Mannlíf

Er ísbíllinn í kirkjunni?
Laugardagur 22. febrúar 2025 kl. 06:55

Er ísbíllinn í kirkjunni?

„Er ísbíllinn í kirkjunni,“ spurði ung stúlka Erlu Guðmundsdóttur sóknarprest á kirkjutröppunum á sunnudaginn, þegar 110 ára afmæli Keflavíkurkirkju var fagnað. „Nei, af hverju heldur þú það,“ spurði Erla á móti. „Vegna þess að bjöllurnar hafa hringt svo oft,“ svaraði barnið um hæl.

Það var þétt setinn kirkjubekkurinn og hátíðleg stund í stórafmælinu. Kirkjukórinn troðfyllti kórloftið og bæjarstjórinn lék á fiðluna.

„Ef Keflavíkurkirkja væri manneskja, gætum við fundið það á henni við fyrstu kynni að lífsreynslan birtist í fasi hennar og framkomu. Hún þekkir þetta allt. Hefur upplifað myrka tíma mótlætis og sorgar, horft framan í mannlega veikleika og mistök sem gerð hafa verið. Hún hefur kynnst yfirborðsmennsku og óekta vináttu. Allt þetta hefur mótað hana, kennt henni mikilvæga lexíu í lífinu, gefið henni þá dýrmætu gjöf að greina rétt frá röngu, sannleika frá lygi og heiðarleika frá sýndarmennsku. Hún hefur leitað í uppruna sinn, losað sig við allt hjóm. Stendur eftir sterk og óhagganleg, ómetanleg hverjum þeim sem vill leita til hennar. Er kletturinn í samfélaginu, vitinn á heiðinni, heimilið sem opnar dyr sínar fyrir hverjum sem þangað vill leita sér til gagns og samfélaginu til farsældar,“ sagði Erla sóknarprestur m.a. í ræðu sinni. Séra Erla, séra Fritz Már þjónuðu fyrir altari og nutu aðstoðar Ívars djákna og messuþjónanna Páls og Jónínu.

Einar Páll Bergþórsson og Jökull Ingi Gústafsson kveiktu á kertum og sunnudagaskólaleiðtogar voru Grybos, Helga, Jón Ingi og Rut Páldís. Eftir hátíðarmessuna og sunnudagaskólann var svo öllum boðið í afmæliskaffi og kökur í Kirkjulundi.

Keflavíkurkirkja 110 ára | Hátíðarguðsþjónusta 16. febrúar 2025