Fréttir

Lögregla sendir varnaðarorð í farsíma í Svartsengi og Grindavík
Föstudagur 21. febrúar 2025 kl. 13:44

Lögregla sendir varnaðarorð í farsíma í Svartsengi og Grindavík

Í Grindavík er áhætta há fyrir alla hópa, bæði að nóttu sem degi. Á Svartsengissvæðinu er áhætta talin há, bæði að nóttu sem degi. Á gos-/sprengisvæði er áhættan hins vegar óásættanleg fyrir viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka, ytri aðila og ferðafólk. Mælt er gegn því að óviðkomandi fari inn á gos- og sprengisvæði. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum.

Lögregla mun í dag senda út eftirfarandi varnaðarorð inn á farsíma (GSM) í Svartsengi og í Grindavík: Grindavik is a volcanic area! Increased activity is observed, eruption may be possible. Stay alerted and prepared for evacuation. Info at www.safetravel.is

Gera má ráð fyrir því að slíkar sendingar „leki“ út fyrir skilgreint hættusvæði. Tilgangur með þessum sendingum er að ná til erlendra ferðamanna sem koma inn á hættusvæðið. Fyrirkomulag verður endurskoðað að viku liðinni dragi ekki áður til tíðinda innan hættusvæðis.

Litakóði fyrir Svartsengi orðinn appelsínugulur og rauður fyrir Sundhnúkagígaröðina

Í ljósi uppfærðra líkanreikninga vegna mögulegs eldgoss á Sundhnúkagígaröðinni hefur Veðurstofan gefið út uppfært hættumat. Það gildir til 25. febrúar, að öllu óbreyttu.

Þrjár breytingar eru frá síðasta hættumati. Hætta á svæði 1 (Svartsengi) og svæði 5 fara úr því að vera metin „nokkur“ (gulur) yfir í að vera metin „töluverð“ (appelsínugulur). Hættan fyrir svæði 3, Sundhnúksgígaröðin, fer úr því að vera metin „töluverð“ (appelsínugulur) yfir í að vera metin „mikil“ (rautt).