Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Útboð Fríhafnarinnar kært
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 6. desember 2024 kl. 10:26

Útboð Fríhafnarinnar kært

Útboð Isavia á rekstri fríhafnarverslana í flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið kærð en nýlega var greint frá því að þýska fyrirtækið Heinemann tæki við rekstrinum í mars 2025 en samningurinn er til næstu átta ára.

Þetta sama fyrirtæki rekur fríhafnarverslanir víða í Evrópu og þar á meðal á alþjóðaflugvöllunum í Ósló og Kaupmannahöfn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áætlanir gerðu ráð fyrir að Heinemann tæki við fríhafnarverslunum á Keflavíkurflugvelli í mars á næsta ári en nú gæti orðið á því bið þar sem ákvörðun Isavia um val á tilboði í útboðinu hefur verið vísað til Kærunefndar útboðsmála. „Málið er í ferli þar,“ segir í svari Isavia við fyrirspurn vefmiðilins FF7.

Vefmiðillinn hefur greint frá því í fréttum að Fríhöfnin hafi keypt inn vörur af íslenskum birgjum fyrir um sex milljarða króna. Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta er ljóst að þessi breyting mun hafa mikil áhrif á þá en mjög stór hluti tekna þeirra kemur frá sölu varnings til Fríhafnarinnar eða frá 30 til 50%. Heinemann kaupir almennt inn vörur í gegnum vörulager sinn í Þýskalandi.

VF greindi frá áhyggjum Suðurnesjamanna af afdrifum starfsfólks en vel á annað hundrað manns hafa starfað í Fríhöfninni í langan tíma og lang flestir búsettir á Suðurnesjum. Í fyrirspurn VF fengust þau svör að réttindi og skyldur núverandi starfsmanna færðust yfir til hins nýja aðila og að engar uppsagnir yrðu við breytinguna. Vitað er að all nokkrir starfsmenn hafi þegar ákveðið að hætta störfum þegar þýska fyrirtækið tekur við á nýju ári.