Fórnarkostnaðurinn of mikill með fjölda atvinnumanna fyrir framan sig
Of margir útlendingar í körfunni eða fullkomin staða? Fjórði hluti.
Fjöldi útlendinga í íslenskum körfuknattleik hafa verið til umfjöllunar í Víkurfréttum og í dag er komið að næsta viðmælanda.
Ekki tókst að finna hreinræktaðan ungan og efnilegan körfuknattleiksmann frá Suðurnesjum sem viðmælanda í þessari grein en Draupnir Dan Baldvinsson er með smá tengingu, afi hans, Gunnar Marel Eggertsson, býr í Reykjanesbæ. Gunnar þessi er hvað þekktastur fyrir að hafa smíðað víkingaskip og er skip sem hann smíðaði, Íslendingur, til sýnis í Víkingaheimum í Reykjanesbæ.
Vandamálið við að finna viðmælanda endurspeglar kannski helst hvað þetta viðfangsefni er viðkvæmt og menn almennt ragir við að tjá sig of mikið um þetta þó umræðan sé mikilvæg fyrir framtíð körfunnar.
![](/media/1/draupnir-dan-i-noregi.jpg)
Draupnir æfði með Stjörnunni eftir að hann flutti til Íslands frá Noregi og lék með unglingalandsliðum Íslands en hann missti áhugann á körfuknattleik, m.a. vegna mikillar áherslu á afreksstarf með tilheyrandi fjölda atvinnumanna.
„Ég er fæddur árið 2003 og hóf að æfa körfuknattleik í Noregi, þar sem við fjölskyldan bjuggum. Það stefndi allt í að ég fengi hæð móður minnar og því lék ég alltaf sem leikstjórnandi. Ég veit ekki hvort það var íslenska lýsið eða hvað en um það leyti sem við fluttum til Íslands árið 2018 þegar ég var fimmtán ár, tók ég mikinn vaxtakipp og er því í dag á hæð við föður minn, um tveir metrar að hæð. Á meðan ég bjó í Noregi var ég valinn í úrtak U-15 landsliðs Norðmanna og þegar við fluttum heim fór ég að æfa með 10. flokki Stjörnunnar, sem var með mjög öflugt lið í mínum árgangi. Liðið hafði unnið marga titla í gegnum yngri flokkana og unnum við meðal annars bikarmeistaratitil eftir að ég byrjaði að spila með liðinu og spiluðum til úrslita á Scania Cup.
![](/media/1/draupnir-dan-og-aldis-modir-hans.jpg)
![](/media/1/draupnir-dan-og-baldvin.jpg)
![](/media/1/draupnir-dan-i-leik.jpg)
Ég æfði og keppti með Stjörnunni og fyrir tilstilli þjálfarans míns, Inga Þór Steinþórssonar, fékk ég tækifæri til að berjast um stöðu í U-18 landsliðinu þó ég hefði komið seint inn í æfingahópinn. Mér tókst að vinna mér sæti í liðinu og endaði sem byrjunarliðsmaður í U-18 liðinu sem keppti á Norðurlandamótinu í Finnlandi.
Í unglingaflokki fór að halla heldur undan fæti hjá okkur og varð svona losarabragur á öllu liðinu. Við vorum auðvitað margir sem höfðum metnað til að fá að spila með meistaraflokknum en þar var ekki einu sinni pláss fyrir Orra Gunnarsson, liðsfélaga minn sem er um þessar mundir einn efnilegasti leikmaður landsins og leikur með Stjörnunni. Við hinir áttum ennþá síður séns og smátt og smátt dvínaði áhuginn á því að eyða nánast öllum frítímanum í að reyna að komast að þar sem vitað var að ekkert pláss væri. Okkur stóð til boða að fara á venslasamning hjá Álftanesi og ég fór þangað um tíma en flosnaði upp úr því þegar ég lenti í bakmeiðslum og fann að stuðningurinn frá félaginu var enginn. Ég þurfti sjálfur að sjá nánast um allan kostnaðinn sem hlaust af endurhæfingunni. Á endanum missti ég einhvern veginn áhugann, fannst dapurt að félagið sem ég hafði lagt mig allan fram fyrir, tekið þátt í ótal fjáröflunum o.s.frv., gátu ekki stutt við bakið á mér þegar kom að meiðslum. Á sama tíma eru félögin að halda mjög vel utan um útlendingana sína og eru m.a. með sjúkraþjálfara sem mæta á æfingarnar. Það virtist hreinlega eins og maður skipti félagið nákvæmlega engu máli. Ekkert spáð í yngri leikmönnum og allur krafturinn settur í að vinna titilinn strax.
Enda er það því miður þannig að nánast allir mínir félagar úr Stjörnunni sem áttu sigursælan feril upp alla yngri flokkana, eru hættir eða bara að leika sér í bumbubolta. Það er auðvitað mjög dapurlegt af því að það er hætt við því að þessir leikmenn komi svo ekkert meir að vexti og viðgangi félagsins, hætt við að grasrótarstarfið líði fyrir vikið.
Ég hugsaði með mér á þessum tímapunkti, hvort þetta væri þess virði, að leggja í raun allt í sölurnar fyrir körfuboltann og horfa upp á liðin með allan þennan fjölda atvinnumanna í sínum röðum, bæði innlenda og ekki síst erlenda.
Ég er pínulítið hræddur við þessa þróun og spyr mig hvar landsliðið okkar verði eftir tíu ár ef ekki verði spornað eitthvað við þessari þróun.
Stjarnan sem ég æfði með, vann vissulega nokkra bikarmeistaratitla en eru ekki fyrr en í ár að blanda sér í toppbaráttuna og út af hverju, þeir sóttu íslenska landsliðsmenn og eru eflaust að borga þeim mjög vel, alla vega má reikna með að þeir séu samkeppnishæfir við erlend lið.
![](/media/1/draupnir-dan-logfraedingur.jpg)
Í hvaða stöðu væri Stjarnan í dag ef meiri áhersla hefði verið lögð á þennan árgang sem ég var í, þarna voru mjög efnilegir leikmenn inn á milli. Ég tók ákvörðun fyrir sjálfan mig, ég ákvað að hætta og einbeita mér frekar að háskólanámi mínu í lögfræði og ég hef líka verið að lyfta af fullum krafti. Ef ég hefði séð fram á frama í körfunni og hugsanlega að fá eitthvað aðeins greitt fyrir upp í útlagðan kostnað, hefði ég kannski ílengst og áhuginn hefði þá líklega aukist og hver veit hversu langt maður hefði getað náð,“ segir Draupnir Dan.
Viðtal við Jón Ragnar Magnússon
Viðtal við Jón Halldór Eðvaldsson