160 tonna grunnur undir dælustöð hífður niður við Grindavíkurhöfn
Árið 2019 var gert skipulag varðandi fráveitumál Grindvíkinga og er um tíu áfanga verkáætlun að ræða. Verkið hófst á tilsettum tíma og því átti að ljúka árið 2028 til 2030 en vegna hamfaranna í Grindavík hefur ekki alveg tekist að halda tímaáætlun og því er viðbúið að verklokum seinki eitthvað. Á dögunum var grunnur að nýrri dælustöð hífður niður við hafnarvigtina sem er við Grindavíkurhöfnina. Það þurfti stærstu og öflugustu krana sem til eru á Íslandi til verksins enda vegur grunnurinn heil 160 tonn.

Sigurður Rúnar Karlsson er umsjónarmaður fasteigna Grindavíkurbæjar. VF/Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurður Rúnar Karlsson er umsjónarmaður fasteigna Grindavíkurbæjar og er yfir þessu verki fyrir hönd bæjarins.
„Það var gömul dælustöð þarna fyrir en hún var orðin allt of lítil, það eru meiri umsvif á hafnarsvæðinu í dag og kominn tími til að endurnýja hana og hafa hana stærri. Þá getum við líka leitt skólpið austan Víkurbrautar í þessa nýju stöð og þaðan fer skólpið síðan út fyrir sjóvarnargarða og út í sjó. Við settum upp aðra dælustöð við Bakkalág árið 2021 en allar þessar stöðvar tengjast saman. Þegar þessi verkáætlun var búin til árið 2019 var henni skipt upp í tíu áfanga og sumir þeirra voru tvískiptir, þetta er t.d. áfangi 3b. Við áætluðum verklok á bilinu 2028 til 2030 og endalokin verða þannig að hreinsistöð rís fyrir allt skólpið, og þaðan verði því dælt lengra á haf út. Vegna hamfaranna höfum við ekki alveg náð að halda tímaáætlun svo það er viðbúið að þessu ljúki ekki á fyrrnefndum tíma. Þessi nýja dælustöð mun líka virka sem flóðavörn, við sáum þörfina á sínum tíma fyrir hamfarirnar og því er enn meiri þörf á þessu úrræði núna eftir að bryggjan seig þessa sentimetra niður. Þessi dæla mun geta dælt 300-400 lítrum á sekúndu sem er alveg slatti og mun hjálpa til þegar flæðir yfir bakkana. Það gekk vel að hífa grunninn niður og svo verður byggt ofan á hann og gætu þær framkvæmdir hafist í vikunni. Ég á von á að þessi nýja dælustöð verði tilbúin í rekstur einhvern tíma í sumar.“
Aðrar framkvæmdir
Ennþá er eitthvað til af þeim pening sem ríkisstjórnin setti í viðgerðir í Grindavík en ef ekki kemur til aukafjárveiting, er ljóst að sjóðurinn mun tæmast í sumar. Sigurður er vongóður um að ákalli Grindavíkurbæjar eftir áframhaldandi stuðningi og samtali við ríkisstjórn, verði svarað á jákvæðan máta.
„Það eru alltaf einhverjar smá framkvæmdir í gangi, það er mikilvægt að þær stoppi ekki alveg. Við erum með pening fram í maí, hugsanlega júní. Við stoppuðum framkvæmdir yfir erfiðasta vetrarkaflann en erum að byrja aftur á næstu dögum. Það gefur augaleið að það er betra að vinna í svona viðgerðum þegar frost er ekki í jörðu og betri birtuskilyrði. Því miður hófust ekki framkvæmdir í fyrra fyrr en eftir verslunarmannahelgi og nokkrir mánuðir sem runnu í vaskinn. Það þýðir samt ekki að gráta það núna en vonandi lærum við af reynslunni. Næst verður farið í Staðarsundið og svo eru götur hér og þar sem við viljum klára. Það eru mörg lítil svæði sem við viljum taka næst og það ætti ekki að taka mikinn tíma. Mikil reynsla hefur skapast í þeim sprunguviðgerðum sem nú þegar hafa átt sér stað og þá er það venjulega þannig að næstu verk taka minni tíma. Þótt viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið okkur Grindvíkingum alveg að skapi, hef ég fulla trú á að samtal bæjarstjórnar Grindavíkur muni skila árangri. Mér reiknast til að það muni kosta innan við milljarð að laga allar sprungur. Stamphólsgjá og Hópssprungaberu eru umfangsmeiri en aðrar sprungur eru minni og eru auðveldari að laga. Mér finnst þetta ekki vera þeir fjármunir að ekki sé hægt að útvega þá svo framkvæmdir haldi áfram,“ segir Sigurður.