Aukin hætta á eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni
Uppfærðir líkanreikningar sýna að magn kviku sem hefur safnast fyrir undir Svartsengi er nú jafn mikið og það var fyrir gosið sem hófst 20. nóvember í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Miðað við fyrri atburði á Sundhnúksgígaröðinni má því ætla að vaxandi líkur séu á að næsti atburður hefjist innan nokkurra daga eða vikna.
Ef til eldgoss kemur verður það áttunda eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni frá því í desember 2023. Vegna þessara endurteknu atburða þar sem kvikugangar og gossprungur hafa myndast hefur spenna í jarðskorpunni minnkað með hverjum atburði. Það þýðir að sífellt færri og minni skjálftar mælast á svæðinu vikurnar og dagana fyrir gos en gerðu í aðdraganda fyrstu eldgosanna.
Reikna þarf með mjög stuttum fyrirvara um eldgos, allt niður í 30 mínútur. Þau merki sem hafa sést þegar kvika leitar til yfirborðs eru áköf smáskjálftahrina á Sundhnúksgígaröðinni, þrýstingsbreytingar í borholum HS Orku í Svartsengi, aflögun á ljósleiðara og aflögun á yfirborði sem sést á rauntíma GPS-mælingum.
Skjálftar á Sundhnúksgígaröðinni í gærkvöldi
Um klukkan 19.50 í gærkvöldi mældust nokkrir skjálftar á fáeinum mínútum á svæðinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells sem gátu verið merki um upphaf kvikuhlaups. Sólarhringsvakt Veðurstofunnar sá engin önnur merki á mælakerfum um að kvikuhlaup væri hafið.
Sambærileg skjálftavirkni sást á þessum slóðum 4. nóvember í fyrra, en eldgos hófst 20. nóvember.
Við hverju má búast í næsta eldgosi?
Talið er líklegast að kvikan komi fyrst upp á svæðinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Það hefur verið tilfellið í sex gosum af þeim sjö sem hafa orðið frá því að eldvirknin hófst í árslok 2023. Undantekningin er eldgosið sem hófst í janúar 2024 þegar kvikan kom fyrst upp rétt suður af Hagafelli.
Áhrif frá eldgosi sem kemur á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells fer svo eftir því hvort gossprungan lengist í norður eða suður. Dæmi um áhrif ef til eldgoss kemur:
- Ef eldgos hefst í óhagstæðri vindátt getur sterkur upphafsfasi skapað hættu vegna gasmengunar í allt að 1 km radíus frá upptökum.
- Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn og/eða við Svartsengi utan varnargarða á innan við 1,5 klukkustundum.
- Ef hraun fer yfir tjarnir eða kvika kemst í snertingu við grunnvatn gæti myndast staðbundin sprengivirkni.
Ekkert í gögnum Veðurstofunnar útilokar að eldgos komi upp sunnan við eða suður af Hagafelli. Í slíkum atburði gæti hraun náð að Nesvegi og Suðurstrandarvegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað öllum flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkustundum.
Kortið sýnir staðsetningu á fyrstu gosopnun (stjarna) og lengd gossprungu í þeim sjö eldgosum sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni frá desember 2023.
Aukin hætta á þremur svæðum í uppfærðu hættumati
Í ljósi uppfærðra líkanreikninga hefur Veðurstofan gefið út uppfært hættumat. Það gildir til 25. febrúar, að öllu óbreyttu. Þrjár breytingar eru frá síðasta hættumati. Hætta á svæði 1 (Svartsengi) og svæði 5 fara úr því að vera metin „nokkur“ (gulur) yfir í að vera metin „töluverð“ (appelsínugulur). Hættan fyrir svæði 3, Sundhnúksgígaröðin, fer úr því að vera metin „töluverð“ (appelsínugulur) yfir í að vera metin „mikil“ (rautt).
(Smellið á kortið til að stækka)