Úrræði fyrir íbúa með flóknar þjónustuþarfir
Fjögur smáhús verða tekin í notkun á næstunni við Hákotstanga í Innri-Njarðvík. Húsin eru nánast tilbúin og munu nýtast þeim sem eru með miklar og flóknar þjónustuþarfir og eru án heimilis sem stendur og því í brýnni þörf fyrir úrlausn í húsnæðismálum sínum.
Smáhúsin eru nauðsynleg viðbót í fjölbreytta flóru þjónustu velferðarsviðs Reykjanesbæjar, enda eru á annan tug íbúa í brýnni þörf fyrir þessa tegund búsetu. Þrjú hús eru nú þegar í útleigu fyrir íbúa Reykjanesbæjar og hafa nýst þeim íbúum vel. Nú er verið að taka næsta skref í þróun þessarar velferðarþjónustu og samhliða hefur verið farið í markvisst starf um stefnu í þjónustu við einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Velferðarsvið og umhverfissvið hafa unnið að uppbyggingu verkefnisins í náinni samvinnu og eru húsin nú að verða tilbúin fyrir úthlutun til væntanlegra íbúa. Undirbúningur fyrir úthlutun húsanna og væntanlegrar þjónustu fyrir nýja íbúa þeirra er unninn í samvinnu virkni- og ráðgjafarteymis, heima- og stuðningsþjónustuteymis og Bjargarinnar, geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja.

Viljayfirlýsing undirrituð
Markmið þjónustu við íbúa smáhúsanna er að veitt sé einstaklingsbundin, heildstæð og sveigjanleg þjónusta í þeim tilgangi að íbúi geti búið á eigin heimili og verið virkur þátttakandi í samfélaginu á eigin forsendum. Skal þjónustan veitt með það að markmiði að efla vald íbúa yfir aðstæðum sínum og lífi, styrkja sjálfsmynd hans, sjálfstraust, félagslega stöðu, sjálfsvirðingu og lífsgæði.
Síðastliðinn föstudag var haldið opið hús á Hákotstanga og við sama tilefni undirrituðu helstu samstarfsaðilar viljayfirlýsingu um þjónustu við væntanlega íbúa húsanna. Undir viljayfirlýsinguna skrifuðu; velferðarsvið Reykjanesbæjar, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, Reykjanesapótek og Suðurnesjadeild Rauða krossins sem rekur Frú Ragnheiði. Sameiginlegt markmið þeirra er að sinna einstaklingsbundinni þjónustu við íbúa smáhúsanna eins og best verður á kosið hverju sinni. Jafnframt er tekið fram að unnið verði út frá hugmyndafræðinni Húsnæði fyrst og skaðaminnkandi nálgun og leitast við að þjónusta íbúa húsanna út frá þjónustuþörfum þeirra og þeim aðstæðum sem þeir búa við.

Hugmyndafræðin Húsnæði fyrst byggir á gildum skaðaminnkunar og gengur út frá því að húsnæði sé grunnþörf og teljist til mannréttinda. Aðeins þegar þessari grunnþörf sé mætt, geti einstaklingur í þessari stöðu ráðið við aðrar áskoranir í sínu lífi. Hugmyndafræði skaðaminnkunar felur í sér að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu á notendur vímuefna, fjölskyldur þeirra, nærsamfélagið og samfélagið í heild. |
Jöfnum tækifærum íbúa til heilbrigðs lífs og vellíðunar
Samhliða leigusamningi er gerð einstaklingsáætlun sem felur í sér skýr markmið sem vinna skal að með viðkomandi einstakling. Stuðningurinn er veittur út frá þeirri áætlun og úrræði mismunandi þjónustuaðila samhæfð, eftir því sem hver íbúi er metin í þörf fyrir.
„Þetta er gríðarlega mikilvægt því öruggt húsnæði er oft fyrsta skrefið til þess að geta unnið að bættum lífsskilyrðum fólks. Húsnæði fyrst stefnan hefur skilað miklum árangri og dregið úr langtímaheimilisleysi víða um heim. Þjónustan leiðir til aukinna lífsgæða þjónustuþega og aðstandenda þeirra,“ segir Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjanesbæjar.
Með þessu vinnur Reykjanesbær að því að auka lífsgæði íbúa og stuðla að jöfnum tækifærum þeirra til heilbrigðs lífs og vellíðunar. Velferðarráð Reykjanesbæjar hvetur til samkenndar og mannúðlegrar nálgunar um verkefnið og óskar þess að bæjarbúar nálgist umræðuna af nærgætni.
Frekari þróun í þessa átt áætluð
„Þau sem munu koma og flytja inn í þessi hús eru íbúar okkar sem búa við miklar og flóknar þjónustuþarfir og þurfa á svona sérstöku búsetuúrræði að halda,“ sagði Hilma Hólmfríður, teymisstjóri á velferðarsviði Reykjanesbæjar, við tilefnið.
„Við erum mjög stolt af því að opna þessi hús og bæta við fjölbreytta flóru velferðarþjónustu í Reykjanesbæ. Við erum með þrjú smáhús í notkun hjá sveitarfélaginu núna og þetta er viðbót við það.“
Hilma segir að það sé áætlað að frekari þróun verði í þessa átt í þjónustu Reykjanesbæjar enda sé brýn þörf fyrir svona búsetuúrræði í Reykjanesbæ.

Það velur sér enginn að verða fíkill
„Við hjá Reykjanesapóteki erum búin að vera vinna allskonar svona skaðaminnkandi verkefni í gegnum tíðina. Byrjuðum í raun og veru árið 2022 með Lyfjastoð, þar sem við vorum að taka viðtalsmeðferðir við fólk sem var að taka lyf. Hjálpa þeim að finna út hvort lyfin séu að passa, hvort þau séu rétt tekin og hvort það séu einhverjar skaranir á milli lyfja – með það að markmiði að bæta meðferðarheldni og draga úr skaðsemi lyfja,“ segir Björn Traustason frá Reykjanesapóteki. „Í kjölfarið á því fórum við í samstarf við fyrirtækið Prescriby sem þróaði aðferð til að aðstoða fólk við að hætta á ávanabindandi lyfjum.“
Björn segir að í framhaldi af því hafi Reykjanesapótek farið að kynna sér það sem kallast viðhaldsskammtar á lyfjum. „Það er í raun og veru fyrir fólk sem er búið að vera í neyslu og vill að minnsta kosti draga úr henni og reyna stýra sér inn á leið sem er auðveldara að vinna með.
Það velur sér náttúrulega enginn að verða fíkill. Þetta er líffræðilegt fyrirbæri sem er erfitt að vinna með og það sem gerist líka þegar fólk á við fíknivanda að stríða,
Besta leiðin til að vinna úr því eða allavega draga úr því er að grunnurinn sé í lagi. Þess vegna er svona verkefni, svona húsnæðisaðstoð við fólk, alveg risastórt skref til þess að aðstoða fólk við að draga úr neystu eða jafnvel að hætta henni með tímanum.“
Nánar er rætt við Hilmu og Björn í spilaranum hér að neðan.