Samkaup
Samkaup

Fréttir

Áskorun Grindavíkur til þingmanna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 31. október 2024 kl. 13:03

Áskorun Grindavíkur til þingmanna

Bæjarstjórn Grindavíkur bókaði á fundi sínum í vikunni að mjög brýnt sé að málefni sem varða afkomu og húsnæðismál Grindvíkinga verði lögfest með lagabreytingum sem allra fyrst. Hefur Grindavíkurbær sent áskorun til allra þingmanna um lagabreytingar sem nauðsynlegt er að hljóti samþykki á yfirstandandi þingi.

Sú óvissa sem fylgir breyttum þingstörfum, vegna komandi kosninga, er mjög bagaleg í ljósi krefjandi aðstæðna sem bæði Grindvíkingar og Grindavíkurbær glíma við vegna náttúruhamfara.

Bæjarstjórn ítrekar mikilvægi þess að málefni bæjarins komist á dagskrá þingsins sem fyrst þar sem mörg úrræði eru að renna út um áramótin eða hafa þegar runnið út. 

Sérstök áhersla er lögð á eftirfarandi ákvæði í lögum:

a. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 15/2024, með síðari breytingum sbr. lög nr. 65/2024, um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

Gildistími laganna verði framlengdur til 1. apríl 2025. Frekari stuðningsaðgerðir ætti hins vegar að sníða þannig að þær feli í sér hvata fyrir fleiri fyrirtæki til þess að hefja aftur starfsemi í Grindavík.

b. 1. gr. laga nr. 74/2024 um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar.

Gildissvið tryggingarverndar sjóðsins afmarkast við tíma frá gildistöku laganna 1. júlí til 31. desember 2024. Þessi tími er augljóslega alltof knappur.

c. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 16/2024 um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

Samkvæmt ákvæðinu geta íbúðaeigendur í síðasta lagi óskað eftir uppkaupum fyrir 31. desember. Bæjarstjórn tekur undir tillögu Grindavíkurnefndar um að frestur verði lengdur til 1. júlí 2025.

Jafnhliða framangreindri breytingu væntir bæjarstjórn þess að gerð verði breyting á 1. tl. 2. mgr. 7. gr. laganna, í samræmi við fyrirliggjandi tillögur Grindavíkurnefndar. Í stað orðsins „Fasteignagjöldum“ komi: Fasteignaskatti og lóðarleigu. Í breytingunni felst að Þórkatla muni greiða fráveitugjald og vatnsgjald líkt og aðrir fasteignaeigendur, en verði áfram undanþegin greiðslu fasteignaskatts og lóðarleigu.

d. 4. mgr. 15. gr. laga nr. 94/2023, með síðari breytingum, um sérstakan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavík, sbr. lög nr. 65/2024.

Bæjarstjórn vísar til bókunar að framan og tillagna Grindavíkurnefndar. Áréttað er að það er mjög brýnt að lagabreyting verði samþykkt fyrir alþingiskosningar 30. nóvember.

e. 7. mgr. laga nr. 114/2023 um breytingu á lögum um almennar íbúðir og lögum um húsnæðismál.

Heimild Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til að veita allt að 30% stofnframlag ríkis og viðbótarframlag gildir til 31. desember 2024. Ákvæðið skal endurskoðað fyrir lok árs 2024. Bæjarstjórn vísar til ofangreindrar bókunar og tillagna Grindavíkurnefndar.

f. 1.-3. gr. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 84/2023 um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr.

Lögin í heild gilda til 31. desember 2026 en tilgreind ákvæði falla hins vegar úr gildi 1. janúar 2025. Augljós þörf er til þess að framlengja þær heimildir og væri að öllum líkindum skynsamlegast að fella 2. málslið 1. mgr. 5. gr. úr gildi.

g. Lög nr. 4/2024 um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Með lögunum var Grindavíkurbæ heimilað að fresta, lækka eða fella niður fasteignaskatt á íbúðar- og atvinnuhúsnæði í Grindavík. Jafnframt var Grindavíkurbæ tryggt framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna fasteignaskattsjöfnunar og grunnskólakostnaðar. Þar sem um er að ræða skattalagaákvæði er nauðsynlegt að framlengja gildistíma laganna með ákveðnum breytingum er snúa að jöfnunarsjóðsframlögum. Grindavíkurbær er tilbúinn til að leggja fram frekari hugmyndir um útfærslu þeirra lagabreytinga.

Sérstakt tillit þyrfti að taka til þess að vegna þess að regluverk jöfnunarsjóðs gerir ekki ráð fyrir skörpum breytingum á íbúafjölda, líkt og orðið hefur í Grindavíkurbæ, mun sveitarfélagið að óbreyttu ekki fá jöfnunarframlag úr sjóðnum á árinu 2025.

Um er að ræða mál sem ekki þola bið.

Það er óhugsandi og ótæk niðurstaða að mati bæjarstjórnar að rof verði á gildistíma úrræða í þágu Grindvíkinga þótt um sé að ræða lagaákvæði sem löggjafinn hafi gert ráð fyrir að yrðu endurskoðuð með tilliti til aðstæðna við lok gildistíma laganna.

Þau atriði sem fram koma í áskorun til þingmanna eru mjög mikilvæg í ljósi þess að náttúruhamförum er því miður ekki ennþá lokið og land heldur áfram að rísa.

Fyrirsjáanleiki um stuðningsúrræði, hvort sem þau snúa að einstaklingum, fyrirtækjum eða rekstri Grindavíkurbæjar, skiptir mjög miklu máli. Vafi um hvort úrræði verði framlengd er því óásættanlegur.

Bæjarstjórn lýsir að lokum þakklæti til alþingismanna fyrir þann einróma stuðning sem Alþingi hefur sýnt íbúum Grindavíkur og væntir þess að sá stuðningur verði áfram til staðar eftir alþingiskosningar 30. nóvember.

Hér má lesa áskorunina í heild sinni

Hér má sjá umsagnir Grindavíkurbæjar og rekstraraðila í Grindavík varðandi stuðningslán.