RNB ráðhús
RNB ráðhús

Mannlíf

Sígarettustrókar um allt í fermingunni
Linda Gunnarsdóttir fékk eftirminnilega gjöf frá foreldrum sínum.
Sunnudagur 16. mars 2025 kl. 06:20

Sígarettustrókar um allt í fermingunni

Öllu til tjaldað fyrir frumburðinn Lindu sem vildi ekki vera í fermingarkjól

Linda Gunnarsdóttir er líklega best þekkt sem Linda í Palómu. Hún er Njarðvíkingur og fermdist árið 1982 í Njarðvíkurkirkju. Búðina Palómu í Grindavík keypti Linda fyrir tæpum tuttugu árum síðan og eftir að hafa rekið hana með góðum árangri þar í bæ fram að rýmingu í nóvember 2023, hefur Linda komið sér vel fyrir á Njarðarbrautinni á Fitjum. Þar geta mömmur og ömmur keypt fermingardressið, í sama kjarna geta fermingarpiltar, pabbar og afar keypt fötin í Marion, og til að skreyta fermingarsalinn er Mímósa nýbúin að opna í sömu byggingu.

Fermingarundirbúningurinn er Lindu minnisstæðastur.

„Ég veit ekki hvort það er ennþá þannig en í minningunni fórum við í fjölmargar fermingarferðir, þær voru ekki svo margar veit ég þegar ég fermdi strákana mína í Grindavík. Við vorum t.d. í Skálholti í fimm nætur og fórum einhverjar dagsferðir, þetta var mjög skemmtilegur tími. Eflaust var maður mest að fermast gjafanna vegna en ég reyndi að fylgjast vel með í fermingarfræðslunni.

VF Krossmói
VF Krossmói

Veislan var haldin heima og má segja að húsið hafi verið gert fokhelt, öll rúm og húsgögn drifin út í skúr og sett upp borð og stólar svo fólk gæti setið. Þetta er á þeim tíma sem reykingar voru algerlega frjálsar svo sígarettustrókurinn stóð út úr flestum herbergjum. Ætli hafi ekki verið 80-100 manns í veislunni, þetta var fyrsta ferming foreldra minna en við erum tvær systurnar, mig minnir að veisla Pöllu systur hafi líka verið haldin heima. Mamma sýndi mikinn metnað í veislunni minni, var bæði með mat og kaffihlaðborð, segja má að hún hafi tjaldað öllu til fyrir frumburðinn en hvort sami metnaður hafi verið þegar sú yngri var fermd, skal ósagt látið hér og nú. Þetta var geggjaður dagur man ég.“

Fataskipti frá athöfn til veislu

Linda hefur aldrei verið mikil kjólakona, það kom bersýnilega í ljós á unga aldri.

„Ég samdi við mömmu, hún vildi endilega hafa mig í fermingarkjól í kirkjunni en þar sem ég hef alltaf verið nokkuð ákveðin, tókst mér að semja um að fara í annað dress í veislunni og var því í fínum buxum og hvítri kögurpeysu. Ég hef aldrei verið mikið fyrir kjóla, vil frekar vera í fínu pilsi í dag.

Eftirminnilegasta gjöfin er líklega gjöfin frá mömmu og pabba, ferð til frænku minnar í Ameríku, n.t. til Virginia beach. Ferðin átti reyndar að vera lengri en ég var þó í mánuð í þessu landi tækifæranna, mjög skemmtileg ferð en svo kom upp heimþrá. Ég fékk líka flotta skartgripi, m.a. fallegan gullhring með steini í, ég á þann hring enn þann dag í dag. Ég fékk skrifborð frá ömmu og afa og einhverjar fleiri gjafir en það var ekki algengt þá að fá pening í gjöf, sá litli sem ég fékk fór beint í einhverja fatabúð, þá var vinsælt að hoppa upp í rútu og fara til Reykjavíkur, klippa sig stutt og sumir fengu sér tattú.

Ég er búin að ferma þrisvar sinnum, Steinþór sem verður fertugur á næsta ári, Gunnar sem er 36 ára og Sigurður sem er átján í dag. Steinþór og Sigurður undir sama þaki þar sem Northen light Inn er í dag en sá staður var einu sinni veitingastaður og hét þá Hjá Jenný. Gunnars veisla var í Salthúsinu hjá Láka og þar var boðið upp á kaffiveitingar, í hin tvö skiptin dýrindis matur. Þessar veislur gengu vonum framar og synir mínir voru himinlifandi með veislurnar og aðallega gjafirnar, mig grunar að þeir hafi verið meira í þessu fyrir þær. Eitthvað segir mér að það sé talsvert öðruvísi að ferma stráka heldur en stelpur, minna tilstand, engar greiðslur eða eitthvað slíkt. Ég held líka að stelpurnar séu ekki eins mikið í fermingunni gjafanna vegna, eitthvað segir mér að þær spái meira í boðskapnum en strákarnir en hvað veit ég.

Ég hvet alla til að kíkja á okkur, fullt af flottum fermingargjöfum, ég er t.d. með mikið úrval skartgripa og svo geta mömmurnar og ömmurnar keypt fermingardressið hjá mér, fermingarstrákarnir, pabbarnir og afarnir geta versla allt hjá Maríu í Marion og ef það þarf að skreyta fermingarsalinn, er Mímósa í sömu byggingu,“ sagði Linda að lokum.