Fréttir

„Erum klárlega leiðandi á landsvísu“
Gunnhildur Gunnarsdóttir og Skúli Bragi Geirdal.
Laugardagur 22. febrúar 2025 kl. 06:04

„Erum klárlega leiðandi á landsvísu“

Fræðsla fyrir foreldra í Reykjanesbæ um skjánotkun barna

Samtakahópurinn, þverfaglegur forvarnarhópur í Reykjanesbæ, stóð fyrir fræðslu um skjánotkun barna dagana 10.–13. febrúar í öllum grunnskólum Reykjanesbæjar. Foreldrar barna í öllum skólum í Reykjanesbæ í 1.–4. bekk voru heimsóttir á sal skólanna og í boði var fræðsla um skjánotkun barna. Eftir fræðsluna unnu foreldrar bekkjarsáttmála um skjánotkun barnanna.

„Við erum klárlega leiðandi á landsvísu með þetta fyrirmyndar verkefni. Vonandi taka önnur sveitarfélög þetta upp og gera slíkt hið sama,“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir, forstöðumaður Fjörheima og 88 hússins. Foreldrar voru virkilega ánægðir með framtakið og sýndu efninu mikinn áhuga.

Þessi viðburður fellur vel að alþjóðlegum netverndardegi, sem haldinn er árlega á öðrum þriðjudegi í febrúar. Í ár var hann þriðjudaginn 11. febrúar, og minnir okkur á mikilvægi netöryggis og ábyrgðar í stafrænum heimi. Það er ánægjulegt að Samtakahópurinn í Reykjanesbæ skuli taka virkan þátt í að stuðla að vitundarvakningu um þessi mál og styðja foreldra í að fræða börnin sín um skynsamlega skjánotkun, segir á vef Reykjanesbæjar um verkefnið.

„Við vonum að fræðslan auki vitund foreldra um skjánotkun barna og hvetji þá til að skoða eigin skjávenjur og hvernig fyrirmyndir við viljum vera. Það væri einnig frábært ef foreldrar héldu áfram að miðla því sem þeir læra hér og ef þessi viðburður yrði upphafið að opnara samtali foreldra á milli. Ég hef fulla trú á að við getum unnið saman að því að skapa öruggt og gott umhverfi fyrir öll börn í Reykjanesbæ,“ sagði Gunnhildur Gunnarsdóttir, fulltrúi Samtakahópsins.

Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd, leiddi fræðsluna og fjallaði um skjánotkun, samfélagsmiðla, skjátíma og mikilvægi foreldrasamstarfs. Hann útskýrði hvernig skjánotkun getur haft áhrif á börn og veita hagnýtar leiðbeiningar um hvernig foreldrar geta stutt börnin sín í að nota skjáinn á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Hugmyndin að fræðslunni spratt upp úr samtölum innan Samtakahópsins, sem hafði áhyggjur af aukinni skjánotkun barna og ungmenna og vildi styðja við foreldra með markvissri fræðslu.

Markmið verkefnisins eru skýr:

  • Foreldrar og forsjáraðilar verði upplýstir um áhrif skjánotkunar.
  • Foreldrar og forsjáraðilar fái tækifæri til að setja skýr mörk um skjánotkun.
  • Foreldrar og forsjáraðilar vinni saman að jákvæðu og heilbrigðu umhverfi fyrir börnin sín.

Eftir fræðsluna fengu foreldrar tækifæri til að taka þátt í hópavinnu þar sem þeir vinna að bekkjarsáttmála um skjánotkun barna sinna. Forstöðukona félagsmiðstövar, ásamt námsráðgjöfum, mun stýra hópavinnunni sem miðar að því að móta sameiginleg viðmið og reglur sem verða hengd upp í skólastofum nemenda. Að auki verður bekkjarsáttmálanum deilt á foreldrasíður og heimasíður skóla.

Framtíðarsýn – árlegur viðburður og fræðsla fyrir eldri bekki

Skipuleggjendur stefna að því að gera foreldrafræðsluna og hópavinnu bekkjarsáttmálans að árlegum viðburði. Ef verkefnið reynist vel er jafnframt áformað að útvíkka fræðsluna til foreldra barna í 5.–7. bekk. Þetta er einstakt tækifæri fyrir foreldra í Reykjanesbæ til að afla sér dýpri skilnings á málefninu og stuðla að jákvæðri og uppbyggilegri skjánotkun barna sinna.