Mannlíf

Fólk er opnara í dag með hinn andlega heim
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 16. febrúar 2025 kl. 06:10

Fólk er opnara í dag með hinn andlega heim

Jón Lúðvíks miðlar skilaboðum að handan hjá Sálarrannsóknarfélagi Suðurnesja

Þrátt fyrir hraða tækniþróun og vísindalegar framfarir vekja spurningar um lífið eftir dauðann enn óbilandi áhuga hjá fólki. Á öldum áður voru þessar vangaveltur alfarið tengdar trúarbrögðum og goðsögnum en í dag hafa ýmis andleg fræði og miðlar rutt sér til rúms sem brú milli hins jarðneska og andlega heims. Miðlar segjast hafa hæfileika til að tengjast þeim sem hafa yfirgefið þennan heim og miðla skilaboðum frá „handanheimi“. Sumir líta á þetta sem einstaka gjöf sem veitir fólki huggun og leiðsögn, á meðan aðrir sjá það sem efni til efasemda og fræðilegra rannsóknar.

Völvuspár eru eitthvað sem við könnumst flest við og tengjast oft nýju ári. Völvur eru oftast ónafngreindar og sagðar horfa í kristalskúlu sína til að sjá fyrir atburði framundan. Völvur eru oftar en ekki fólk með miðilshæfileika og þannig með tengingar í önnur orkusvið og jafnvel framliðna. Una Guðmundsdóttir var fædd 18. nóvember 1894 og látin 4. október 1978. Una hafði sterka tengingu við andlega krafta og var oft nefnd Völva Suðurnesja. Fjölmargir leituðu til Unu vegna hennar dulrænu hæfileika um andlegan stuðning og hjálp í margskonar erfiðleikum.

Skiptar skoðanir á starfi miðla

Á Suðurnesjum er félagsskapur sem kallast Sálarrannsóknarfélag Suðurnesja og hefur starfað í áratugi. Þar er fjölbreytt starf, hvort sem um er að ræða námskeið ýmiskonar, jóga og djúpslökun, heilun og dáleiðsla, reiki, skyggnilýsingar eða einkafundir hjá miðli. Bænahringir eru einu sinni í viku og lengi mætti telja. Tilgangur félagsins er að efla áhuga almennings á andlegum málum.

Í gegnum tíðina hafa verið skiptar skoðanir á starfi miðla. Efahyggjumenn líta oft á miðlun og frásagnir af lífi eftir dauðann sem sjálfsblekkingu, sálfræðileg fyrirbæri eða jafnvel svik. Í gegnum söguna hafa margir menningarheimar trúað á anda og verur úr öðrum heimum sem hafa áhrif á lífið í jarðneska heiminum. Vísindin eru almennt varkár varðandi tilvist lífs eftir dauðann, þar sem engar áþreifanlegar sannanir liggja fyrir. Þó eru sálfræðingar og læknar sem hafa safnað saman frásögnum um nærdauðaupplifanir og yfirnáttúrulegar upplifanir. Mörg trúarbrögð hafa sínar kenningar um líf eftir dauðann. Kristni, íslam og gyðingdómur tala um himnaríki, helvíti eða annars konar tilvist eftir dauðann. Hindúismi og búddismi leggja áherslu á endurholdgun, þar sem sálin fæðist aftur í nýju lífi.

En hvað felst í starfi miðils? Er þetta meðfæddur hæfileiki, lærð grein eða blanda af hvoru tveggja? Í þessu viðtali fáum við innsýn í reynsluheim miðils og það sem gerist á bak við tjöldin í þessu dularfulla en jafnframt forvitnilega starfi. Við hittum viðmælanda okkar yfir kaffibolla og kexi í húsi Sálarrannsóknarfélags Suðurnesja við Víkurbrautina í Keflavík.

Hnefaleikar og „handanheimar“

Jón Lúðvíks hefur starfað sem miðill í átján ár og leggur áherslu á að það að miðla sé ekki dularfull náðargáfa heldur hæfileiki sem allir geta þróað. Í viðtalinu segir Jón frá sinni fyrstu reynslu aðeins tíu ára gamall, hvernig hann lærði að skilja skilaboð frá handanheimi og hvernig hann aðgreinir þau frá eigin hugsunum.

Jón er einstæður, tveggja barna faðir og formaður Hnefaleikasambands Íslands. Persónulega hefur hann þó aldrei farið í hringinn til að boxa í keppni, heldur fylgdi börnunum sínum í íþróttina sem leiddi hann alla leið til formennsku í Hnefaleikasambandinu. Jón er lærður áhættuleikari fyrir kvikmyndir og veitir ráðgjöf um áhættuleik fyrir sjónvarp, kvikmyndir og leikhús. Það eru hins vegar andleg málefni sem eiga hug hans allan. Hann starfar sem miðill og við kennslu á því sviði.

Jón segir að líf sitt snúist í dag um andleg málefni. Jón leggur áherslu á að hann sé ekki sálfræðingur. Hann vilji að það fólk sem leitar til hans dafni og blómstri og nái lengra í lífinu. Hann heldur mörg sjálfstyrkingarnámskeið og er með kennslu í andlegum málefnum þar sem hann segist vilja að þátttakendur verði betri en hann.

Hvenær áttir þú fyrstu snertinguna við miðilshæfileikann?

„Það er þegar ég er tíu ára gamall og afi minn deyr. Þá fatta ég í fyrsta skipti að ég er að sjá einstakling sem er ekki lifandi. Ég horfði á hann inni í herberginu mínu eftir jarðarförina og skildi ekki af hverju hann væri hjá mér. Ég fór til mömmu og pabba og spurði hvers vegna afi væri inni í herberginu mínu. Þau höfðu ekki þekkingu eða reynslu í þessum málum og tjáðu mér að afi væri ekki inni í herberginu og ég ákvað því að fela það.“

Jón gerði lítið með þessa reynslu sína þar til árið 2000 þegar hann ákvað að snúa við blaðinu í lífinu og fór að horfa inn á við, vinna með tilfinningar sínar og breyta lífi sínu. Hann segist hafa verið í neikvæðu líferni sem hafi áhrif á allt hans líf og fólkið í kringum sig. Jón hefur starfað sem miðill í átján ár.

Hvernig lýsir þú þinni tengingu. Hvernig birtist þér það sem fólk kallar fyrir handan? Er þetta eitthvað orkusvið?

„Ég flokka allt undir orku. Við erum ákveðin orka og þau sem eiga ekki líkama eru ákveðin orka. Sálirnar eru ákveðin orka. Þetta er allt orka. Ég lifi með dauðum og það er eðlilegt fyrir mér. Það er ekki eins og þú horfir inn í himnaríki. Þau eru bara með okkur og hjá okkur í þessu veraldlega lífi en bara í annarri orkutíðni.“

Hvernig eru þessi skilaboð að birtast þér?

„Þau birtast mér í 90 prósent tilvika sem tilfinning. Þetta er nákvæmlega eins og þú ert ekki í neinum vafa um að þú elskir konuna þína. Þú hefur sönnun innra með þér fyrir því. Á sama tíma getur þú aldrei sannað að þú elskar konuna þína. Þú getur sagt við mig helling af hlutum en þú sannar aldrei tilfinninguna. Sönnunin fyrir mig kemur í því þegar ég hitti einstaklinga sem ég hef aldrei áður hitt í lífinu og er að miðla til að segja þeim og þau segja: „Já, þetta passar.“ Þetta er sönnunin fyrir mér. Ég hef gert þetta það lengi að það sannar mínar upplifanir í tilfinningum. Ég fæ mestu skilaboðin í gegnum tilfinningar og þriðja augað. Ég heyri ekki talað við mig eða þess háttar.“

Fullkomlega öruggur með að þetta eru skilaboð

Er þetta að birtast þér í myndum eða bara tilfinningum?

Þetta birtist mér í myndum og mismunandi myndum. Við getum notað orðin „fjörugt ímyndunarafl“ og vísað til Stjörnustríðsmyndanna þegar R2D2 gerir þrívíddarvarp [hologram] af Leiu prinsessu. Þannig sé ég þetta útundan mér og besta útskýringin sem ég hef.“

Hvernig greinir þú á milli eigin hugsana og skilaboða?

„Það er munur á milli ímyndunar og skilaboða og þegar þú ert búinn að vera að gera þetta lengi þá þekkir þú greinarmuninn á milli. Við berum öll tilfinningu sem heitir ást. Við þekkjum hana. Við lærum í lífinu að greinar á milli ástar og hungurs. Fyrir mig að fara djúpt í þetta þá er ég ekki að eiga í baráttu við sjálfan mig hvort ég sé að ímynda mér. Þegar ég er í orkunni er ég fullkomlega öruggur með að þetta eru skilaboð. Ég get sagt: „Ég er fullviss um að ég er ástfanginn eða ég er fullviss um að ég er svangur. Ég er með þessa tilfinningu þar sem ég sem ég sé, veit og finn og er fullviss um að er ekki mín.““

Sá foreldra verja meiri tíma með börnunum sínum

Jón var í viðtali við sjónvarpsstöðina N4 um áramótin 2019–2020 og með áramótaspá. Þar segir hann að hann viti ekki hvað sé að gerast með orkuna því við verðum mikið meira heima og foreldrar eru að fara að verja meiri tíma með börnunum. Þetta var áður en Covid-faraldurinn kom til landsins.

„Ég gat ekki séð á þessum tíma að þetta væri Covid og ég vissi ekki hvað væri að fara gerast. Svo skall Covid-19 á okkur. Ég sagði líka að ríkisstjórnin væri að stíga upp og hjálpa heimilum fólksins. Þetta raungerðist allt en á sama tíma var ég ekki að segja að við værum að fá heimsfaraldur. Orkan sýnir ákveðna hluti sem eru að gerast þó maður geti ekki sagt nákvæmlega að það er Covid að skella á okkur en orkan sýnir að við erum að fara í ákveðna átt,“ segir Jón þegar rætt er um völvur og völvuspár.

Getum öll miðlað

Jón segir að við búum öll yfir þeim hæfileika að geta miðlað. Það liggur því beinast við að spyrja hvernig fólk eigi að nálgast þessa hæfileika hjá sér eða meðtaka þá?

„Það er ekkert til sem heitir náðargáfa. Það eru allir með þennan hæfileika og þetta er bara spurning um hvaða fókus þú sem einstaklingur setur á þetta. Þetta er svipað og það geta allir verið með „sixpack“ ef við sinnum ræktinni.

Þetta er ekki endilega spurning um að fara í tengingu við látnar ömmur og afa eða þess háttar. Þetta er spurning um tengingu við orkuna sem allir hafa. Til að fara þangað er best að iðka hugleiðslu sem kyrrir hugann. Hugurinn er það sem er fyrir þér í að þekkja muninn milli skilaboðs og ímyndunar. Það þarf að æfa sig í að róa hugann til að þekkja muninn á skilaboðum og ímyndun.

Svo finnst mér nauðsynlegt að hafa tilfinningalegt öryggi og að þér líði vel í eigin skinni. Ef þú ert með lágt sjálfsmat í lífinu og þér finnst fólk ekki koma vel fram, þá þarftu að fara að skoða sjálfan þig, því ef þú ert ekki nógu góður fyrir fólk þá ertu ekki nógu góður fyrir andann. Lágt sjálfsmat er ekki að fara að hjálpa þér og of hátt sjálfsmat í einhverju egórúnki er ekki heldur að fara hjálpa þér.“

Ég geri ráð fyrir að þú sért að hitta fólk sem þú þekkir ekki neitt. Hvernig ertu að undirbúa þig?

„Það sem skiptir mig máli í dag er líkamsorka mín og að vera með réttan svefn þannig að líkamsorkan sé í lagi. Ég undirbý mig ekki meira en þegar ég er að vinna hér og labba inn í herbergi og fyrsti skjólstæðingur kemur, þá segi ég: „Nú opnið þið.“ Það er undirbúningur minn. Ég hef verið að gera þetta í átján ár og orðinn vanur þessu.“

Fólki frjálst að dæma hann

Jón hélt fjöldasamkomu hjá Sálarrannsóknarfélagi Suðurnesja á dögunum. Þegar hann kom í salinn spilaði hann tónlist til að koma sér í gírinn og gekk fram og aftur um salinn. Útsendari blaðsins fylgdist með þeim fundi til að undirbúa viðtalið. Því skaut upp í huga blaðamanns að þessi einstaklingur væri nú mögulega eitthvað skrítinn. Jón hlær af þessu og segir að fólki sé frjálst að dæma hann án þess að kynna sér og honum sé í raun alveg saman um skoðanir fólks á sér.

„Þegar ég spila tónlistina er ég að keyra upp orkuna í salnum. Ég grínast einnig í fólki því það er að koma með mikið af tilfinningum og er lokað. Mín leið er að gera glens og grín til að opna á kærleiks-orkuna og þá verður fólk öruggara og það opnar sig meira.“

Ég veitti því athygli að þú tókst málverk af veggnum og notaðir það eins og stóran snertiskjá eða reiknivél. Hvað var það?

„Ég gleymi stundum að segja að veggir eru fyrir mér eins og risastórar spjaldtölvur. Ég fletti í myndum og er meðvitaður um að fólki finnist þetta kannski skrítið. Ég vil vinna í minni orku og gera þetta eins og ég geri.“

Hvað er helst að koma í gegn og hver eru boðin sem þú ert að koma með til fólks?

„Stærstu boðin sem koma oftast í gegn er að fólk njóti augnabliksins. Við erum oft svo upptekin af veraldlegu hlutunum og veraldlega lífinu að við gleymum að taka inn gjafir frá lífinu. Við erum sífellt að redda hinu og þessu að við gefum okkur ekki tíma til að næra okkur sjálf. Við þurfum að setjast niður og fá tilfinningalega næringu fyrir okkur sjálf.

Það koma oft ráðleggingar til fólks að taka inn augnablikið og næra sig á stundinni. Þú getur haft steik fyrir framan þig sem er stundin en þú borðar hana ekki og ert svangur næstu daga eða orkulaus.“

Hvaða fólk er að leita til þín? Í grúski mínu fyrir þetta viðtal rakst ég á upplýsingar um það að fólk leitaði til miðla vegna þess að það ætti óuppgerð mál við fólk sem væri farið yfir móðuna miklu og vildi vita hvort ekki væri allt í lagi. Er þetta svona?

„Í dag er þetta í litlum hluta. Það kemur fyrir að fólk spyrji þessara spurninga en að stærstum hluta er fólk að koma til að fá ráðleggingar fyrir líf sitt. Fólk vill andlega leiðsögn og ástvinir koma og leiðbeina þér svo þú fáir meira út úr lífinu.“

Eigum öll að vera efins

Eru þetta alltaf nákomnir sem koma í gegn?

„Yfirleitt. Þegar ég er að vinna í einkatímum vil ég að það séu sannanir fyrir því við hvern ég er að tala. Það er ekki nóg fyrir mig að segja að mamma þín eða amma sé komin hérna, heldur þarf ég að lýsa viðkomandi. Þegar ég hef náð að lýsa persónunni get ég komið með skilaboðin.“

Hefur þú fengið skilaboð sem þú átt erfitt með að deila með þeim sem koma til þín?

„Já – og ég er mjög harður í því að ég vil ekki gefa ótta.“

Þannig að þú myndir ekki segja mér að ég væri að fara að hrökkva upp af á morgun?

„Aldrei. Það er ekki mitt. Notum þetta dæmi, því þetta er myndræn merking. Segjum að ég sjái í orkunni að það væri eitthvað að fara að gerast hjá þér á morgun og það gerist eitthvað á morgun en það er ekki eins alvarlegt og ég myndi túlka það þá hef ég ekki heimild til að setja það fram og þú værir í einhverju óttakasti næstu vikurnar af því að ég sagði þetta.

Það skiptir máli fyrir mig að fólk labbi út með kærleikann. Ég hef fengið fólk til mín þar sem ég hef séð að það eru miklir erfiðleikar framundan og þá vel ég að vinna það með öndunum hvernig við fáum viðkomandi til að hugsa jákvætt til að gera sér tímann auðveldari. Það skiptir mig miklu máli.“

Hvernig á fólk að undirbúa sig áður en það kemur til þín?

„Engar væntingar. Lokaðu augunum og leyfðu því að koma sem kemur. Ef fólki er hugleikið eitthvað þá er bara að senda það út í kosmosið og treysta orkunni að koma með þau skilaboð sem þurfa að koma. Undirbúningurinn er opinn hugur. Vertu tilbúinn í að hlusta á það sem kemur. Ég hef fengið til mín einstaklinga sem vilja ákveðna hluti og eru að fá mögnuð skilaboð. Þau vilja ekki taka á móti öðru þar sem þau voru með væntingar um annað. Fólk er stundum ekki að vilja hlusta á ráðin sem eru að koma.“

Ef fólk er efins eða ekki móttækilegt?

„Við eigum öll að vera efins. Við eigum ekki að kokgleypa allt sem sagt er. Þá ertu að gefa afl úr lífi þínu og leyfa öðrum að stjórna þér. Fólk á að vera efins og ég bið fólk um að taka upp tímana til að hlusta seinna og spá í þessum skilaboðum. Þú átt þitt líf og stjórnar þínu lífi en átt ekki að gefa öðrum vald til að stjórna því.“

Hvernig er þessi vinna að hafa áhrif á þína andlegu heilsu. Er þetta að trufla þig eitthvað eftir „níu til fimm vinnutímann“?

„Þetta er langt frá því að trufla mig og ég get sagt sem svo að við feðgar búum með þeim látnu. Það eru dyr að opnast og lokast og það er gengið um húsið. Fyrir mörgum árum var reglulega kveikt á sjónvarpinu klukkan þrjú um nótt en til þess að það sé mögulegt þá þarf að kveikja á ýmsum búnaði. Þetta var á þeim tímapunkti í lífinu að ég stóð í skilnaði og þegar ég fór að skoða líf mitt þá áttaði ég mig á því að þegar ég var að fara að sofa á kvöldin var ég að kafna úr einmanaleika. Andinn er bara að segja: „Við erum hérna og slakaðu aðeins á. Við erum með þér og þú ert ekki einn.““

Önnur orka í Keflavík en Reykjavík

Þú starfar víða um heim. Sérðu svæðisbundinn mun á þeirri orku sem kemur til þín. Er öðruvísi að koma til Keflavíkur en að fara á Snæfellsnesið eða austur fyrir fjall?

„Já. Það er til dæmis geggjað að vinna á Vestfjörðum. Orkan þar er gullnáma. Það er gríðarlega góð orka á Austurlandi. Það er allt önnur orka í Keflavík heldur en nokkurn tímann í Reykjavík. Nú er ég ekki að tala niður Reykjavík en að fara vestur er eins og að fara í góða náttúrulaug. Orkan er hreinni úti á landi en í Reykjavík. Það er svo margt í orkunni sem við mannfólkið vitum ekki að við getum nýtt okkur meira. Þá er ég ekki að tala um virkjanir, heldur mannauðinn.“

Jón talar mikið um tærleika orkunnar og hvað hún geti verið mismunandi. Hann bendir á tvö dæmi um mismunandi orku. Þegar gengið er inn í kirkju finni fólk kyrrðina sem þar er að finna en þegar gengið er inn á skemmtistað sé allt önnur orka í gangi.

„Til að finna orkuna úti í náttúrunni er gott að slaka á og þá finnur þú fyrir henni.“

Jón segist vera að vinna í leiðsögn til að betrumbæta líf fólks. Hann segir orkuna vera sinn heimavöll. Auk þess að halda einkafundi með fólki fái hann til sín fólk sem vilji nýta orkuna sína betur í lífinu.

Hvaða fólk leitar til þín?

„Ég myndi ekki segja að það væri ákveðinn hópur. Margir leita til mín til að fá að vita hvernig þeir komist lengra inn í andleg mál og geti þróað sig lengra. Það er mikið um það. Það hefur færst mikið í aukana að fólk sem er í viðskiptum leitar til mín. Það sem ég sé í andlegum málum í dag er að fólk er að fara meira inn í orkuna heldur en að leita eftir látnum ættingjum. Við erum orðin opnari í dag með hinn andlega heim og vitneskjan er orðin það mikil að fólk er farið að setja sjónarmiðið annað.“

Transfundir og hjálpartæki

En fólk er ekki að fá Lottótölur?

„Nei, þá væri ég með þær. Ég myndi halda þeim fyrir mig. Ég er svo eigingjarn,“ segir Jón og skellihlær. „Þú færð aldrei upplýsingar um það hjá mér hvernig þú kemst hjá því að lifa lífinu. Þú færð bara upplýsingar um hvernig þú getur betrumbætt lífið og þú þarft að framkvæma það sjálfur. Við getum sett bensín á bílinn hjá þér en þú þarft að keyra hann.

Fólk er að spyrja mig hversu oft það þurfi að koma til mín. Ég svarað því til að það er að fá það miklar upplýsingar að vinna úr að það ætti að duga því í hálft eða eitt ár.“

En hvað er framundan hjá Jóni? Hann mun standa fyrir opnum transfundum, þar sem að sögn kemur önnur sál í líkamann. „Það er mín leið til að fara meira inn í orkuna. Einnig er ég að vinna með Tarot-spil, því oft þurfum við hjálpartæki til að lesa úr orkunni. Spádómarnir eru allir í orkunni.“

Jón er óhræddur við gagnrýni. „Fólk má alveg efast um það sem ég geri. Við eigum öll að vera efins og ekki kokgleypa allt. Ég hvet alla til að taka sér tíma til að hugsa um skilaboðin og spyrja sig hvað þau þýða fyrir líf þeirra,“ segir hann að lokum.

Nánar má kynna sér starfsemi Sálarrannsóknarfélags Suðurnesja á vefslóðinni srfsn.is