Þorrablót ársins
Það er ekki þorrablót nema það séu slagsmál. Þrátt fyrir þá staðreynd að öll íþróttafélög sem vilja láta taka sig alvarlega haldi glæsileg mörg hundruð gesta þorrablót til fjáröflunar þá var aðeins eitt þeirra sem komst í fréttirnar fyrir slagsmál. Til hamingju Njarðvíkingar. Það er þó betra að vera í fréttum fyrir slagsmál en að allir gestirnir hafi verið fastir á dollunni helgina eftir eins og gerðist fyrir austan fjall. Ekki bara á einu blóti, heldur tveimur. Þau vita það núna að það er best að láta Jóa í Múla eða Magga á Réttinum sjá um blótið.
Þorrablótin eru frábær skemmtun. Útvarpsmaðurinn góðkunni, Ívar Guðmundsson, sagði á Bylgjunni að þorrablótin væru nútíma sveitaböll. Ég er sammála honum. Þorrablótin eru ekki bara fjáröflun fyrir íþróttafélögin. Þau eru meiri fjáröflun fyrir Audda og Steinda. Það gladdi mig ómælt að sjá þá keyra prógramm á þorrablóti Fram um síðustu helgi sem var nákvæmlega eins og í Keflavík fyrir nokkrum árum. Ekki bara endurunninn matur heldur líka endurunnin skemmtiatriði. Þeir hlupu út úr Framblótinu klukkan 22 og voru mættir í Stapaskólann hjá Njarðvík kl. 23. Það sem mestu máli skiptir er að þeir voru frábærir. Alveg eins og sviðakjammar, alltaf frábærir.
Það er margt skemmtilegt við þorrablótin. Einhver mesta framför í þorrablótshaldi var þegar 41% skotum var skipt út fyrir 16%. Allt í einu voru ekki allir hauslausir á Keflavíkurblótinu klukkan níu. Jafnvel bara hægt að tala við fólk til vel rúmlega hálf tíu. Kópavogsblótið er sagt langflottasta blótið 2.500 manns, öll félögin saman. Allir vinna saman. Blótið í Garðabænum mun vera keppni um hver kaupir mest af kampavíni eða happdrættismiðum. Hef heyrt það af afspurn að það sé ekki einu sinni þorramatur í boði þar – bara nautalundir.
Marta smarta mætir á bæði þessi blót, ljósmyndarar eru á hverju strái og daginn eftir eru myndir á helstu vefmiðlum. Hverjir voru hvar og myndatextar undir öllum myndum sem tilgreina hvaða merkisfólk er á myndunum. Ljósmyndararnir voru líka sendir á Keflavíkurblótið. Myndirnar voru birtar á Samkvæmislífinu á Vísi, án myndatexta. Einungis ein flugfreyja hjá Icelandair var þekkt með nafni. Ekki einu sinni þekkir landsmiðillinn einn ástsælasta Toyotu bílasala og körfuboltaspeking landsins. Jafnvel þótt hann hafi eytt fleiri tugum klukkustunda í myndveri fyrirtækisins sem rekur miðilinn.
Þorraskandall ef þið spyrjið mig.
Á svona stórsamkomum er ég hrifnari af því að sitja við hringborð en sú tækni virðist ekki hafa náð til Suðurnesja. Þar er enn unnið með langborð. Vonandi ná Keflavík og Njarðvík að sameinast um þorrablót með hringborðum í Reykjaneshöllinni. Það yrði þorrablót ársins. Hvort sem er með eða án slagsmála.