Möstur Suðurnesjalínu 2 reist í sumar
- og verklok eru áætluð síðar á þessu ári
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu nokkurra landeigenda um að ógilt yrði ákvörðun umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra frá 21. júní 2024 um heimild Landsnet til eignarnáms réttinda vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 í landi þriggja jarða í Sveitarfélaginu Vogum.
Á vef Landsnets segir að brýnt er að ljúka framkvæmdum við Suðurnesjalínu 2 til að tryggja afhendingaröryggi raforku til íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum.
„Niðurstaðan kemur ekki á óvart enda hefur Suðurnesjalína 2 farið í gegnum mikla og vandaða vinnu ásamt samtali og samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu. Matsnefnd eignarnámsbóta hefur þegar úrskurðað um fjárhæð eignarnámsbóta vegna framkvæmdarinnar og er það von okkar hjá Landsneti að aðilar uni við afdráttarlausa niðurstöðu héraðsdóms og að málinu sé lokið,“ ef haft eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni forstjóra Landsnets á vef fyrirtækisis.
Framkvæmdir við línuna ganga vel en unnið er að jarðvinnu og undirstöðum. Möstur verða reist í sumar og verklok eru áætluð síðar á þessu ári og þar með lýkur langri uppbyggingarsögu Suðurnesjalínu 2.