Fréttir

Vaxandi líkur á að næsti atburður hefjist innan nokkurra daga eða vikna
Þriðjudagur 18. febrúar 2025 kl. 15:54

Vaxandi líkur á að næsti atburður hefjist innan nokkurra daga eða vikna

Áfram er aukin hætta á kvikuhlaupi eða eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni. Aflögunarmælingar sýna áframhaldandi landris, þó hægt hafi örlítið á því á undanförnum vikum. Uppfærðir líkanreikningar benda til að kvikusöfnun nálgist miðgildi þess rúmmáls sem talið er að þurfi til þess að koma af stað kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Út frá mælingum, líkanreikningum og lærdómi dregnum af síðustu atburðum á Sundhnúksgígaröðinni eru vaxandi líkur á að næsti atburður hefjist innan nokkurra daga eða vikna, segir í nýrri færslu Veðurstofu Íslands.

Timalinagraf_18022025_is

Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi. Núllpunktur er miðaður við stöðuna áður en landris hófst í Svartsengi í októberlok 2023. Heildarrúmmál kviku undir Svartsengi er nú rúmlega 90% af því sem safnaðist áður en fór að gjósa 20. nóvember síðastliðinn.

Jarðskjálftavirkni hefur verið svipuð síðustu viku á Sundhnúksgígaröðinni, mælst hafa um eða undir 5 skjálftar á sólarhring. Jarðskjálftavirkni á svæðinu hefur þó farið hægt vaxandi frá janúarlokum.  

Hættumat hefur verið uppfært og tók engum breytingum, það gildir til 25. febrúar, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_18feb_2025
(Smellið á kortið til að sjá það stærra)