Kynningarfundur K-S-R
Kynningarfundur K-S-R

Fréttir

Gervigrasið í Hópinu verður lagað en ekki skipt út
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 8. desember 2022 kl. 09:12

Gervigrasið í Hópinu verður lagað en ekki skipt út

„Einfalt reikningsdæmi,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs.

Eins og fram kom í frétt Víkurfrétta 21. október síðastliðinn, um ástand gervigrass Hópsins, þá ályktaði frístunda- og menningarnefnd Grindavíkurbæjar á þá þann veg að skipta ætti út gervigrasinu. Undir þetta tóku fulltrúar meirihlutans í nefndinni. Nú hefur bæjarráð tekið ákvörðun um að laga frekar núverandi gervigras og fara því ekki eftir því sem frístunda- og menningarnefndin lagði til.

Víkurfréttir náðu tali af Hjálmari Hallgrímssyni, formanni bæjarráðs: „Í mínum huga er þetta nokkuð einfalt reikningsdæmi. Viðgerð á núverandi gervigrasi mun kosta u.þ.b. tvær milljónir og ætti gervigrasið þannig að endast í tvö ár, á meðan kostnaður við að leggja nýtt er um 50–60 milljónir og endast í átta til tíu ár, þar fyrir utan er rekstrarkostnaður við nýtt gervigras mun hærri. Vinna við deiliskipulag stendur ennþá yfir og inni í því er nýr gervigrasvöllur. Við teljum rétt að halda að okkur höndum og fara þessa leið á meðan ekki er vitað hvenær ráðist verður í gerð nýs gervigrasvallar. Það eru ýmsar aðrar framkvæmdir í gangi og framundan, þess vegna ákváðum við að gera þetta svona.“

Stefnt er að því að vinnu við deiliskipulag ljúki fljótlega á næsta ári og þá mun Grindavíkurbær kynna í hvaða framkvæmdir verður ráðist og hvenær.

SSS
SSS