Fréttir

Gengur hratt á þriggja milljarða handbært fé Grindavíkurbæjar
Settir verða upp um sjö kílómetrar af öryggisgirðingum í Grindavík til að girða af hættuleg og sprungin svæði í bænum. Hér er unnið að uppsetningu girðingar við Suðurhóp. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 21. febrúar 2025 kl. 06:46

Gengur hratt á þriggja milljarða handbært fé Grindavíkurbæjar

Handbært fé Grindavíkurbæjar var ríflega 3,3 milljarðar króna um síðustu áramót að meðtöldum tjónabótum frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, NTÍ. Hratt mun ganga á fjármunina samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir Grindavíkurbæ og stofnanir fyrir árin 2025 til 2028. Í árslok 2028 er gert ráð fyrir að handbært fé verði 51 milljón króna.

Fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar og stofnana fyrir árin 2025 til 2028 var lögð fram til síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar í lok janúar. Áætlunin ber þess merki að starfsemi Grindavíkurbæjar er í algjöru lágmarki út áætlunartímabilið. Áætlun um tekjur byggir á mjög óljósum forsendum en ljóst er að mikið tekjufall verður hjá Grindavíkurbæ. Gert er ráð fyrir samdrætti í launum og öðrum rekstrarkostnaði en þrátt fyrir það verður verulegur rekstarhalli öll árin.

Áætluð rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningsskilum A- og B-hluta gera ráð fyrir rekstrarhalla upp á tæpar 1.364 milljónir króna á þessu ári. Rekstrarhallinn er svo ráðgerður tæpar 553 milljónir króna árið 2026, á árinu 2027 er hann ráðgerður ríflega 523 milljónir og árið 2028 er rekstrarhalli áætlaður 545 milljónir króna.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða framlagða áætlun.