórsdóttir. Öllum þingmönnum kjördæmisins var gefinn kostur á að vera meðflutningsmenn tillögunnar.

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.