VF Krossmói
VF Krossmói

Fréttir

Grindavíkurhöfn iðar af lífi, Páll Jónsson landaði fullfermi í morgun
Það var líf við Grindavíkurhöfn í morgun þegar landað var úr Páli Jónssyni GK.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 17. mars 2025 kl. 09:00

Grindavíkurhöfn iðar af lífi, Páll Jónsson landaði fullfermi í morgun

Vertíðin er komin á fullt og virðist sjórinn hér við sv-hornið vera fullur af fiski. Línuskipið Páll Jónsson GK kom með fullfermi á sunnudagsmorgun og var landað úr honum í morgun, mánudag. Fiskurinn fer í vinnslu Vísis í Grindavík, annað hvort í vinnsluhúsið sem vinnur ferskan fisk í flug, eða í salthúsið.

Ljósmyndarinn Jón Steinar Sæmundsson er verkstjóri í salthúsi Vísis.

„Við erum búnir að vinna á svo til fullum afköstum síðan við snérum heim til Grindavíkur eftir að hafa unnið síðustu vertíð í Helguvík. Það er venjulega litli fiskurinn sem fer í vinnsluhúsið okkar sem vinnur ferskt og sá stóri fer í saltið. Fiskerí hefur verið gott að undanförnu og skipverjarnir á Páli Jónssyni fengu einn auka frídag, þeir voru búnir að fylla sig og komu í land á sunnudagsmorgun með um 430 kör en það var ekki hægt að landa úr honum fyrr en áðan. Vinnslan er auðvitað komin á fullt en við náum að vinna u.þ.b. 150 kör í hvoru húsi á dag, svo þessi afli ætti að verða orðinn fullunninn á morgun. Það er mikið líf við höfnina núna og gefur Grindvíkingnum góða tilfinningu,“ sagði Jón Steinar.

VF Krossmói
VF Krossmói