Samkaup
Samkaup

Fréttir

Bætt úrgangsstjórnun Kölku í samstarfi við Pure North
Frá vinstri Börkur Smári Kristinsson, Davor Lucic, Steinþór Þórðarson
Mánudagur 28. október 2024 kl. 16:23

Bætt úrgangsstjórnun Kölku í samstarfi við Pure North

Umhverfistæknifyrirtækið Pure North hefur hafið spennandi samstarf með Kölku, brennslustöðinni á Suðurnesjum. Kalka er eina brennslustöðin á Íslandi og sinnir mikilvægu hlutverki í úrgangsstjórnun fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum, sem og fyrir landið allt t.d. í förgun sóttmengaðs úrgangs og spilliefna. Með því að taka höndum saman, sýna fyrirtækin fram á skýra sýn og skuldbindingu gagnvart sjálfbærum lausnum fyrir úrgangsstjórnun.

Kalka hefur byrjað að flokka betur það sem hefur verið sent til brennslu og sendir nú plast sem hægt er að endurvinna til Pure North, meðal annars ónýtar ruslatunnur og plaströr sem henta mun betur til endurvinnslu en til brennslu. Með því að nýta þær auðlindir sem annars væru eyðilagðar, stuðlar samstarfið að aukinni nýtingu verðmætra efna, sem er í takt við stefnu fyrirtækjanna um að draga úr sóun og auka hringrásarhagkerfið.

„Undanfarið höfum við náð góðri hringrás þar sem plast kemur frá Kölku, fer til Pure North, er endurunnið, og síðan sett aftur í framleiðslu plasts. Þetta er gott dæmi um hvernig hægt er að loka hringrásinni á hagkvæman og umhverfisvænan hátt," segir Börkur Smári Kristinsson hjá Pure North. „Við erum stöðugt að leita að fleiri tækifærum af þessu tagi til að nýta betur úrgang sem annars myndi fara í brennslu, og með því ná enn meiri umhverfisávinningi.“

Samstarfið endurspeglar sterkan vilja Kölku til að draga úr úrgangsmagni og nýta betur þau efni sem geta átt sér lengra líf. Börkur Smári hjá Pure North leggur áherslu á að slíkt samstarf sé nauðsynlegt til að ná fram markmiðum um sjálfbæra úrgangsstjórnun og stuðla að aukinni ábyrgð í meðhöndlun úrgangs á landsvísu.