TR - bjöllutónleikar
TR - bjöllutónleikar

Mannlíf

Rýma þegar öryggi þeirra er ógnað
Myndin var tekin skömmu eftir að eldgosið hófst þriðjudaginn 1. apríl.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 2. apríl 2025 kl. 10:00

Rýma þegar öryggi þeirra er ógnað

Þriðjudagsmorguninn 1. apríl (ekki aprílgabb) vöknuðu Grindvíkingar við loftvarnarflautur um 6:45. Hafið var kvikuhlaup og upphófst tíð jarðskjálftahrina í kjölfarið. Blaðamaður sem býr í Grindavík, sneri við við Svartsengi og fór aftur til Grindavíkur, ef eitthvað fréttnæmt myndi gerast. Tekið var hús á Magnúsi Gunnarssyni, kenndum við Sæból, og konu hans, Margréti Eyjólfsdóttur.

Hjónin voru pollróleg þegar blaðamann bar að garði. Boðið var upp á kaffi og kleinur og staðan rædd.

„Við erum svo sem orðin vön þessu, þ.e. þegar kemur til rýmingar og erum farin að þekkja lögreglufólkið sem bankar upp. Margrét fór til dyra áðan og samskiptin gengu mjög vel, lögreglan sagði okkur eðlilega að verið væri að rýma bæinn og Margrét þakkaði fyrir upplýsingarnar, sem við vissum auðvitað af eftir loftvarnarflauturnar. Það eru margir hneykslaðir á þessu hjá okkur sumum hér í Grindavík en fólk má ekki gleyma að það er borgaralegur réttur okkar að dvelja inni á heimili okkar ef við kjósum svo. Ef við teljum öryggi okkar ekki ógnað, er það borgaralegur réttur okkar að dvelja á heimili okkar og lögreglan getur ekkert gert. Enda fóru þessir ágætu lögreglumenn í burtu en rúnta ásamt björgunarsveitarfólki af og til fram hjá okkur. Við erum engir kjánar, um leið og við teljum öryggi okkar ógnað þá munum við að sjálfsögðu yfirgefa heimilið okkar, við höfum engan áhuga á að lenda undir eldgosi. Hitt er svo annað mál að ef tónn yfirvalda myndi breytast varðandi Grindavík, ef ríkið myndi setja alvöru kraft í uppbyggingu, stefna á að skóla- og leikskólahald myndi hefjast eins fljótt og auðið er, þá skal ég hlýða og rýma Grindavík ef rýming er fyrirskipuð, við fyrsta tón loftarvarnarflautanna! 

VF Krossmói
VF Krossmói

Þetta eru búin að vera mjög erfið ár síðan 10. nóvember 2023, ekki bara að missa samfélagið sitt, heldur meira að þurfa standa í þessu stríði við yfirvöld. Við byrjuðum að búa í Reykjanesbæ í fyrstu rýmingunni, fórum fljótlega yfir í Voga en vorum svo komin heim á Þorláksmessu og vorum í skýjunum með að vera komin heim til okkar. Við eldgosið í janúar þurftum við að yfirgefa bæinn í nokkrar vikur, eftir á að hyggja í allt of langan tíma því það var engin hætta fyrir hendi inni í bænum, þá á ég við, ef maður fór varlega og kom sér ekki í hættur, þá var engin hætta á ferðum. Öryggi okkar hefur ekki verið ógnað í eina einustu sekúndu allan þennan tíma í Grindavík. Hvernig má það vera að Reynisfjara sé alltaf opin fyrir ferðamenn og nokkrir þeirra hafa farist þar? Það er alls staðar hægt að koma sér í hættu, höfnin er hættuleg börnum, var hún samt lokuð almenningi? Þetta er búin að vera erfiðasta baráttan og vissulega er mikið bakslag í þeirri baráttu, að lítil sprunga hafi opnast innan varnargarða en enn sem komið er ógnar hún ekki nyrstu húsunum svo við verðum bara að bíða og vona. Sérfræðingarnir hafa viljað trúa að þetta sé hugsanlega síðasta eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni, ég vona það innilega. Sagan segir okkur að þessu skeiði sé ekki lokið en hvenær þetta færist yfir í Eldvörpin eða eitthvert annað, getur enginn sagt til um. Mér skilst að síðasta eldgosahrina hafi ekki staðið samfellt frá 1210 til 1240, það komu ár inn á milli sem ekkert gerðist. Ef að þetta mun raungerast, að þessu sé lokið á Sundhnúkagígaröðinni, þá tel ég að það versta sé afstaðið en það miðast auðvitað við að þetta eldgos muni ekki ná alla leið að bæjarmörkunum. Sama hvernig þetta eldgos endar, ef að sérfræðingarnir telja að þetta sé það síðasta á Sundhnúkagígaröðinni, þá er ekkert sem mælir á móti því að hefja uppbyggingu því það verður engin hætta fyrir hendi þá. Við höldum áfram að laga sprungurnar, þannig verður bærinn ennþá öruggari, skólinn gæti verið tilbúinn næsta haust skilst mér, ég vona innilega að tónn yfirvalda muni breytast en eftir þessa sprungu innan varnargarða veit ég ekki hvort ég á að þora að vera bjartsýnn.

Þangað til ætla ég að nýta minn borgaralega rétt og dvelja á mínu heimili á meðan ég tel öryggi mínu ekki ógnað en aftur, ég skal vera hlýðinn og góður strákur ef yfirvöld fara að vinna hlutina með okkur.

Við hjónin ákváðum að yfirgefa Grindavík um 15 leytið í gær, það voru ansi miklir jarðskjálftar svo við ákváðum að taka skjálftafrí, fengum inni í sumarbústað í Grímsnesinu. Sighvatur GK bíður fyrir utan innsiglinguna í Grindavík, það þarf að vinna fiskinn og ég trúi ekki öðru en hleypt verði inn í Grindavík eftir fundinn sem er í gangi, vonandi ekki síðar en um hádegi,“ sagði Magnús Gunnarsson