Nýr skynörvunarstóll veitir mikla ró á HSS
Nýr skynörvunarstóll á sjúkradeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er himnasending fyrir deildina. Stóllinn er gjöf þriggja Lionsklúbba í Reykjanesbæ til deildarinnar. Stóllinn, Wellness Nordic Relax Chair, er töfratæki sem hefur róandi áhrif á alla sem í hann setjast. Það getur blaðamaður Víkurfrétta staðfest af eigin reynslu. Eftir að hafa sest í stólinn hallar hann aftur og byrjar að leika róandi tónlist og með hljóðum og hreyfingum og sendir þann sem er í stólnum í mikla ró og jafnvel svæfir. Heimsókn blaðamanns á sjúkradeildina síðasta föstudag, þegar stóllinn var formlega afhentur, tók því óvænta stefnu. Blaðamaður var snögglega sendur í draumalandið á meðan Lionsfólkið gæddi sér á myndarlegri rjómatertu sem var á borðum í tilefni af afhendingu gjafarinnar.
Kynntust stólnum í menningarferð
En hvernig kom það til að þennan stól rak á fjörur sjúkradeildarinnar á HSS? Starfstólkið á sjúkradeildinni fór í menningarferð til Reykjavíkur í desember síðastliðnum og heimsótti meðal annars fyrirtækið Fastus, sem er með mikið úrval af heilbrigðisvörum ýmiskonar. Þar fengu þau kynningu á því nýjasta sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða.
„Þau voru nýbúin að fá svona stól í hús hjá sér og leyfðu okkur að prófa hann. Þá var ekki aftur snúið og við vildum fá þessa græju fyrir okkar skjólstæðinga. Þessi stóll er nýjung í velferðartækni. Stóllinn kemur frá Skandinavíu þar sem þessi tækni er mikið rannsökuð. Þetta er hægindastóll sem sameinar skynörvun með hljóði, snertingum og hreyfingu. Stóllinn er með innbyggða hátalara með sefandi tónlist og mjúka ruggandi hreyfingu. Þessi stóll er mest rannsakaður á vettvangi heilabilaðra og hann dregur úr neikvæðum hegðunareinkennum hjá heilabiluðu fólki og bætir líðan.
Fólk sem er að berjast við mjög slæma verki er að láta vel af þessu og þá er það slökunin sem hjálpar alltaf svo vel til að berjast við verkina. Ef fólk er stressað og órólegt þá ná sér flestir sem fást til að setjast í stólinn. Við erum búin að vera með stólinn hjá okkur í tvær eða þrjár vikur og byrjuð að nota hann,“ segir Bryndís Sævarsdóttir, deildarstjóri sjúkradeildar á HSS.
Bryndís hafði samband við Lionsklúbbana í Reykjanesbæ, Lionsklúbbinn Æsu, Lionsklúbbinn Freyju og Lionsklúbb Njarðvíkur. Þeir tóku vel í verkefnið og sameinuðust um kaup á stólnum, sem er að verðmæti um ein og hálf milljón króna.

Stóllinn gert mikla lukku
Stóllinn hefur gert mikla lukku á bæði sjúkradeildinni og hjúkrunardeildinni og ferðast mikið á milli hæða og er notaður öllum stundum, bæði fyrir skjólstæðinga HSS en einnig af starfsfólki sem notar hann til að komast í ró.
Bryndís segir að það sé alveg þörf fyrir annar svona stól og biðlar til annarra félaga eða fyrirtækja á Suðurnesjum. „Við erum með hjúkrunardeildina hér á hæðinni fyrir neðan okkur og svona stóll myndi nýtast mjög vel þar líka.“
Mikil breyting með sjúkradeildinni
Sjúkradeildin á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja opnaði í október árið 2023. Opnun deildarinnar var mikil breyting á vinnuaðstöðu frá því sem var þegar öll starfsemin var í sameiningu á sömu hæðinni og flest þekkja sem D-deildina. Öll aðstaða fyrir bæði starfsfólk og sjúklinga er allt önnur og sjúkradeildin hefur það orð á sér að vera sú flottasta á landinu.
Á sjúkradeildinni eru nítján legurými og svo er einnig dagdeild á sömu hæð þar sem eru gefnar lyfjagjafir.
Á hjúkrunardeildinni eru svo 32 rými í dag en hjúkrunardeildin er farin að flæða með sína starfsemi inn á gamla spítalann. Hjúkrunardeildin sprengdi utan af sér húsnæðið þegar atburðirnir gerðust í Grindavík í nóvember 2023. Bæði komu allir af Víðihlíð á HSS og á sama tíma þurftu mörg sem voru heima í Grindavík að komast í hjúkrunarrými.
Veitir ekki af að halda áfram uppbyggingu
Þær aðstæður sem núna eru á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja áttu að vera tímabundið úrræði, að sögn ráðuneytis heilbrigðismála, þar til ný 80 rými opni á Nesvöllum. Þó svo þau hafi ekki enn verið tekin í gagnið þá er sú nýbygging þegar orðin of lítil og hjúkrunarrýmin á Hlévangi verða áfram og óljóst hvernig staðan verður á HSS næstu misseri.
„Þessi nýju rými eru bara dropi í hafið fyrir okkur á Suðurnesjum því íbúafjöldinn vex svo hratt. Það veitir ekki af að halda bara áfram. Þá þarf að taka hjúkrunardeildina hérna niðri í gegn,“ segir Bryndís. Það hafði staðið til þegar sjúkradeildin flutti upp á þriðju hæð HSS en aðeins mánuði síðar urðu náttúruhamfarirnar í Grindavík með þeim afleiðingum að hjúkrunardeildin hefur verið fullskipuð og rúmlega það síðan.
Deildin alltaf fullnýtt
Bryndís segist mjög sátt við hvernig málum er háttað á sjúkradeildinni sem hún stýrir. Þar hafi verið tekið tillit til óska starfsfólksins og það haft með í ráðum.
Hún segir að legurýmin á sjúkradeildinni séu alltaf fullnýtt en dagdeildin er opin tvo daga í viku. „Við erum núna að safna hjúkrunarfræðingum til að geta haft opið fleiri daga í viku þar. Þörfin er alveg fyrir hendi.“
Hvernig gengur að ráða fólk?
„Alveg þokkalega. Það er smá lægð í gangi núna og okkur vantar hjúkrunarfræðinga og höfum ekki getað fengið nógu marga til að geta opnað fleiri daga í viku á dagdeildinni.“
Bryndís segir að fólk á Suðurnesjum sé duglegt að sækja sér menntun í þessum fræðum og það sé að skila sér til HSS og einnig annað. Þá sé staðan einnig þannig að hjúkrunarfræðingar séu ekki að starfa í faginu og séu á öðrum stöðum eins og í fluginu. „Það er fullt af flugfreyjum sem eru hjúkrunarfræðingar.“