Tónlistarskóli RNB tónleikar
Tónlistarskóli RNB tónleikar

Íþróttir

Njarðvík í úrslit VÍS-bikarsins eftir sigur í æsispennandi leik á móti Hamar/Þór Þ
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 18. mars 2025 kl. 19:15

Njarðvík í úrslit VÍS-bikarsins eftir sigur í æsispennandi leik á móti Hamar/Þór Þ

Undanúrslit VÍS-bikarsins hófust í dag með leik Njarðvíkur og Hamars/Þórs Þ. M.v. stöðuna í deildinni mátti búast við auðveldum sigri Njarðvíkinga en eitt það skemmtilegasta við íþróttir er að ekkert er gefið fyrirfram. Hamar/Þór Þ leiddi með einu stigi í hálfleik, 40-41 og það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem Njarðvík náði frumkvæðinu en minnstu munaði að Hamar/Þór Þ myndi jafna með lokaskotinu, lokatölur 84-81.

Hvort það var vanmet eða hvað, voru Njarðvíkurkonur ekki með spennustigið rétt stillt í upphafi leiks og leiddur Suðurlandskonurnar með þremur stigum að loknum fyrsta leikhluta, 18-21. Liðin leiddust hönd í hönd út hálfleikinn og munaði eins og áður sagði, einu stigi.

Njarðvík átti í basli með Kana Hamars/Þórs Þ, Abby Claire Beeman og áttu í basli með að finna körfuna hinum megin. Brittany var samt við sitt heygarðshorn, var komin með 13 stig í hálfleik og Hulda María Agnarsdóttir steig líka flott upp, var komin með 11 stig.

VF Krossmói
VF Krossmói

Seinni hálfleikur hófst á svipaðan máta, Hamar/Þór Þ skoraði fyrstu sex stigin og voru Njarðvíkurkonur í mesta basli með að finna körfuna. Stíflan brast að lokum, flottur þristur Láru Aspar Ásgeirsdóttur færði muninn niður í tvö stig en afskaplega auðveldar körfur komu í andlitið og grunar blaðamann að Einar Árni, þjálfari Njarðvíkur, hafi ekki verið sáttur við varnarleikinn. Hann batnaði eftir því sem leið á fjórðunginn og þegar u.þ.b. mínúta lifði þriðja leikhluta, komst Njarðvík yfir með flottum þristi frá Kristu Gló Magnúsdóttur en Suðurlandskonurnar svöruðu á móti með þristi. Þriðji fjórðungurinn hnífjafn og því munaði sama eina stiginu fyrir lokaleikhlutann, staðan 59-60.

Njarðvíkurkonur komu sterkari inn í fjórða leikhlutann og var Brittany Dinkins sérstaklega sterk, var búin að skora átta af níu stigum liðsins. Hamar/Þór Þ tók leikhlé í stöðunni 68-65 og 6:41 eftir af leiknum.

Fljótlega var leikurinn orðinn jafn og allt á suðupunkti! Í stöðunni 72-72 náði Njarðvík mjög sterku sóknarfrákasti og Paulina Hersler skoraði og fékk vítaskot, sem hún nýtti. 75-72 og tæpar þrjár mínútur eftir og aftur tekið leikhlé. Njarðvík varðist og náði að setja körfu, 77-72. Suðurlandskonum var fyrirmunað að koma boltanum ofan í körfuna og virtist nokkuð öruggur Njarðvíkursigur ætla að verða ofan á en þá hljóp æði á andstæðinginn, þrír þristar og munaði minnstu að þær hefðu jafnað á lokasekúndunni en þriggja stiga skotið geigaði og sigur Njarðvíkur staðreynd, 84-81.

Brittany Dinkins sannaði enn og aftur að hún er einn albesti leikmaður í íslenskum kvennakörfuknattleik í dag, hún endaði með 35 stig, 8 stoðsendingar, 5 fráköst og stal auk þess 5 boltum, klárlega kona leiksins.

Fyrirliði Njðarvíkur, Emilie Sofie Hesseldal, var heldur betur heit í frákastabaráttunni, hirti heil 19 fráköst!

Þungu fargi var létt af Njarðvíkingum í leikslok.

Njarðvíkingar fjölmenntu í stúkuna í Smáranum.

Einar Árni Jóhannson, þjálfari Njarðvíkur: Krista Gló Magnúsdóttir, leikmaður Njarðvíkur.