Suðurnesjabær sendir neyðarkall til stjórnvalda
Bæjarráð Suðurnesjabæjar sendir neyðarkall til stjórnvalda um að taka sér tak, bæta nú þegar úr því úrræðaleysi sem ríkir í málaflokknum um búsetuúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda og koma til framkvæmda tillögum nokkurra starfshópa sem hafa fjallað um þá nauðsynlegu þjónustu sem viðkomandi einstaklingar þurfa á að halda.
Á borði velferðarsviðs Suðurnesjabæjar er búsetuúrræði fyrir tvo einstaklinga í einkareknum úrræðum og er áætlað að kostnaður vegna þeirra fyrstu fimm mánuði ársins 2025 verði 136,50 milljónir króna. Samkvæmt erindinu til velferðarsviðs má reikna með að á árinu 2025 gæti umræddur kostnaður alls orðið nálægt kr. 330.000.000. „Það er algerlega augljóst að þetta dæmi getur ekki með nokkru móti gengið upp,“ segir í afgreiðslu bæjarráðs Suðurnesjabæjar.