Geta keypt hluti sem eru mjög dýrir
Við Njarðvíkurskóla er starfrækt sérdeildin Ösp sem stofnuð var árið 2002 þegar skólaúrræði vantaði fyrir nemendur sem gátu ekki nýtt sér almenna bekkjarkennslu. Deildin er hugsuð fyrir nemendur í 1.-10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar sem þurfa á slíku skólaúrræði að halda og sinnir meðal annars nemendum með þroskaskerðingu, Down´s heilkenni, Rubenstein heilkenni, hreyfihömlun, einhverfu sem og langveika nemendur. Öspin er eitt þeirra málefna sem hlutu styrk úr Góðgerðarfesti Blue að þessu sinni.
„Þessi styrkur hefur mikla þýðingu fyrir okkur. Við getum keypt hluti sem eru mjög dýrir og fara í skynörvunarherbergið okkar, eins og boltabað, gjónapúða, ljósamastur og allskonar óhefðbundið kennsludót fyrir okkar nemendur,“ segir Kristín Blöndal, deildarstjóri hjá Öspinni.
Hvað er þetta viðamikil starfsemi hjá ykkur?
„Öspin er sérhæft námsúrræði og erum með 24 nemendur. Við erum miðlægt úrræði sem þýðir að við þjónustum Reykjanesbæ sem heild. Við erum með nemendur úr öllum skólahverfum. Starfsemin er mikil og við erum stærsta sérhæfða námsúrræðið með nemendur úr 1. og upp í 10. bekk sem þurfa mikla þjónustu. Öspin hefur vaxið og dafnað undanfarna tvo áratugi. Við áttum tuttugu ára afmæli árið 2022. Við vorum fyrst lítil og krúttleg deild í 100 fermetra húsi sem var gamall gæsluvöllur. Í dag er þetta 550 fermetra hús sem er búið að byggja við fimm sinnum og er mjög öflug starfsemi hjá Reykjanesbæ.“