Langlíklegast að það gjósi á næstu vikum
- segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði
„Staðan á Sundhnúksgígröðinni er nú svipuð var í undanfara síðustu gosa. Það er enn landris þó heldur hafi hægt á því sem var t.d. í maí, ágúst eða nóvember. Það er langlíklegast að það gjósi á næstu vikum,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Víkurfréttir.
Hann segir að vissulega er landrisið heldur hægara, sem passar við að hægt og rólega dregur úr kvikuinnflæði að neðan. Ef það heldur áfram að draga úr má búast við að lengist í milli gosa, og að mögulega ljúki þeirri hrinu sem verið hefur síðan í nóvember 2023 á þessu ári. „Þarna eru miklar óvissur,“ segir Magnús Tumi.
Miðað við gostímabilið frá ca. 780-1240 þá kom þar upp rúmlega 2 km3 í fjórum goshrinum.
Sú minnsta, 0.4 km3 varð í Brennsteinsfjöllum auk lítils goss norðan Trölladyngju.
Næsta sem varð, Heiðmerkureldarnir, varð á 10. öld og lauk árið 1000 með Kristnitökuhrauninu. Þá komu upp 0.75 km3.
Síðan komu 150 ár með engum gosum þar til Krísuvíkurkerfið fór af stað og Kapelluhraun og Ögmundarhraun urðu til. Krýsuvíkurkerfinu 1151-1188 komu upp 0.4 km3.
Svo kom lokahrinan á Reykjanesi og Eldvarparöðinni 1211-1240. Þá komu upp 0.6 km3 á 30 árum.
Samanlagt komu upp 2,1 km3 á ca. 450 árum.
„Þessar tölur eru allar frá Magnúsi Á. Sigurgeirssyni jarðfræðingi á ÍSOR sem hefur tekið við því hlutverki að rannsaka eldri myndanirnar, sem m.a. Jón Jónsson jarðfræðingur vann að með fleirum á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Kristján Sæmundsson vann líka mikið í þessu og Magnús Á. Sigurgeirsson með honum. Fleira fólk hefur komið að því að greina þessa sögu, og eiga miklar þakkir skyldar því túlkanir á framhaldinu byggjast svo mikið á sögunni.“
Komin á seinni hluta virkninnar á utanverðum Reykjanesskaga
Magnús Tumi segir sennilegast að við séum komin á seinni hluta virkninnar á utanverðum Reykjanesskaga í þeim eldum sem hafa staðið yfir frá 2021. „Óvissan er vissulega mikil, en sagan bendir til þessa.
Ef við svo horfum til sögunnar, og atburðanna nú, þá má segja að atburðarásin sem við höfum orðið vitni að undanfarin fjögur ár, sé hraðari en við kannski áttum von á að yrði á Reykjanesskaga. Það má vonast til þess að það hægi á á þessu ári og jafnvel að virknin hætti. Hitt gæti líka gerst að það lengist mjög á milli gosa, og síðasta gosið á þessu svæði verði eftir einhver ár.
Ef það eldgosatímabil sem nú er farið í hönd á Reykjanesskaga hegðar sér með svipuðum hætti og á fyrri tímabilum, er allt eins líklegt að eftir að virkninni á Sundhnúksgígaröðinni slotar, komi tímabil með engum gosum sem gæti varað í marga áratugi eða jafnvel heila öld. Í kjölfarið á því má búast við virkni á nýjum stað.
Annar möguleiki er að virknin færi sig út á Reykjanestá áður en hlé kemst á. Í ljósi þess að þegar hefur gosið í tveimur kerfum, Fagradalsfjalli og Sundhnúksgígaröð/Svartsengi, verður þessi sviðsmynd að teljast ólíklegri,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson að endingu.