Á 135 km. hraða undir áhrifum áfengis og fíkniefna
Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum mældi á 135 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á Reykjanesbraut um helgina viðurkenndi að aka undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann var með rafrettu með kannabisvökva í í bifreið sinni. Annar ökumaður sem tekinn var úr umferð sama kvöld viðurkenndi fíkniefnaakstur.
Afskipti hafa verið höfð af allmörgum ökumönnum á undanförnum dögum sem gerðust brotlegir í umferðinni. Um var að ræða akstur á ótryggðum eða óskoðuðum bifreiðum, grun um vímuefnaakstur og svo óku nokkrir ökumenn án réttinda.
Þá varð umferðaróhapp á Hafnavegi þegar tvær bifreiðir lentu saman en engin slys urðu á fólki.