Land rís áfram í Svartsengi
Það hefur verið skýr aukning í skjálftavirkni nærri Sundhnúksgígaröðinni á milli vikna, fyrir utan síðustu vikuna í febrúar en það er líklega vegna veðurs. Skjálftastöðin sem olli truflun í mælingum hefur verið lagfærð. Jarðskjálftavirkni heldur áfram á sama stað og hefur verið í aðdraganda síðustu atburða, sem sagt á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells þar sem kvika hefur fyrst komið til yfirborðs í sex af sjö eldgosum frá desember 2023. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Myndin sýnir jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina frá síðustu goslokum þann 8. desember 2024 til dagsins í dag, 18. mars. Á kortinu sést staðsetning jarðskjálftanna á þessum tíma; athugið að það á eftir að leiðrétta staðsetningu skjálfta austan við Sundhnúksgígaröðina. Hraunbreiða síðasta eldgoss er sýnd með gráu þekjunni og dökkrauðar línur sýna staðsetningu gossprungna í þeim eldgosum sem hafa orðið á svæðinu síðan í desember 2023. Efra grafið sýnir stærðir jarðskjálfta á tímabilinu og neðra grafið sýnir síðan fjölda skjálfta í hverri viku sem hefur farið vaxandi undanfarið.
Aflögunarmælingar sýna áframhaldandi landris
Aflögunarmælingar (GPS-mælingar) sýna að landris heldur áfram en enn frekar hefur dregið úr hraðanum undanfarið. Engin merki eru um landsig á svæðinu í kringum Svartsengi samkvæmt GPS-mælingum og InSAR-gögnum. Kvika heldur því áfram að safnast fyrir undir Svartsengi og hefur rúmmál hennar aldrei verið meira eftir að goshrinan á Sundhnúksgígaröðinni hófst í desember 2023.
Grafið sýnir 8 klst lausnir fyrir GPS stöðina THOB sem staðsett er á Þorbirni. Gögnin sýna færslur í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst).
Hættumat hefur verið uppfært og er óbreytt – og gildir til 25. mars, að öllu óbreyttu.