RNB ráðhús
RNB ráðhús

Fréttir

Sjávarflóðin eyddu yfir 2300 æðarhreiðrum við Norðurkot
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 15. mars 2025 kl. 14:26

Sjávarflóðin eyddu yfir 2300 æðarhreiðrum við Norðurkot

Sjávarflóðin eyddu yfir 2300 æðarhreiðrum við Norðurkot

Sjávarflóðin um þarsíðustu helgi eyddu yfir 2300 hreiðurstæðum æðarfugls í landi Norðurkots II. Æðarbændur eru nú að dæla sjó af varpsvæðinu og vita ekki hvernig ástandið er á hreiðurstæðunum, hvort þau séu full af drullu og útflött.

VF Krossmói
VF Krossmói

Sigríður Hanna Sigurðardóttir, Hanna Sigga, æðarbóndi í Norðurkoti II við Sandgerði, segir ábúendur aldrei hafa upplifað annað eins og í sjávarflóðunum í byrjun mánaðar. Varpsvæði æðarfuglsins hafi allt farið á kaf í sjó í flóðunum um þarsíðustu helgi. Ábúendur í Norðurkoti  II hafi ráðist í dælingu á sjó í eigin reikning til að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Kostnaðurinn við eldsneyti á dæluna nemi nú þegar tugum þúsunda króna.

Hanna Sigga vakti athygli á stöðunni á landareigninni um helgina og sýndi þar svart á hvítu hvað sjávartjörnin var gríðarlega stór og mikil í samanburði við þá tjörn sem vanalega er á landareigninni. Hún benti á að aðeins sé um mánuður þar til æðarfuglinn fer í sína árlegu hreiðurgerð og varp.

Til að bregðast við ástandinu hafi verið keypt bensínknúin dæla með tveggja tommu stút sem hefur gengið dag og nótt síðustu sólarhringa við dælingu á sjó af landareigninni. Er áætlað að dælan afkasti um 10.000 lítrum á klukkustund. Hanna Sigga segist hafa viljað sjá dælur almannavara, sem staðsettar eru í Svartsengi, til að dæla sjónum af landareigninni. Þær dælur eru með átta tommu stút og því margfalda dælugetu á við það sem þau eru sjálf að ráða við.

Hanna Sigga segir að það verði að koma í ljós hvernig hreiðurstæðin komi undan sjávarflóðunum, hvort það sé drulla í hreiðrunum og þau útflött. Hún segist aldrei hafa séð annað eins ástand og eftir sjávarflóðin. Oft hafi komið sjór upp víkina og mikið í tjörnina en ekkert í líkingu við það sem gerðist á dögunum. Það sé því töluverð óvissa í dag með varplandið þar sem voru rúmlega 2300 hreiður síðasta sumar.

Eftir flóðin í mars 2025 í nágrenni Norðurkots við Sandgerði