TR - bjöllutónleikar
TR - bjöllutónleikar

Fréttir

Gerir ekki athugasemd við niðurstöðu umhverfismats vegna metanólframleiðslu á Reykjanesi
Fimmtudagur 3. apríl 2025 kl. 06:20

Gerir ekki athugasemd við niðurstöðu umhverfismats vegna metanólframleiðslu á Reykjanesi

Umbót minnir á slæma reynslu Reykjanesbæjar af United Silicon

Umhverfis- og skipulagsráð, f.h. Reykjanesbæjar, telur að nægilega sé gerð grein fyrir þeim þáttum sem að sveitarfélaginu snúa og gerir ekki athugasemd við niðurstöðu umhverfismats vegna fyrirhugaðrar metanólframleiðslu á Reykjanesi. Fyrirhuguð framkvæmd felst í því að framleiða metanól á lóð sem er innan Auðlindagarðsins við Reykjanesvirkjun.

Fyrirhuguð framkvæmd er við hlið fyrirhugaðrar vetnis- og metanframleiðslu á sama svæði. Framkvæmdaaðili er Swiss Green Gas International (SGGI). Erindinu var frestað á fundi bæjarstjórnar 18. febrúar 2025 og óskað svara við spurningum fulltrúa Umbótar. Svör liggja fyrir og var erindinu svo vísað aftur til umhverfis- og skipulagsráðs á bæjarstjórnarfundi 4. mars 2025.

Helstu neikvæðu áhrifin eru á ásýnd lands og jarðmyndanir en að mestu innan lóðar. Til þess ber að líta að áhrifin eru innan svæðis með skilgreindri landnotkun sem iðnaðarsvæði. Verksvið Reykjanesbæjar er veiting byggingar- og framkvæmdaleyfis. Ef af framkvæmdinni verður þá er mikilvægt að gæta þess að minnka neikvæð áhrif ásýndar og tryggja að fyllstu umhverfiskröfum sé gætt.

VF Krossmói
VF Krossmói

Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar, lagði fram bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar vegna samþykktar umhverfis- og skipulagsráðs um metanólverksmiðju á Reykjanesi. Hún lýsir yfir áhyggjum og minnir á slæma reynslu Reykjanesbæjar af United Silicon, sem olli íbúum óþægindum og stendur enn sem minnisvarði um skort á ábyrgð og eftirliti. Margrét bendir á að Swiss Green Gas International, sem stendur að baki verksmiðjunni, sé lítið einkahlutafélag, og að ábyrgð verði að vera skýr og raunveruleg. Þá vanti rannsóknir á áhrifum á sjávarlífríki og ekki má einblína einungis á ásýnd lands. Hún kallar eftir ströngum skilyrðum í samningum og virku eftirliti áður en bæjarstjórn samþykkir málið. Umbót mun því sitja hjá við atkvæðagreiðslu.