Ákvað að láta drauminn rætast
- Gekk með hugmyndina í maganum í nokkur ár
Grindvíkingurinn Issi opnaði Fish and chips vagn í júlí á Fitjum. Staðurinn hefur notið mikilla vinsælda þar en samkvæmt ummælum á Facebook síðu Fish and Chips fær hann fullt hús stiga í stjörnugjöf. Issi hefur verið með þessa hugmynd í maganum í nokkur ár og sér ekki eftir því að hafa látið drauminn rætast.
„Þetta hefur gengið vonum framar,“ segir Jóhann Issi Hallgrímsson, en það er nóg að gera hjá honum alla daga. Reksturinn gengur mjög vel og fastakúnnar hafa þegar myndast hjá honum. „Ég er farinn að sjá sömu andlitin aftur og aftur.“ Erlendir ferðamenn eru farnir að hringja á öllum tímum til þess að fá upplýsingar um hvar vagninn hans sé staðsettur eftir að hafa lesið um hann á netinu.
Issi eldar úr úrvals hráefni en fiskurinn er sjófrystur frá Þorbirni og segir hann að það sé besti fiskurinn til að elda úr fyrir þennan rekstur því hann stjórnar magninu sem hann notar daglega enda er mismikil traffík dag frá degi. Ekki skemmir að gæðin eru líka mjög góð. „Kartöflurnar eru sérvaldar af mér. Ég vildi fá almennilegar kartöflur með fisknum. Það þýðir ekkert að vera með einhver strá með honum, fólk þarf að hafa eitthvað til að bíta í.“
Annar vagn var staðsettur í Grindavík en hann er nú hættur með hann vegna þess að erfiðlega gekk að ráða fólk í vinnu. „Það er gott að vera með annan vagn á lausu ef það koma upp einhver önnur verkefni.“ En þegar blaðamann bara að garði þá var verið að spyrja hann hvort hann gæti komið með hinn vagninn sinn á Sandgerðisdaga.
Þegar Issi er spurður að því hversu lengi vagninn muni standa á Fitjum þá segist hann ætla vera með hann þangað til hann fjúki í burtu og hlær svo, það er reyndar ekki ætlunin og leitar hann að lausn til að festa hann betur niður áður en haustlægðirnar koma suður með sjó.
„The batter was great“, segir ferðamaður þegar hann er að ganga í bílinn sinn og hrósar kokknum eftir að hann var búinn að borða fisk og franskar úr vagninum. Sósan sem fylgir með fisknum og frönskunum er margrómuð og hafa margir sóst eftir því að fá að vita hvað hún inniheldur, „Ég get ekki sagt þér frá því hvað er í sósunni, hún er algjört hernaðarleyndamál,“ sagði Issi sposkur á svip.