TR - bjöllutónleikar
TR - bjöllutónleikar

Fréttir

Nett grín leiddi til handtöku
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 2. apríl 2025 kl. 11:00

Nett grín leiddi til handtöku

Fljótlega eftir að tilkynnt var um áttunda eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni þriðjudagsmorguninn 1. apríl, bárust fréttir af því að björgunarsveitarmanni hafi verið ógnað af byssumanni og þurfti björgunarsveitarmaðurinn að leita sér áfallahjálpar hjá Rauða krossi Íslands. 

Sérsveitin var kölluð til og enduðu málin þannig að sá grunaði, 70 ára gamall hjartasjúklingur, var snúinn niður, handjárnaður og þar með handtekinn.

VF Krossmói
VF Krossmói

Sá sjötugi er þekktur maður í grindvísku samfélagi, smábátaútgerðarkóngurinn Hermann Ólafsson, kenndur við Stakkavík. Hemmi er annálaður grínisti og er með aðra sögu en sú mynd sem teiknuð var upp og slegið upp á forsíðu fjölmiðlanna.

„Ég var að keyra á bílnum mínum úti á Stað, var að fara í Stakkavík til að sækja tvo lyftara. Það mættu mér tveir bílar frá björgunarsveitunum og einn af þeim spurði hvort hann mætti taka mynd af mér. Ég tók vel í það og spurði hann meira í gríni, hvort hann vildi ekki að Staðarbóndinn myndi halda á byssunni sinni. Byssan sem að sjálfsögðu var óhlaðin, nota ég til að skjóta ref, mink og annan varg til að verja æðarbúið mitt. Ljósmyndarinn tók af mér myndir með byssuna út um gluggann á bílnum, beint upp í loft,  engin uppákoma og þessir ágætu björgunarsveitarmenn fylgdu mér síðan inn í Grindavík og út í Stakkavík þar sem ég sótti lyftarana ásamt starfsmönnum mínum. Það er því alger fjarstæða að ég hafi verið með einhverjum hætti verið að ógna þeim, alger fjarstæða. Heldur virkilega einhver að þessir björgunarsveitarmenn hefðu farið með mér í Stakkavík ef ég hefði verið með svona ógnandi tilburði, trúir því virkilega einhver?

Þegar við vorum að verða komin aftur út að Stað, mættu mér tveir hettuklæddir sérsveitarlögreglumenn. Það er vægt til orða tekið að ég hafi orðið hissa, ég trúði ekki mínum eigin augum og eyrum og sama hvernig ég reyndi að skýra út hvað hefði þarna farið fram, var mér ekki trúað og á endanum fauk í mig og ég neitaði að fara inn í bílinn til þeirra. Þá misstu þeir þolinmæðina, snéru mig niður eins og óprúttinn glæpamann, handjárnuðu mig og færðu mig til yfirheyrslu.

Ég kallaði að sjálfsögðu lögfræðing minn til og mun ekki slaka á fyrr en búið verður að leiða þetta mál til lykta. Ég get rétt ímyndað mér hvað almenningur á Íslandi heldur, að við Grindvíkingar séum gengnir af göflunum. Mitt mannorð er hér líka að veði, að ég sé grunaður um að hafa ógnað öryggi björgunarsveitarmanns með skotvopn í hendi. Og til að bæta gráu ofan á svart fyrir blessaðan manninn og annan til m.v. fréttir, að þeir hafi þurft að leita sér áfallahjálpar hjá Rauða krossinum. Eftir stend ég, grunaður um að hafa ógnað þeim með byssu!

Mér skilst að það hafi ekki verið ljósmyndarinn sjálfur sem kvartaði yfir mér eða hvað þá að hann leitaði sér áfallahjálpar, einhver annar björgunarsveitarmaður lenti í áfallinu. Ég skora hér með á ljósmyndarann að birta myndirnar sem voru teknar, þær sýna svart á hvítu hvort ég hafi verið með ógnandi tilburði eða ekki. Ég mun sækja minn rétt í þessu máli. Það er fyrir neðan allar hellur að björgunarsveitarfólk og með fullri virðingu fyrir þeim því ég þekki margt frábært björgunarsveitarfólk, að einhver sem líklega dreymdi um að klæðast lögreglubúningi, geti dottið inn í þvílíkan og slíkan dramaleik, að öryggi hans hafi verið ógnað, og þetta sé étið upp af fjölmiðlum, og ég stend eftir með laskað mannorð. Nei, ég læt ekki bjóða mér þetta og mun sækja rétt minn,“ sagði Hermann.