Góðar sögur aftur í loftið
Hlaðvarpið Reykjanes góðar sögur heldur áfram göngu sinni og hafa nýir viðmælendur bæst í hópinn sem hafa góða sögu að segja. Sögurnar tengjast allar Reykjanesi á einn eða annan hátt og eru viðmælendur af öllum sviðum samfélagsins – og sögurnar því margbreytilegar.
Umsjónarmenn eru Dagný Maggýjar og Eyþór Sæmundsson en verkefnið er styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja og er markmið þess að efla jákvæða ímynd svæðisins.
Að sögn Dagnýjar og Eyþórs er nóg til af góðum sögum og það sem betra sé, fólk sé að hlusta.
Við fórum af stað með hlaðvarpið 2021 og viðtökur voru strax góðar. Allir sem við leituðum til tóku jákvætt í viðtal og það kom skemmtilega á óvart hversu margir eru að hlusta en niðurhölin eru orðin 27 þúsund sem verður að teljast nokkuð gott. Við erum því afar sátt með viðtökurnar og hlustunin segir okkur að það sé eftirspurn eftir þessum sögum, og á meðan svo er höldum við áfram að segja sögur sem tengjast svæðinu.
UNA STEINSDÓTTIR
Una Steinsdóttir er einn af helstu stjórnendum Íslandsbanka og á að baki fjölda landsleikja í handbolta. Henni finnst best að vera í sókn í lífinu, það þarf í það minnsta að vera gaman.
Reykjanes góðar sögur ræddu við hana um uppvaxtarárin í Keflavík, handboltann og ástina, sorgina sem knúði dyra og fyrirmyndir í lífinu.
Ég átti fyrirmyndir í tónlistinni
Það var gamalt og falskt píanó á heimilinu á Faxabrautinni og ég lærði á það í nokkur ár. Ég átti fyrirmyndir í tónlistinni en ég var mikið á Skólavegnum hjá Steinunni systur pabba, móður Esterar Ólafdóttur organista og Davíðs bassasöngvara. Þau voru öll í tónlistarskólanum og það heillaði mig, mig langaði líka til að læra.
Ég ætlaði mér að verða eins góð og Ester en það er langur vegur frá, enda ýmislegt annað sem togaði í mig og ég var ekki það hæfileikarík. Tónlistarskólinn spilaði stórt hlutverk þegar ég lít til baka, þar lærði maður brjálæðislegan aga og þurfti að sýna dugnað. Herbert Hriberscheck var skólastjóri á þessum tíma og var ekkert lamb að leika við en ég skaðaðist ekkert af þessu, það kannski frekar herti mig. Fyrsti kennari minn var Helga Laxness, systir Halldórs Kiljan og mér fannst alltaf mikið til hennar koma. Ragnheiður Skúladóttir kenndi mér líka og fleiri snillingar sem voru á þessum tíma í tónlistarskólanum en það má segja að þarna hafi verið hálf Sinfóníuhljómsveitin að kenna og skólinn mjög framarleg á landinu.
Mér fannst það forréttindi að fá að vera í tónlistarskóla. Það var ekki sjálfsagt en það kostaði alveg að senda krakka í tónlistarnám.
Svo vildi til að við pabbi vorum saman í tónlistarskólanum en hann fór í söngnám um fertugt og við gátum þannig stutt hvort annað í náminu. Ef ég skildi ekkert í hljómfræðinni fór ég til Esterar og þá gat ég kennt pabba. Við vorum stundum að æfa okkur heima og ég var svolítil grúppía, var mikill aðdáandi og alltaf alveg gríðarlega stolt af honum.
Ég hef ótrúlega gaman að söng og tónlist og menningu almennt. Ég var mikið í kringum karlakórinn út af pabba og er með eitthvað karlakórablæti sem getur verið vandræðalegt þegar maður ætlar að vera hipp og kúl og býður í partý. Þá er ég búin að setja karlakóra lag á fóninn ef ég set ekki bara pabba á! Ég hef gaman að klassískri tónlist, en ég hlusta á allt og er alæta. Það var blómlegt menningarlíf þegar ég var að alast upp í Keflavík og ég tók þátt í því. Það er bara þannig að ef maður býr á einhverjum stað verður maður að njóta þess sem er verið er að bjóða upp á. Þeir sem eru að mennta sig í tónlist og halda tónleika leggja á sig mikla vinnu og maður þarf að mæta. Ég verð alltaf betri manneskja þegar ég fer á tónleika og segi alltaf við sjálfa mig á eftir: Af hverju geri ég ekki meira af þessu? Þetta gefur svo gott í hjartað.