Unnið að aukinni þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi
Reykjanesbær hefur frá árinu 2020 unnið að verkefninu Allir með! sem miðar að því að tryggja að öll börn hafi jöfn tækifæri til að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi. Hingað til hefur verkefnið að mestu snúist um þjálfun þjálfara og starfsfólks í því að efla jákvæða leiðtoga og stuðla að vellíðan barna í skipulögðu starfi. Valgerður Björk Pálsdóttir bæjarfulltrúi og fulltrúi í íþrótta – og tómstundaráði Reykjanesbæjar hefur sýnt málefninu áhuga og fór af stað með áframhald á verkefninu.
„Mér fannst næsta skref í verkefninu vera að ná beint til barna og foreldra og datt í hug að nýta foreldrasamtalsdaga í grunnskólum. Á þeim dögum mæta allir foreldrar eða forráðafólk til að ræða við kennara barnsins síns, og mér fannst tilvalið að nýta þetta tækifæri til að kynna möguleika á íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu. Þegar ríkið styrkti stöður svæðisfulltrúa íþróttahéraða nú í haust, sá ég tækifæri til að þróa tilraunaverkefni sem þau myndu halda utan um, sem myndi afla gagna um hvers vegna sum börn taka ekki þátt í skipulögðu starfi.“
Settur var saman hópur sem svæðisfulltrúarnir tveir á Suðurnesjunum halda utan um ásamt fulltrúum Reykjanesbæjar, íþróttafélaganna Keflavíkur og Njarðvíkur og Háaleitisskóla á Ásbrú, þar sem þátttaka barna í tómstundastarfi er sérstaklega lág. Verkefninu var hrundið af stað á foreldrasamtalsdeginum í Háaleitisskóla í lok janúar og gekk afar vel. Fulltrúar íþróttafélaga og deilda kynntu starfsemi sína á sal og kennarar lögðu fyrir könnun um hindranir í þátttöku barna í skipulögðu starfi.
„Næsta skref er að vinna úr niðurstöðunum og útbúa aðgerðaráætlun byggða á þeim. Við í hópnum höfum líka rætt möguleikann á að endurtaka verkefnið í fleiri skólum í Reykjanesbæ. Markmiðið er að tryggja að öll börn hafi aðgengi að tómstundum og félagsstarfi, óháð félagslegri og fjárhagslegri stöðu en mér finnst sérstaklega mikilvægt að börn af erlendum uppruna upplifi sig sem hluta af samfélaginu en farsæl inngilding er ekki bara mikilvæg fyrir þau heldur samfélagið allt,“ sagði Valgerður að lokum.
Þetta verkefni er dýrmætt skref í átt að því að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi. Með góðu samstarfi skóla, íþróttafélaga og sveitarfélagsins er unnið að lausnum sem geta haft jákvæð áhrif á líf fjölda barna og fjölskyldna. Reykjanesbær er stoltur af þessu verkefni og hlakkar til að fylgja því eftir með markvissum aðgerðum sem stuðla að virkari og samheldnari samfélagi fyrir alla!
Hægt er að finna fleiri myndir frá kynningunni á facebook síðu Reykjanesbæjar.