Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Ótrúlega rík af reynslu eftir þetta“
Hólmfríður Árnadóttir, Vinstri grænum, á kjörstað í Sandgerðisskóla í september 2021 með manni sínum, Hannesi Jóni Jónssyni. VF-mynd: pket
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 1. október 2021 kl. 14:08

„Ótrúlega rík af reynslu eftir þetta“

– segir Hólmfríður Árnadóttir, oddviti VG í Suðurkjördæmi

„Ég er auðvitað ekki sátt við að svona hafi farið en svona er þetta bara. Svona eru kosningar,“ segir Hólmfríður Árnadóttir, oddviti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi. Hún var komin inn á þing eftir að lokatölur Alþingiskosninganna höfðu verið gefnar út snemma á sunnudagsmorgun. Hún var tíundi þingmaður kjördæmisins og jöfnunarþingmaður.

Þegar svo óvænt var talið aftur í Norðvesturkjördæmi og úrslit breyttust þar fór hringekja jöfnunarþingsæta í gang og Hólmfríður missti sæti sitt og Guðbrandur Einarsson var kominn á þing fyrir Viðreisn. Í millitíðinni hafði Hólmfríður setið sinn fyrsta þingflokksfund hjá VG og fékk tíðindin í útvarpsfréttum á leiðinni heim til Sandgerðis að hún væri fallin út af þingi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hólmfríður er skólastjóri Sandgerðisskóla en hefur verið í leyfi frá þeim störfum á meðan hún hefur staðið í kosningabaráttunni. Hún mun snúa aftur til starfa í skólanum á föstudaginn. „Svo verður maður bara að sjá til hvernig framvindan verður,“ sagði Hólmfríður.

Aðspurð um stjórnarmyndun þá segist hún ekki vita hvernig framhaldið verður og hvort VG fari í ríkisstjórnarsamstarf við Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk.

Hvernig var að taka þátt í framboði til Alþingis?

„Þetta var ótrúlega skemmtilegur tími. Þetta var lærdómsríkt og ég hitti og kynntist fullt af fólki. Þetta var mjög skemmtilegt og ég brenn fyrir þetta og er ótrúlega rík af reynslu eftir þetta.“

Áttu von á því að þessi staða breytist og þú fáir þingsæti að nýju?

„Ég er ekki að gera mér neinar vonir um það og finnst ólíklegt að það gerist. Mér finnst skrítið að gefa út endanlegar tölur og ákveða svo að telja aftur. Ég hlakka til að sjá greinagerðina sem ég óskaði eftir. Annars er ég ekki að búast við að þetta breytist neitt ef ég á að vera hreinskilin,“ segir Hólmfríður Árnadóttir, oddviti VG í Suðurkjördæmi, í samtali við Víkurfréttir.