Bjóst ekkert sérstaklega við þessu
– segir körfuknattleikskona ársins 2024
Keflvíkingurinn Thelma Dís Ágústsdóttir varð efst í valinu á körfuknattleikskonu ársins 2024 en Thelma Dís sneri heim til Keflavíkur fyrir síðasta tímabil eftir að hafa lokið háskólanámi við Ball State University í Indiana í Bandaríkjunum og átt góðu gengi að fagna með körfuboltaliði skólans. Endurkoma hennar í heimahagana átti eflaust sinn þátt í að Keflavík vann þrefalt á síðasta tímabili en þá urðu Keflvíkingar deildar-, bikar- og Íslandsmeistarar kvenna.
Thelma Dís er vel að nafnbótinni körfuknattleikskona ársins komin en hún var burðarstólpi í meistaraliði Keflavíkur auk þess að vera lykilleikmaður í íslenska landsliðinu sem lék tvo leiki í nóvember, þar skoraði Thelma meðal annars 21 stig í sigri á Rúmeníu.
Vissi að ég var búin að standa mig vel
Víkurfréttir slógu á þráðinn til Thelmu og óskuðu henni til hamingju með að vera valin körfuknattleikskona ársins. Því næst spyrjum við hana hvort hún hafi búist við þessu.
„Takk fyrir það. Ég bjóst ekkert sérstaklega við þessu. Ég vissi að ég var búin að standa mig vel, og það hjálpaði líka að liðið okkar varð þrefaldur meistari, en þetta var ekkert sem ég var búin að hugsa neitt sérstaklega út í.“
Af þeim sex sem fengu atkvæði í vali á körfuknattleikskonu ársins koma þrjár úr liði Keflavíkur, þú, Sara [Rún Hinriksdóttir] og Birna [Valgerður Benónýsdóttir].
„Og allar uppaldar í Keflavík,“ bætir Thelma við.
Hvernig finnst þér tímabilið hafa gengið? Þetta er ekki alveg að standast væntingar.
„Nei, þetta er alveg undir væntingum. Ég veit ekki hvort það tengist einhverri pressu eða hvað það er.“
Þið eruð náttúrlega búnar að vera án Birnu og Sara er tiltölulega nýkomin inn eftir meiðsli.
„Já, algjörlega – en eins mikið og við söknum þeirra þá finnst mér við vera með nógu sterkt lið til að hafa átt að gera betur.“
Svo dró til tíðinda þegar liðið var að fara í jólafrí og Friðrik Ingi [Rúnarsson] sagði upp starfi sínu sem þjálfari liðsins. Kom það ekki á óvart?
„Bæði og. Mér finnst hann vera flottur þjálfari, hann var að koma með nýjar víddir inn í þetta hjá okkur en eins og ég segi þá er auðvitað erfitt að koma inn í lið eins og okkar, sem vann allt árið á undan, og það er náttúrlega mikil pressa og ef liðinu gengur ekki nógu vel þá er einhvern veginn auðvelt að horfa á þjálfarann og reyna að breyta til þannig.“
Hver er að stýra æfingum á meðan verið er að leita að nýjum þjálfara?
„Hann Elli [Elentínus Margeirsson] er með okkur. Ég hef ekkert heyrt af þjálfaramálum, hvort það sé eitthvað nær að ráða einhvern. Mér skilst að Elli verði með okkur þangað til að nýr þjálfari verður ráðinn og þá verður það í hans höndum hvort hann vilji hafa Ella áfram eða hvernig það allt verður.“
En þið eruð ekkert búnar að leggja árar í bát. Þið ætlið væntanlega að verja Íslandsmeistaratitilinn allavega, er það ekki?
„Við erum alls ekki búnar að leggja árar í bát, það er nóg eftir af þessu tímabili. Við verðum bara að finna gleðina aftur við að vera að spila saman og þá verður þetta fljótt að koma.“
Spennt að byrja aftur
En þú sjálf, hvað er að frétta af þér?
„Já, ég er að vinna í áhættustýringu í Íslandsbanka í bænum. Það er voðalega næs og tengist því sem ég var að læra úti. Ég tók tryggingastærðfræði í BS og tölfræði í Master. Þannig að ég er mikið að vinna með allskonar gögn í Excel og þannig. Ég held að ég hafi valið rétt nám, ég hef allavega voðalega gaman af þessu.“
Thelma segist hafa náð að slaka vel á yfir jólin en hún segir Keflavík ætla að þoka sér ofar á töflunni eftir áramót.
„Ég er búin að hafa það mjög notalegt yfir jólin. Það er að vera fínt að fá smá frí frá körfunni og ná að kúpla sig aðeins út en síðan er maður bara orðin spennt að byrja aftur. Smá hungur er komið í mann og leiðin er bara upp á við,“ sagði körfuknattleikskona ársins að lokum.