Tvö börn með fjölþættan vanda geta kostað Suðurnesjabæ 330 milljónir króna á ári
Búsetuúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda voru til umfjöllunar á síðasta fundi bæjarráðs Suðurnesjabæjar og minnisblað um málefnið til umræðu. Bæjaryfirvöld hafa sent frá sér neyðarkall til stjórnvalda um að taka sér tak í málaflokknum.
Fyrir liggur erindi frá velferðarsviði Suðurnesjabæjar, þar sem óskað er eftir fjárheimild að fjárhæð 86,5 milljónir króna til viðbótar við fjárheimild í fjárhagsáætlun 2025. Í erindinu kemur fram að um er að ræða búsetuúrræði fyrir tvo einstaklinga í einkareknum úrræðum og er áætlað að kostnaður vegna þeirra fyrstu fimm mánuði ársins 2025 verði 136,50 milljónir króna.
„Bæjarráð getur ekki samþykkt að rekstur sveitarfélagsins geti staðið undir þeim kostnaði sem tilgreindur er í erindinu, hvað þá ef framhald væri á þessum úrræðum út allt árið. Samkvæmt erindinu má reikna með að á árinu 2025 gæti umræddur kostnaður alls orðið nálægt kr. 330.000.000. Það er algerlega augljóst að þetta dæmi getur ekki með nokkru móti gengið upp. Ef sveitarfélagið neyðist til að standa undir þessum kostnaði þarf bæjarstjórn annað hvort að ráðast í mikinn niðurskurð á þjónustu við íbúa sveitarfélagsins eða að rekstrarniðurstaða ársins verður verulega neikvæð. Ef það verður niðurstaðan mun Suðurnesjabær ekki standast fjármálareglu sveitarstjórnarlaga, sem kallar á afskipti ráðuneytis og eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga,“ segir í afgreiðslu fundarins.
Þá ítrekar bæjarráð fyrri ályktanir um málið, sem og erindi sem send hafa verið til ráðuneyta, ríkisstofnana og alþingismanna. Þá vísar bæjarráð til funda og samtala sem bæjarstjóri hefur ásamt starfsfólki velferðarsviðs átt við ráðherra, embættismenn og fulltrúa ríkisstofnana sem málið varðar.
Þá segir: „Bæjarráð Suðurnesjabæjar sendir neyðarkall til stjórnvalda um að taka sér tak, bæta nú þegar úr því úrræðaleysi sem ríkir í málaflokknum og koma til framkvæmda tillögum nokkurra starfshópa sem hafa fjallað um þá nauðsynlegu þjónustu sem viðkomandi einstaklingar þurfa á að halda, síðast í áfangaskýrslu II sem kom út í september 2024 þar sem fram koma tillögur um aðgerðir til að mæta því ófremdarástandi sem uppi er í þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Þar er m.a. lagt til að ríkið annist þjónustu og úrræði fyrir viðkomandi einstaklinga. Grundvallaratriði er að taka utan um viðkomandi einstaklinga, veita þeim þjónustu við hæfi og hlúa að þeim með uppbyggilegum hætti, eins og almennt ber að gera gagnvart börnum.“
Bæjarráð Suðurnesjabæjar samþykkti samhljóða að fela bæjarstjóra að koma ályktun bæjarráðs á framfæri við ráðuneyti og stofnanir sem málið varðar, sem og við alþingismenn og umboðsmann barna. Einnig sendir bæjarráð ákall til Sambands íslenskra sveitarfélaga um að setja þetta mál í forgang í samskiptum við ríkisvaldið. Bæjarráð samþykkir jafnframt samhljóða að fresta því að taka afstöðu til erindisins frá velferðarsviði.