Falsaðar töflur með hættulegu fíkniefni
Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn sakamáls sem varðar haldlagningu Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli á um 20.000 töflum sem eru látnar líta út eins og Oxycontin 80 mg töflur auk þess sem umbúðirnar eru merktar sem slíkar. Við rannsókn málsins hefur komið í ljós að um er að ræða töflur sem innihalda svokallað „nitazene“ og eru framleiddar á ólöglegum markaði. Töflurnar voru í álþynnum merktar lyfjafyrirtækinu Mundipharma A/S og ættu skv. merkingum að innihalda oxýkódon. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum og Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands.
Töflurnar innihéldu ekkert oxýkódon en í þeim greinist efni af flokki nítazena. Nítazene er flokkur lyfja sem teljast til nýmyndaðra ópíóíða, og hafa verkun samkvæmt því.
Efnið er hættulegt heilsu manna og hafa verið gefnar út aðvaranir vegna efnisins erlendis.
Medical Product Alert N°1/2025: Falsified (contaminated) OXYCONTIN 80mg
Þá hefur neysla samsvarandi efnis valdið að minnsta kosti einu andláti í Hollandi sbr. eftirfarandi frétt:
At least two more people poisoned by fake oxycodone pills | NL Times
Af þessu tilefni telur Lögreglustjórinn á Suðurnesjum og Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði, Háskóla Íslands, tilefni til að senda út þessa fréttatilkynningu til að vara almenning við kaupum þessara og annarra efna án aðkomu lækna og lögmætra lyfsala. Þá virðist efnið vera nýtt á fíkniefnamarkaði erlendis.
Frekari upplýsingar um rannsókn málsins verða ekki veittar að svo stöddu.