Hamfarahönnun í Grindavík
Var búinn að hanna sundlaug í Grindavík en hannaði frekar uppbyggingu eftir hamfarir
Mikil hönnunarvinna hefur átt sér stað að undanförnu í Grindavík og er það Davíð Ingi Bustion, arkitekt sem hefur verið í fararbroddi fyrir hönd Batteríis arkitekta. Hann er ættaður frá Grindavík og bjó þar á sumrin þegar hann var lítill. Móðir Davíðs, Guðrún Bára Ingólfsdóttir, er frá Grindavík en pabbi hans er bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Dave Clarence Bustion en hann lék sem atvinnumaður í Sviss þar sem fjölskyldan settist að. Davíð ólst því að mestu upp í Genf í Sviss en kom öll sumur, páska og jól til Íslands og dvaldi hjá Vigdísi ömmu sinni í Grindavík.
Davíð hefur unnið mikið fyrir Grindavíkurbæ síðan hann kláraði mastersnám sitt í arkitektúr, hann var búinn að hanna nýja sundlaugaraðstöðu ásamt öðrum en þær fyrirætlanir fóru á ís vegna jarðhræringanna við Grindavík. Davíð dó þó ekki ráðalaus, hann fékk Batterí til að vinna að hönnun í kjölfar hamfaranna og síðasta haust voru fyrstu drög kynnt fyrir bæjarstjórn Grindavíkur og í kjölfarið kynnt bæjarbúum sem höfðu komið að hugmyndavinnunni.
Á dögunum var sýning nema í vöruhönnun, grafískri hönnun og arkitektúr við Listaháskóla Íslands en nemarnir voru í áfanga sem nefnist „Samfélag.“ Davíð var einn gestakennara í áfanganum. Hamfarirnar í Grindavík urðu að viðfangsefni þessa þriggja vikna áfanga og gátu gestir og gangandi séð afrakstur vinnunnar í byrjun febrúar. Mörg spennandi verkefni litu dagsins ljós og hafa nokkrir nemendur sótt um styrk til Nýsköpunarsjóðs til að vinna verkefnið áfram.
Körfubolti í Sviss
Davíð æfði körfubolta í Sviss og fyrir tímabilið 2012/2013 hafði hann samband og sýndi áhuga á að leika með liði Grindvíkinga sem þá voru ríkjandi Íslandsmeistarar. Davíð styrkti liðið til muna og eftir hatramma baráttu við Stjörnuna þar sem Grindavík lenti 1-2 undir, tókst liðinu að vinna tvo leiki og verja titilinn. Eftir þetta tímabil togaði nám í Davíð og hann flutti því til Reykjavíkur og fór í Listaháskóla Íslands að læra arkitektúr.
„Ég sótti um í Listaháskólann á meðan ég var að spila með Grindavík og komst inn en ég treysti mér ekki til að keyra á milli og því varð þetta eina tímabilið með Grindavík þar til nokkrum árum seinna þegar ég kom á miðju tímabili. Ég kláraði grunnnámið í arkitektúr, fór í starfsnám í þrjú ár hjá Batteríinu arkitektum og fór svo í mastersnám til Sviss og kláraði það árið 2021. Covid var skollið á og ég vann mikið fyrir Grindavíkurbæ, ég var hluti af teymi sem hannaði og útfærði hönnun á göngustígum, hundagerðinu, útisvæðinu við íþróttahúsið og ýmsu öðru. Ég kynntist mörgu af embættisfólki Grindavíkurbæjar og það var mjög gott upp á það sem fylgdi svo í kjölfarið nokkrum árum síðar. Í millitíðinni hönnuðum við nýju sundlaugaraðstöðuna í Grindavík, kynntum þá hönnun vorið ´23, ég var ofboðslega spenntur yfir þeim framkvæmdum en þær áttu einmitt að fara hefjast um það leyti sem rýma þurfti Grindavík vegna jarðhræringanna. Þetta voru mikil vonbrigði. Þetta var flottasta verkefni sem ég hafði unnið, ég var að vinna að þessu fyrir mitt bæjarfélag. Það verður gaman þegar Grindavík rís á ný og þessar framkvæmdir fara aftur á teinana, ég er sannfærður um að það eigi eftir að gerast og öll hönnun er tilbúin.“

Pro bono verkefni fyrir Grindavík
Batterí arkitektar hafa í gegnum tíðina tekið að sér verkefni án þess að þiggja greiðslu fyrir. Davíð Ingi kom með hugmynd til vinnuveitenda sinna.
„Þegar ég sá ástandið í Grindavík spurði ég eigendur Batterís hvort við gætum ekki hjálpað Grindavík. Vel var tekið í þessa pælingu mína og ég hafði samband við Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar, við fengum að sitja fundi og fylgjast með í byrjun janúar í fyrra. Nokkrum dögum síðar skall enn eitt áfallið á og allt fór í frost í nokkra mánuði en svo settum við boltann aftur á loft síðasta sumar sem endaði með flottri kynningu í september. Úr varð ákveðið rammaskipulag sem er í raun bara að koma hugmyndum í ákveðna framtíðarsýn, hvert vildi Grindavíkurbær stefna? Út frá þessu vorum við ráðnir í þetta verkefni og settum allt á fullt og kynntum drög að hönnun í desember. Þetta var unnið í frábæru samstarfi við Grindavíkurbæ og íbúum var gefinn kostur á að koma sínum hugmyndum á framfæri og hönnunin unnin út frá þeim. Grindavíkurbær fékk Grindvíkinginn Óskar Kristinn Vignisson sem einmitt útskrifaðist frá Listaháskólanum í myndlist en lærði svo kvikmyndagerð í Danmörku, til að búa til flott kynningarmyndband. Grindavíkurbær lagði áherslu á að þetta yrði tilbúið fyrir jólin, þótt Grindvíkingar væru ekki fluttir heim til Grindavíkur þá vildu bæjaryfirvöld kannski gefa Grindvíkingum þessa framtíðarsýn í jólagjöf.
Framkvæmdir eru ekki hafnar en ákveðin grunnvinna mun fljótlega fara í gang, t.d. að útbúa göngustíga í kringum hraunið sem rann inn í bæinn, það þarf að hanna og útbúa bílastæði svo ferðamenn viti hvert þeir eigi að fara, það er að ýmsu að huga. Það er sumt sem hægt er að ráðast í strax en svo erum við líka með langtímamarkmið. Ég sé fyrir mér að Grindavík geti orðið flottasti ferðamannabær á Íslandi og þó víða væri leitað en hvenær allt verði tilbúið er ómögulegt að segja til um á þessum tímapunkti. Það væri voðalegt gott að þurfa ekki að vera alltaf að bíða eftir næsta eldgosi en ég vil trúa að það versta sé afstaðið. Það verður ofboðslega gaman og spennandi að taka þátt í endurreisn Grindavíkurbæjar og ég lofa því að við hjá Batterí arkitektum munum leggja okkur alla fram við hönnunina svo sómi verði af, bæði fyrir íbúana og þá sem munu stunda atvinnustarfsemi í bænum. Framtíðin er mjög björt í Grindavík að mínu mati,“ segir Davíð.

Samfélag - hamfarir
Davíð Ingi var einn gestakennara í áfanga sem nefnist Samfélag. Þetta er mjög flottur áfangi nema á öðru ári í vöruhönnun, grafískri hönnun og arkitektúr. Þessi áfangi, Samfélag, hefur lengi verið kenndur en þá er spjótunum beint að einhverju samfélagslegu verkefni, t.d. að endurhanna skóla eftir flutninga eða eitthvað slíkt samfélagslegt verkefni. Augu allra beindust að Grindavík og hamförunum sem þar gengu yfir. Sá sem er yfir þessum áfanga heitir Björn Steinar Blumenstein, fagstjóri Vöruhönnunardeildar.

Nemendur sýndu fjölmörgum gestum hvað þeir hafa verið að gera að undanförnu.
„Það var gaman að sjá áhuga nemenda á viðfangsefninu. Nemendur fengu flotta fyrirlesara sem fjölluðu t.d. um hamfarir almennt, áhætturannsóknir og sérfræðingar á sviði hönnunar sem hafa komið að gagnvirkni hönnun ýmissa safna, s.s. Lava Center, voru líka á meðal fyrirlesara. Þetta miðaði allt að því að nemendur myndu fá víða innsýn inn í hvað hönnun getur verið mikið umbótarafl í tengslum við hamfarir, hvernig hönnuðir geta umbreytt hamförum í framfarir, með öðrum orðum snúið vörn í sókn.

Hugmynd að göngubrú úr gleri sem myndi liggja í sprungu.
Það er gaman frá því að segja að mörg verkefnanna fengu mikla athygli og hafa nokkrir hópar nú þegar sótt um styrk til Nýsköpunarsjóðs, til að þróa hönnunina enn frekar. Það var gaman að sjá hvernig nemendur þessara ólíku námsgreina mættust, þau áttu samtöl við fólk úr vísindasamfélaginu og úr urðu mjög spennandi verkefni sem ég hef fulla trú að muni fara alla leið og nýtast Grindavík og Grindvíkingum. Nemendur fengu byr undir báða vængi vegna áhuga Grindavíkurbæjar á verkefninu, þá sáu þau að þau voru ekki bara að hanna eitthvað út í tómið, þau sáu að það gæti eitthvað meira orðið úr vinnunni. Það var gaman að sjá áhuga þeirra bæjarstarfsmanna, -fulltrúa og annarra Grindvíkinga sem mættu á sýninguna, margir töluðu um gleði sína yfir að sjá svo flotta framtíðarsýn fyrir bæinn sinn.
Ég er mjög stoltur af starfsfólki Listaháskólans, þar er unnið frábært starf og kannski er gott að leiðrétta misskilning margra varðandi Listaháskólann, það eru ekki bara lattelepjandi heimspekinemendur eða tilvonandi ljóðskáld, leikarar eða tónlistarfólk, sem lærir í skólanum, allar þessar greinar eins og grafísk hönnun, vöruhönnun, arkitektúr og fleira, er með jafn mikið vægi í skólanum. Skólinn hefur útskrifað fjölmarga hæfileikaríka nemendur sem hafa komið að miðlun, stefnumótun, þróun og hönnun í tengslum við eldsumbrotin á Reykjanesinu, þar með taldir Davíð Ingi og Óskar Kristinn, sem undirstrikar mikilvægi þessara greina í samfélagi á umrótartímum,“ segir Björn Steinar.
Björn Steinar sem stóð að þróun Samfélag-námskeiðsins ásamt Kolbrúnu Þóru, Evu Jóhannesdóttur og Óskari Erni, hvetur alla sem hafa áhuga á hönnun og bara listum yfir höfuð, að koma í heimsókn í Listaháskólann og kynna sér hvernig námið er.

Það vantar ekki hugmyndaflugið í nemendur Listaháskólans.
