Hver dagur er ævintýri
– segja Karen og Guðrún á Gimli
Það ríkti ró yfir leikskólanum Gimli í Njarðvík þegar Víkurfréttir bar að garði enda börnin nýbúin að borða hádegisverð og komin í hvíld. Blaðamaður var kominn til að ræða við þær Karen Valdimarsdóttur, leikskólastýru, og Guðrúnu Sigurðardóttur, leikskólakennara, um leikskólastarfið en þær stöllur útskrifuðust báðar árið 1982 og hafa unnið saman í áratugi. Karen hefur rekið Gimli í tuttugu ár og var hann fyrsti einkarekni leikskólinn í Reykjanesbæ, það má því segja að þær séu brautryðjendur í leikskólamálum í Reykjanesbæ.

Það var einnig rólegt yfirbragð og notaleg lýsing á skrifstofu leikskólastjórans. „Veistu það, þegar börnin eru í hvíld þá slökkvum við á ganginum og í öll þessi ár höfum við haft þann háttinn á, allavega síðan við Gunna byrjuðum hérna, að við höfum alltaf svona síestu,“ segir Karen á meðan við komum okkur fyrir. „Það er ekkert endilega að þau liggi alveg kyrr. Það er bara slökun og hún er með ýmsum hætti, það getur verið róleg tónlist eða saga. Þetta finnst mörgum mjög skrítið því svona fyrirkomulag er ekki í öllum leikskólum. Það er svo misjafnt hvort fólki finnist að fjögurra og fimm ára börn eigi að þurfa svona.
Við erum svolítið að brjóta upp daginn með þessu. Þetta er átta tíma vistun hjá flestöllum og þá er þessi slökun svo mikilvæg, ekki bara fyrir börnin heldur líka fyrir kennarana.“
Guðrún bætir við að hún sé með hugarfrelsi sem er átta mínútur. „Þá tala ég um að við erum bara að hvíla hugann fyrir næsta verkefni okkar og það er svo ótrúlegt
Búin að reka leikskólann Gimli í tuttugu ár
Karen er búin að vera með leikskólann Gimli í höndunum í tuttugu ár. „Það var 30. desember 2004 sem var skrifað undir samning þess efnis að ég tæki við rekstri skólans en samningurinn tók gildi 1. janúar 2005. Við erum að hefja tuttugasta og fyrsta árið með Gimli sem svona rekstrareiningu en við vorum báðar búnar að vinna inni í skólanum áður, þannig að við Gunna erum báðar búnar að vera hérna allan tímann.“
Guðrún skýtur inn í að hún og Karen hafi útskrifast saman árið 1982. „Svo verðum við báðar 65 ára gamlar í á. Þannið að það er búið að vera svolítið einstakt samband á milli okkar. Mjög gott og átakalaust, annars hefði þetta aldrei gengið,“ bætir Karen við og segir að þær hafi verið samstíga þegar þær byrjuðu að vinna og báðar uppteknar af því hvernig þær töluðu við börn.

„Bara hvaða rödd notum við og hvernig framkoma okkar við fólk er almennt, hvort sem það eru börn eða fullorðnir. Við vorum báðar lánsamar að hafa fengið þannig uppeldi.“
„Þessar gömlu, góðu dyggðir,“ segir Guðrún.
„Já, svona dyggðakennsla,“ tekur Karen undir. „Gildin í lífinu, um hvað snúast þau og hvað er það sem skiptir máli þegar þú ert að vinna með börnum í skólastarfi. Þetta er einfaldleiki en hann er djúpur og þú þarft að vinna hann vel dag frá degi.“
Hafið þið alltaf verið Hjallastefnuskóli?
„Þegar við byrjuðum á Gimli, ég ‘93 og þú [Guðrún] byrjaðir ári á undan mér, þá var þetta ekki Hjallastefnuskóli,“ segir Karen. „Þá vorum við búnar að vinna í yfir tíu ár í öðrum stefnum og leikskólum.“
„Við byrjuðum að viða að okkur hugmyndum með Möggu Pálu [Margréti Pálu Ólafsdóttur] af því að okkur fannst vera svo mikil mannrækt í þessari stefnu og við vorum búnar að stúdera hana áður en við fórum að reka þennan skóla,“ segir Guðrún.
„Við vorum farnar að þreifa fyrir okkur áður en við tókum við rekstrinum, þá vorum við bara kennarar hérna. Á þeim tíma langaði leikskólastýrunni sem var þá að gera eitthvað svona, dýpka sig í stefnu, og við Gunna fengum svolítið frelsi til að skoða.“
Hugmyndir Hjallastefnunnar fengu byr undir báða vængi hjá þeim eitt árið þegar strákar voru fleiri en stelpur á leikskólanum en í Hjallastefnunni eru deildir kynjaskiptar. „Maður tekur ekki og innleiðir nýja stefnu öðruvísi en að finna það svolítið á eigin skinni. Við fundum það þarna og fórum þá að velta fyrir okkur af hverju það væri svona mikill munur á að vinna með stúlkurnar sér og drengina sér,“ segir Karen.
„Maður verður að finna þetta innra með sér, finna að þetta er að virka. Þetta er nám og við höfum verið að þróa þessa stefnu hér hjá okkur. Við gripum þessa stefnu ekkert bara úr lausu lofti. Það var ekki eins og hún hafi þótt eitthvað töff á þessum tíma, þvert á móti þá var Magga Pála nánast handjárnuð hvar sem hún kom og þurfti svoleiðis að berjast fyrir þessu.“

Hvernig tóku foreldrar þessari nýju stefnu?
„Við fórum mjög vel í gegnum þetta með öllum foreldrum, settumst niður með hverju og einu foreldri,“ segir Guðrún. „Það var eitt foreldri sem var alls ekki hrifið af þessu, einn pabbinn, en hann varð okkar allra besti samherji.“
„Ég gleymi ekki samtalinu sem ég átti við hann,“ bætir Karen við. „Ég þurfti svoleiðis að beita allri minni lagni til að sannfæra hann, ég get verið mjög sannfærandi. Hann var svolítið lengi að taka við þessu, sagðist svo ætla að láta sig hafa það og varð eftir það stuðningsmaður okkar númer eitt, tvö og þrjú.“
Þær Karen og Guðrún segja að á þessum tíma hafi verið erfiðara að fá feður drengja með sér í lið. Öllum þótti hið besta mál að styrkja stúlkurnar en að vekja upp mýkri hliðar hjá drengjunum átti ekki alveg upp á pallborðið hjá mörgum, sem segir kannski ýmislegt um tíðarandann og hugarfarið þá.
Spennandi vettvangsferðir
Á leikskólanum Gimli fer stór hluti kennslunnar fram með vettvangsferðum. Árið 2020 fékk leikskólinn styrk frá nýsköpunar- og þróunarsjóði Reykjanesbæjar fyrir verkefnið Jóga og núvitund í vettvangsferðum en jóga hefur verið stundað frá árinu 2007 í skólanum. Karen segir að hugmyndin hafi verið að færa jógakennsluna út og núna fara allir nemendur á Gimli fara í skipulagðar jógastundir einu sinni í viku á sínum kjarna með Sigurbjörgu Gunnarsdóttur, leikskólakennara og jógaleiðbeinanda barna.
„Við fengum þennan styrk frá nýsköpunar- og þróunarsjóði Reykjanesbæjar og enduðum þetta svolítið flott. Tókum verkefnið svolítið lengra en við upphaflega ætluðum,“ segir Karen. „Það þróaðist út í það að við gerðum steina með áletrun þannig að fólk getur séð æfingar í símunum sínum og iðkað núvitund, slökun, öndunaræfingar og jógastöður í gegnum sögur og ævintýri.“
„Steinarnir eru sjávarmegin [á gönguleiðinni með sjávarsíðunni í Njarðvík] og líka hér uppi í klettunum [í Njarðvíkurskógi við Grænás],“ segir Guðrún en það er helsta útivistarsvæði krakkanna á Gimli.
Á heimasíðu Gimlis segir að tilgangurinn með jóga í vettvangsferðum sé að yfirfæra út í náttúruna hluta af því sem nemendur læra í jógastundum inni. Þau læri að tengja jóga og núvitund við umhverfismennt. Við eflum skynfærin okkar með því að hlusta, skoða og snerta. Skoðum og lærum um umhverfið, veðurfar, gróður, fuglana, dýrin, göngum vel um og berum virðingu fyrir náttúrunni.
Sérstaklega dýrmæt verkefni
Þær stöllur segja að með jóga sé verkefnið Gaman saman tvö dýrmætustu verkefnin sem leikskólabörnin á Gimli taka þátt í með eldri borgurum á Nesvöllum og Hrafnistu.
„Við förum einu sinni í mánuði með elstu krakkana í heimsóknir til eldri borgara og svo koma þeir einu sinni í heimsókn til okkar,“ segir Guðrún.
„Ég held að þetta hefði aldrei gengið nema af því að við gerðum samning í upphafi,“ segir Karen. „Það þarf ekki að vera merkilegur samningur, bara eitthvað á blaði og þá er dagskráin sett upp og verkefnið byrjar að rúlla.“ Guðrún dregur fram dagskránna sem er sett upp fyrir hverja önn, þ.e. haustönn og vorönn. Ástæðan fyrir því að lengri plön eru ekki gerð er sú að veðurfar hefur mikil áhrif á hvernig gengur að fara eftir dagskránni.
„Við miðum svolítið við að elsti hópurinn fer í heimsóknir til þeirra en þegar eldra fólkið kemur til okkar þá hitta þau alla aldurshópana okkar,“ segir Karen.
„Þá er boðið upp á kaffi og kleinur og hér fyllist allt af göngugrindum og allskonar,“ bætir Guðrún við.
Þær eru sammála að þessar samkomur elstu og yngstu íbúa sveitarfélagsins eru afskaplega mikils virði og börnin jafnt sem þau eldri gefa hvort öðru dýrmæta gjöf með samverunni.
Samrýndar vinkonur
Leikskólinn Gimli er fyrsti einkarekni leikskólinn í Reykjanesbæ en Karen tók við rekstri hans fyrsta dag janúarmánuðs árið 2005. Þó Karen sé skráð fyrir rekstrinum hafa hún og Guðrún hjálpast að með leikskólann í þessi tuttugu ár og skipta með sér verkum.
„Gunna sér algerlega um bókhaldið með mér og við erum svona saman,“ segir Karen. „Mér fannst það líka skipta máli þegar ég fór að reka þennan skóla að hún hefði augun sín, ekki bara ég, á peningunum. Ég vil ekki vera ein með eitthvað. Ég veit oft minna en hún um hlutina – og mér finnst það þægilegt. Svo erum við búnar að vera með sama endurskoðanda öll þessi tuttugu ár og hann er meira að segja eldri en við.“
„Og við erum búnar að segja honum að hann megi ekki hætta fyrr en við hættum,“ skýtur Guðrún inn í.
„Það er líka mjög gott því hann hefur fylgst alveg með okkur og hann gerir mér alltaf viðvart þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera. Eins og verðbólgan er búin að fara með verðlagið þá hefur hann hnippt í mig og látið vita þegar ég þarf að bregðast við.“
Karen segist hafa velt fyrir sér hverju hún ætti að svara ef blaðamanni lægi forvitni á að vita hvers vegna hún hafi farið út í að reka leikskólann á eigin vegum og hvort það hafi verið einhver peningasjónarmið þá skellir Guðrún upp úr.
„Eina sem ég get í einlægni sagt er að kannski var þetta einhver ævintýraþrá hjá mér í að gera eitthvað öðruvísi. Ég var búin að prófa svo margt; ég var búin að vera leikskólakennari, leikskólastjóri, leikskólafulltrúi og ég átti þetta eftir. Það hefur kannski komið mörgum á óvart að ég skildi vilja gera þetta.
Þá var ég bara fjörutíu og fimm ára, ofboðslega flottur aldur, og ég hugsa að mig hafi langað að hafa meiri áhrif á starfið mitt.“
Og hvernig breyttist þitt starf við þetta? Ertu ennþá að vinna inni á deildunum?
„Nei, ég vinn ekki með börnunum. Sko, við Guðrún tókum þá ákvörðun að ef ég fer að vera mikið inni á kjörnunum þá fer ég að vera svo tætt. Báknið hjá okkur er afskaplega lítið, það er bara ég á skrifstofunni. Guðrún á að vera 25% með mér en hún er bara svo frábær kennari á gólfinu að ég tími ekki að taka hana meira en ég þarf að gera. Tími því bara ekki af því að mér finnst að börnin eigi að fá að njóta fagfólksins okkar sem mest. Fagfólkið er auðvitað sterku stoðirnar inn í starfið okkar – og við erum búin að vera heppin hér í gegnum árin með tiltölulega gott hlutfall af fagfólki. Það er auðvitað heilmikil vinna sem fer í að halda góðu starfsfólki og góðum starfsanda – en fólki líður vel hér.“
Framúrskarandi kennari![]() Karen fer fögrum orðum um Guðrúnu sem fagmanneskju og segir að hún sé „all in“ í starfinu. Það kemur ekki á óvart því á síðasta ári var Guðrún tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna sem framúrskarandi kennari ársins – geri aðrir betur. „Það voru tveir leikskólakennarar tilnefndir og tveir grunnskólakennarar,“ segir hún. „Það var svo annar grunnskólakennarinn sem fékk verðlaunin en það var engu að síður ofboðslegur heiður að hún hafi verið tilnefnd. Mér finnst líka frábært að við séum að gera svo góða hluti svo eftir því er tekið.“ Ertu enn haldin sama eldmóði eftir að hafa unnið við þetta frá 1982? „Já, ég held það. Hver dagur er ævintýri. Alltaf gleði og gaman,“ segir Guðrún. „Það heldur mér gangandi.“ Þú færð þá aldrei leið á vinnunni þinni? „Nei, ég byrja alla daga á að horfa í spegil og segja: „Góðan daginn Gunna, þetta verður góður dagur í dag,“ og ég kenni börnunum það líka. Segi þeim að við ætlum að eiga góðan dag saman.“ Guðrún segir að hún hafa alltaf haft gríðarlega mikinn áhuga á litlum börnum. „Alveg frá því að ég var lítil stelpa. Ég var bara að passa alla daga og fékk túkall fyrir það. Ég bara elska þetta starf og hef alltaf haft ofboðslega mikla þörf fyrir að vera í svona gleði og kærleika,“ segir hún. Gleði og kærleika segirðu, það virðist vera svolítið ríkjandi í þessari Hjallastefnu. „Já,“ segja þær saman í kór og bæta við að kærleiki og agi haldast hönd í hönd. „Af því að við tölum um þetta agalausa samfélag í dag þá finnst okkur svo gott að vinna með kærleika og aga saman,“ segir Karen. „Af því að það getur ekki án hvors annars verið. Það er að finna þetta jafnvægi þar á milli. Við vorum báðar aldar upp við ákveðinn aga en kærleikann alltaf með.“ „Við tölum alltaf við börnin á jákvæðan hátt,“ segir Guðrún. „Beinum athyglinni að því sem er gott og vöndum okkur hvað við segjum. Segjum þeim frekar hvernig sé best að gera hlutina frekar en að segja hvernig eigi ekki að gera þá. Ekki benda á hvað þau séu ómöguleg heldur hvernig þau geti gert betur. Þá ertu komin með þetta jákvæða og færð þau með þér. Svo líka að læra að hlusta á börn,“ segir hún. „Það skiptir einnig rosalega miklu máli. Mæta hverju barni sem einstaklingi og vinna traust þeirra.“ |