Íþróttir

Gæði umfram allt
Ljósmynd: karfan.is
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 14. febrúar 2025 kl. 07:00

Gæði umfram allt

Of margir útlendingar í körfunni eða fullkomin staða? Þriðji hluti.

Fjöldi útlendinga í íslenskum körfuknattleik hafa verið til umfjöllunar í Víkurfréttum og í dag er komið að næsta viðmælanda. 
Jón Halldór Eðvaldsson er Keflvíkingur í húð og hár og hefur lengi verið áberandi í körfuknattleikslífinu á Suðurnesjum og eftir að hinir frábæru þættir, Körfuboltakvöld, hófu göngu sína á Stöð 2 Sport fyrir tæpum tíu árum síðan, verið tíður gestur á skjám landsmanna. Jonni þjálfaði kvennalið Keflavíkur og náði tveimur Íslandsmeistaratitlum og hefur nýlega tekið við stjórn liðsins ásamt Sigurði Ingimundarsyni.

Jonni kýs gæði umfram allt og vill hafa hlutina nákvæmlega eins og þeir eru í dag.

„Fyrir mér snýst þetta um að geta mætt á körfuboltaleik eða knattspyrnuleik eða bara hvað sem er, og geta upplifað bestu hugsanleg gæði. Í því felst að sem flestir góðir leikmenn séu inni á vellinum. Ég hef ekki þolinmæði fyrir að mæta á leiki og horfa á einhverja meðal-Jóna sem eru kannski líka að fá vel borgað því það má ekki gleyma því að þegar höftin voru á, þá styrktist samningsstaða meðalleikmannsins á Íslandi og honum var borgað kannski bara nokkuð vel. Á sama tíma hefði verið hægt að sækja helmingi betri leikmann til Króatíu eða Serbíu t.d., og borga þeim leikmanni kannski helmingi lægri laun en meðal-Jóni. 

Jón Halldór var sigursæll með lið Keflvíkinga og hefur nýlega tekið við þjálfun liðsins ásamt Sigurði Ingimundarsyni.

Það má alveg færa góð rök fyrir því að gullaldarlið Keflavíkur í körfu hafi verið frábær körfuboltalið og ég tek heilshugar undir það en hver voru einstaklingsgæðin þá á móti einstaklingsgæðunum í dag? Þetta er eins og umræðan um Jordan á móti Lebron eða Kobe, hver er geitin? Hvort voru kappakstursbílarnir betri 1997 eða í dag? Ætlar einhver að halda því fram að bílarnir 1997 hafi verið betri? Varla og að mínu áliti gildir svipað fyrir körfuboltamanninn frá þessum tíma eða í dag, þróunin hefur verið mikil og í dag eru ungir leikmenn miklu betri heldur en jafnaldrar þeirra á þessum árum. Það á að sjálfsögðu bæði við um okkar íslensku leikmenn og leikmenn úti í heimi en við búum hér á litla Íslandi og við höfum bara ekki úr nægilega mörgum að velja til að geta haft gæðin á þeim stalli sem þau eru í dag með öllum þessum erlendu atvinnumönnum. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir löndum mínum, eins og ég segi, ungir leikmenn eru miklu betri en þeir voru fyrir tíu eða hvað þá tuttugu árum.

Jón Halldór og Sigurður þegar tilkynnt var um þá sem þjálfara kvennaliðsins. Síðan þá hefur Sigurðu líka tekið við karlaliðinu og Jón Halldór verður þar til aðstoðar.

Ég vil meina að við séum með miklu betri unga íslenska leikmenn í dag eftir að fjöldi útlendinga jókst í deildinni, við erum með fullt af mjög efnilegum leikmönnum í deildinni í dag, fjölmargir eru í skóla erlendis að spila á háu getustigi, okkar bestu leikmenn eru í topp atvinnumennsku í stærstu deildum Evrópu, hvernig vill fólk hafa þetta öðruvísi? Það hefur alltaf verið vitað að þeir sem skara fram úr munu alltaf fá að spila, sama hvernig regluverkið um erlenda leikmenn er, mér finnst þessi umræða frekar snúast um að mylja undir rassgatið á meðal-Jóni sem fær ekki að spila því hann er a) ekki nógu hæfileikaríkur eða b) hann nennir ekki að leggja á sig það sem þarf til að ná árangri. Viljum við virkilega frekar horfa á slíka leikmenn og jafnvel að borga þeim fyrir að leggja lítið sem ekkert á sig, í stað þess að geta horft á gæðaleikmenn, hvaðan sem þeir koma?

Mér finnst líka vera óttarlegur tvískinnungsháttur að vilja hefta komur erlendra leikmanna hingað til Íslands en á sama tíma erum við ofsalega ánægð þegar okkar leikmenn fá tækifæri á atvinnumennsku erlendis. Það þótt stærstu deildir Evrópu séu með reglur um fjölda útlendinga í hverju liði, kemur okkur í raun ekkert við því við sitjum við allt öðruvísi og minna borð, við höfum ekki úr eins mörgum góðum leikmönnum að spila. Ég blæs síðan á þetta sjónarmið um að fólk mæti á völlinn til að horfa á frænda sinn eða frænku, eða son eða dóttur nágrannans, það mega aðrir vera á þeirri skoðun en ég er ekki þar, ég vil sjá topp gæði. Ég er sannfærður um að körfubolti væri ekki eins vinsælt sjónvarpsefni á Stöð 2 Sport ef bara einn útlendingur væri leyfður eins og í gamla daga og margir hugsa til með fortíðarþrá. Þetta er bara flott eins og þetta er og liðin eiga bara að fá að ráða þessu. Ef einhverjir siðgæðispostular vilja greiða veg meðal-Jónanna þá verða þeir einfaldlega að gefa sig fram í stjórnarsetu svo þeir geti haft eitthvað með þessi mál að segja. Það þýðir ekki að vita allt best heima í stofu og tuða svo bara á samfélagsmiðlum, svoleiðis virka hlutirnir ekki,“ sagði Jonni.

Viðtal við Guðjón Skúlason

Jón Halldór ásamt Marín eiginkonu sinni, og Hámundi Helgasyni, sigurvegara í tippleik Víkurfrétta. Myndin tekin fyrir framan Wembley leikvanginn í London.
Jonni var snemma byrjaður að þjálfa.