Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vilhjálm Árnason í fyrsta sætið!
Föstudagur 28. maí 2021 kl. 12:35

Vilhjálm Árnason í fyrsta sætið!

Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, gefur nú kost á sér í fyrsta sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.

Vilhjálmur er heiðarlegur og hæfur stjórnmálamaður með öfluga framtíðarsýn á mörgum sviðum. Hann hefur þann kost að geta unnið með fólki úr öllum flokkum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Honum er treyst í pólitíkinni, ekki eingöngu af samflokksfólki sínu heldur þvert á allt litróf stjórnmálanna. Slíkur kostur er afar mikilvægur en því miður förunautur fárra er starfa í pólitík.

Eftir hverju erum við að leita þegar horft er til framtíðarleiðtoga? Viljum við ekki öðruvísi leiðtoga í dag? Ungan leiðtoga sem skilur og skynjar tækifærin sem eru framundan en jafnframt leiðtoga sem ber sér ekki á brjóst né lætur hátt til að ná markmiðum sínum fram. Leiðtogi sem starfar af dugnaði á bak við tjöldin, skapar og finnur leiðir, hnikar málum áfram og endanum skilar góðu dagsverki í hús, þannig pólitíkus er Vilhjálmur, sannur alla leið.

Vilhjálmur er búinn að sanka að sér ómetanlegri reynslu og þekkingu á gangverki Alþingis og öðrum ríkisstofnunum. Það má ekki kasta slíkri þekkingu á glæ, hvað þá í tilfelli hæfra einstaklinga sem enn eru ungir að árum. Ekki er síður mikilvægt að leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu hafi traust kjósenda sem og forystunnar sem ég veit að Vilhjálmur hefur áunnið sér með störfum sínum á Alþingi síðastliðin níu ár. Vilhjálmur er gríðarlega vel að sér um málefni kjördæmisins og má þar nefna til sögunnar nokkur mál er varða okkur Suðurnesjamenn. Hugmyndir Vilhjálms um framkvæmdir og breytingar á heilsugæslusviði eru mjög spennandi en hann heimsótti fyrir skemmstu fyrirtækið okkar IceMar ehf. í Reykjanesbæ og fangaði athygli allra á vinnustaðnum með framsetningu sinni á þeim baráttumálum sem hann stendur fyrir. Ef þær leiðir sem Vilhjálmur hefur unnið að á síðustu misserum verða fetaðar þá mun vandamál á heilsugæslusviði að mínu mati heyra sögunni til hér Suðurnesjum.

Það þarf skýra framtíðarsýn í svona stór mál, virkja þarfa krafta fagaðila frá bæði hinu opinbera sem og einkageiranum svo hægt verði að tryggja framúrskarandi þjónustu fyrir alla íbúa á svæðinu. Við Suðurnesjamenn viljum bætta þjónustu og er Vilhjálmur maðurinn í verkið. Hann hefur verið framsögumaður sjálfstæðismanna á Alþingi í stórum málum er snúa að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, nýja skjólgarðinum í Njarðvík fyrir Skipasmíðastöðina, framkvæmdir í höfnum innan svæðisins o.s.frv.

Það er enginn að mínu viti sem þekkir málefnin og verkefnin á Suðurnesjum eins vel og hann.

Vilhjálmur hefur skýra framtíðarsýn um hvernig Suðurnesin geta endurheimt virðingu sína og er áberandi hæfur til að taka að sér ráðherraembætti. Hann hefur allan pakkann eins og við segjum stundum um fjölhæfa körfuboltamenn sem geta náð langt. Eftir að hafa starfað hnökralaust í níu ár sem alþingismaður og þar af í nokkur ár sem varaformaður þingflokks sjálfstæðismanna, þá get ég með vissu sagt – Vilhjálmur er tilbúinn og hann mun ég kjósa í fyrsta sætið.

Gunnar Örlygsson
Höfundur er fyrrverandi alþingismaður
og framkvæmdastjóri IceMar ehf. í Reykjanesbæ.