Fréttir

Skógarás stækkar, frístundahúsnæði selt og fermetrar betur nýttir
Leikskólinn Skógarás á Ásbrú.
Þriðjudagur 18. febrúar 2025 kl. 14:03

Skógarás stækkar, frístundahúsnæði selt og fermetrar betur nýttir

Hugmyndir um að nýta betur fermetra sem fyrir eru í Akurskóla og fjarlægja kennslustofur af bílastæðinu, sala á frístundarhúsnæði Háaleitisskóla að Breiðbraut 645 til að fjármagna framkvæmdir við stækkun á skólanum og stækkun leikskólans Skógaráss um 380 fermetra og þannig færa leikskólann frá því að vera fjögurra deilda í sex deilda leikskóla með pláss fyrir 120-130 börn var meðal þess sem menntaráð Reykjanesbæjar tók fyrir á síðasta fundi sínum.

Menntaráð Reykjanesbæjar hefur farið yfir tillögur um breytingar og viðbyggingar í skólastarfi bæjarins og lítur jákvæðum augum á þær.

Í Akurskóla er lögð fram áætlun um að nýta fermetra skólans betur til að sameina starfsemina undir einu þaki og fjarlægja bráðabirgðakennslustofur af bílastæði skólans. Þessi breyting eykur umferðaröryggi, bætir aðstöðu fyrir frístundastarf, kennara og sérkennslu og felur í sér hagkvæma lausn til framtíðar.

Jafnframt hefur menntaráð fjallað um tillögu um 60 fermetra viðbyggingu við Háaleitisskóla sem gerir kleift að sameina alla starfsemi skólans í einu húsnæði. Með þessari viðbyggingu verður bæði frístundastarf og sérkennsluúrræði fyrir nemendur með sérþarfir bætt, en jafnframt er gert ráð fyrir að fjármagna framkvæmdina með sölu á eign í eigu sveitarfélagsins.

Þá hefur menntaráð einnig farið yfir tillögu um viðbyggingu við leikskólann Skógarás, sem felur í sér 380 fermetra stækkun úr fjögurra deilda leikskóla í sex deilda. Tillagan er í takt við vaxandi þörf fyrir leikskólapláss í Ásbrúarhverfi og styður við stefnu sveitarfélagsins um lækkun innritunaraldurs í leikskóla. Með stækkun leikskólans skapast betri aðstaða fyrir börn, starfsfólk og listkennslu, auk þess sem breytingin er hagkvæm lausn í samræmi við skipulag hverfisins.

Menntaráð telur þessar tillögur allar styðja við farsælt skólastarf í Reykjanesbæ og leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggja góða aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk. Ráðið styður því áframhaldandi vinnu við framgang verkefnanna og hvetur til þess að þau verði útfærð í samræmi við þarfir og stefnu sveitarfélagsins.

Húsnæði grunnskóla Reykjanesbæjar gegnir mikilvægu hlutverki innan hverfanna enda er þar veitt mikilvæg nærþjónusta til viðbótar við lögbundið hlutverk grunnskólanna. Menntaráð leggur áherslu á að ávallt sé tekið sé mið af þörfum allrar starfsemi sem rýmast þarf innan skólahúsnæðisins samkvæmt áherslum Reykjanesbæjar, svo sem sérfræðiþjónustu innan skóla, tónlistarkennslu á skólatíma og þjónustu frístundar.

Menntaráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að vísa framangreindum erindum til stjórnar Eignasjóðs Reykjanesbæjar.