Gerir ekki athugasemd við niðurstöðu umhverfismats vegna metanólframleiðslu á Reykjanesi
Umbót minnir á slæma reynslu Reykjanesbæjar af United Silicon
Umhverfis- og skipulagsráð, f.h. Reykjanesbæjar, telur að nægilega sé gerð grein fyrir þeim þáttum sem að sveitarfélaginu snúa og gerir ekki athugasemd við niðurstöðu umhverfismats vegna fyrirhugaðrar metanólframleiðslu á Reykjanesi. Fyrirhuguð framkvæmd felst í því að framleiða metanól á lóð sem er innan Auðlindagarðsins við Reykjanesvirkjun.
Fyrirhuguð framkvæmd er við hlið fyrirhugaðrar vetnis- og metanframleiðslu á sama svæði. Framkvæmdaaðili er Swiss Green Gas International (SGGI). Erindinu var frestað á fundi bæjarstjórnar 18. febrúar 2025 og óskað svara við spurningum fulltrúa Umbótar. Svör liggja fyrir og var erindinu svo vísað aftur til umhverfis- og skipulagsráðs á bæjarstjórnarfundi 4. mars 2025.
Helstu neikvæðu áhrifin eru á ásýnd lands og jarðmyndanir en að mestu innan lóðar. Til þess ber að líta að áhrifin eru innan svæðis með skilgreindri landnotkun sem iðnaðarsvæði. Verksvið Reykjanesbæjar er veiting byggingar- og framkvæmdaleyfis. Ef af framkvæmdinni verður þá er mikilvægt að gæta þess að minnka neikvæð áhrif ásýndar og tryggja að fyllstu umhverfiskröfum sé gætt.
Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar, lagði fram bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar vegna samþykktar umhverfis- og skipulagsráðs um metanólverksmiðju á Reykjanesi. Hún lýsir yfir áhyggjum og minnir á slæma reynslu Reykjanesbæjar af United Silicon, sem olli íbúum óþægindum og stendur enn sem minnisvarði um skort á ábyrgð og eftirliti. Margrét bendir á að Swiss Green Gas International, sem stendur að baki verksmiðjunni, sé lítið einkahlutafélag, og að ábyrgð verði að vera skýr og raunveruleg. Þá vanti rannsóknir á áhrifum á sjávarlífríki og ekki má einblína einungis á ásýnd lands. Hún kallar eftir ströngum skilyrðum í samningum og virku eftirliti áður en bæjarstjórn samþykkir málið. Umbót mun því sitja hjá við atkvæðagreiðslu.